2012-05-23 11:16:13 CEST

2012-05-23 11:17:15 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2012


Afkoma Arion banka á fyrsta ársfjórðungi ársins 2012 var jákvæð um 4,5
milljarða króna eftir skatta samanborið við 3,0 milljarða á árinu 2011. Arðsemi
eigin fjár var 16,5% samanborið við 11,3% á sama tímabili árið 2011.
Árshlutareikningurinn fyrir fyrsta ársfjórðung 2012 er óendurskoðaður. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 20,2% en í lok fyrsta
ársfjórðungs 2011 var það 19,2%, krafa Fjármálaeftirlitsins kveður á um 16%
eiginfjárhlutfall. 

Helstu atriði árshlutareikningsins:

  -- Hagnaður eftir skatta nam 4,5 mö.kr. samanborið við 3,0 ma.kr. á sama
     tímabili 2011.
  -- Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 2,5 mö.kr. samanborið við 3,1 ma.kr. á
     síðasta ári.
  -- Rekstrartekjur námu alls 10,9 mö.kr. samanborið við 9,5 ma.kr. 2011.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 6,2 mö.kr. samanborið við 5,9 ma.kr. árið 2011.
  -- Arðsemi eigin fjár var 16,5% en var 11,3% árið 2011. Arðsemi af reglulegri
     starfsemi var 9,1% samanborið við 12,7% á sama tímabili í fyrra.
  -- Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,1% á tímabilinu
     samanborið við 3,4% árið 2011.
  -- Eiginfjárhlutfall var 20,2% samanborið við 19,2% á sama tíma 2011 og 21,2%
     í lok árs 2011. FME gerir kröfu um 16%.
  -- Lausafjárhlutfall bankans var 30,2% sem er vel yfir 20% kröfu FME.
  -- Reiðufjárhlutfall bankans var 13,9%, en FME gerir kröfu um 5%.
  -- Útlán til viðskiptavina í lok tímabilsins námu 584,2 mö.kr., samanborið við
     432,5 ma.kr. á sama tíma 2011. Aukningin skýrist fyrst og fremst af
     yfirtöku á íbúðalánasafni Kaupþings undir lok árs 2011.
  -- Heildareignir námu 899,4 mö.kr., samanborið við 802,7 ma.kr. í lok mars
     2011.
  -- Eigið fé bankans í lok mars 2012 var 119,0 ma.kr. en nam 112,7 mö.kr. í lok
     mars 2011.



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Uppgjörið fyrir fyrsta ársfjórðung er gott. Uppgjörið ber vott um þann
stöðugleika sem verið hefur í grunnrekstri bankans undanfarin misseri. Það er
einnig jákvætt hve vel fjárfestar hafa tekið sértryggðri skuldabréfaútgáfu
bankans, jafnt verðtryggðri útgáfu sem og óverðtryggðri. Útgáfan stuðlar að
aukinni fjölbreytni  í fjármögnun bankans sem er afar mikilvægt. Hins vegar
hefur óvissa sem tengist gengislánum og dómum Hæstaréttar dregið verulega úr
hraða við úrvinnslu skuldamála. Þessi óvissa er óþægileg fyrir viðskiptavini
okkar, en til að eyða óvissunni þarf Hæstaréttur að fella fleiri dóma og er
brýnt að það verði sem fyrst. En uppgjörið sýnir að bankinn er fjárhagslega
sterkur og vel í stakk búinn til að mæta þörfum einstaklinga og atvinnulífs.“ 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.