2014-07-23 18:05:47 CEST

2014-07-23 18:06:48 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Ársreikningur

Marel -Afkoma annars ársfjórðungs 2014


Verkefnastaða batnar verulega - Hagræðing rekstrar samkvæmt áætlun

(Allar upphæðir í Evrum)

Verkefnastaða batnar verulega - Hagræðing rekstrar samkvæmt áætlun

  --  Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2014 námu 169,8 milljónum evra [Q2 2013:
     178.4 milljónir evra].
  --  Leiðrétt EBITDA ( leiðrétt fyrir kostnaði vegna hagræðingaraðgerða) var
     18,0 milljónir evra sem er 10,6% af tekjum. EBITDA var 13,0 milljón evra
     sem er 7,7% af tekjum [Q2 2013: 19,0 milljónir evra].
  --  Leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) var 10,7 milljónir evra, sem er 6,3%
     af tekjum. EBIT var 3.6 milljón evra sem er 2,1% af tekjum [Q2 2013: 12,3
     milljónir evra].
  --  Hagnaður annars ársfjórðungs 2014 nam 0,8 milljónum evra [Q2 2013: 5,2
     milljónir evra]. Hagnaður á hlut var 0,10 evru sent [Q2 2013: 0,71 evru
     sent á hlut].
  --  Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 20,4 milljónum
     evra á öðrum ársfjórðungi 2014 [Q2 2013: 25,3 milljónir evra]. Nettó
     vaxtaberandi skuldir í lok fjórðungsins námu  204,5 milljónum evra [Q2
     2013: 228,8 milljónir evra].
  --  Pantanabók stóð í 156,4 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs 2014 
     samanborið við 138,4 milljónir evra í lok fyrsta ársfjórðungs [Q2 2013:
     131,8 milljón evra].

Markaðir Marel hafa þróast með jákvæðum hætti. Með markvissri markaðssókn hefur
Marel tryggt gott  jafnvægi á milli stærri pantana, pantana á stöðluðum vörum
og varahlutum. Rekstrarhagnaður af starfsemi Marel  í kjúklingaiðnaði hefur
batnað og starfsemi í laxaiðnaði gengur vel. 

Áætlun um skýrari rekstraráherslur (e. simpler, smarter and faster) gengur eins
og gert var ráð fyrir. Markmiðið er að mæta þörfum viðskiptavina með
skilvirkari hætti og draga úr árlegum kostnaði um 20-25 milljónir evra. Á fyrri
helmingi ársins hefur tekist að minnka árlegan kostnað um 8 milljónir evra á
meðan einskiptiskostnaður nemur 10,7 milljónum evra. 

Í byrjun árs tilkynnti Marel að gert væri ráð fyrir 55 milljóna evra leiðréttum
rekstrarhagnaði (e. adjusted EBIT) á árinu með innri tekjuvexti. Byggt  á stöðu
pantana og horfum á mörkuðum er innri vöxtur raunhæfur. Uppfært mat stjórnenda
gerir ráð fyrir að leiðréttur rekstrarhagnaður verði 40-50 milljónir evra. 
Megináhersla er á aukna skilvirkni í markaðssókn og rekstri með það að markmiði
að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði yfir 100 milljónir evra. 

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:
„Við erum ánægð með þá áfanga sem náðust á öðrum ársfjórðungi. Rekstrarafkoma
Marel batnaði, pantanastaðan er sterk og við höfum tekið markviss skref í
hagræðingu rekstrar. 

Mótteknar pantanir sem gefa góða vísbendingu um framtíðartekjur námu 188
milljónum evra  í  ársfjórðungnum. Gott jafnvægi er á milli pantana á stórum
kerfum, stöðluðum vörum og varahlutum. Þá er landfræðileg dreifing pantana góð
en þær komu m.a.  frá Indlandi, Kína, Mið-Austurlöndum  og Suður Ameríku til
viðbótar við pantanir frá viðskiptavinum okkar í Bandaríkjunum og Evrópu. 

Rekstrarniðurstaðan er enn ekki viðunandi. Við vinnum nú að því að gera félagið
skilvirkara, skerpa á markaðssókn þess og hámarka nýtingu á framleiðslueiningum
okkar. Markmiðið er skýrt - að auka langtímavirði fyrir viðskiptavini og
hluthafa". 


Hagræðing rekstrar samkvæmt áætlun
Áætlun um skýrari rekstraráherslur var hleypt af stokkunum í upphafi árs og
gengur eins og gert var ráð fyrir. Markmiðið er að mæta þörfum viðskiptavina
með skilvirkari hætti og draga úr árlegum kostnaði um 20-25 milljónir evra en
það mun bæta afkomu félagsins til lengri tíma litið og styðja við vöxt þess og
virðisaukningu. 

 Á fyrri helmingi ársins hefur nú þegar tekist að draga úr árlegum kostnaði sem
nemur í kringum 8 milljónir evra samanborið við einskiptiskostnað sem nemur
10,7 milljónum evra fyrir sama tímabil. Á fyrsta ársfjórðungi tókst að draga úr
árlegum kostnaði sem nemur 3,6 milljónum evra, sem var sama upphæð og
einskiptiskostnaður á tímabilinu.  Á öðrum ársfjórðungi tókst að draga úr
árlegum kostnaði á bilinu 4-5 milljónir evra á meðan einskiptiskostnaður nam í
kringum 7,2 milljónir evra. 

Aðgerðir á öðrum ársfjórðungi:
• Endurskipulagning á starfsemi Marel í Hollandi og flutningur á starfsemi frá
Oss til Boxmeer. Flutningurinn mun auka skilvirkni og tryggja samþættingu í
rekstri, m.a. í framleiðslu og nýsköpun. Stefnt er að því að ljúka flutningnum
fyrir lok þessa árs. 

• Marel hefur nú lokið við flutning á starfsemi í laxaiðnaði frá Norresundsby
til Stovring í Danmörku. Með flutningum næst það markmið að flytja starfsemina
í stærra og nýrra húsnæði til þess að vera betur í stakk búin til að mæta
framtíðarvexti í iðnaðinum. 

• Marel hefur nú keypt þjónustu og varahlutastarfsemi í Danmörku og Svíþjóð af
umboðsaðila félagsins.  Marel býður nú viðskipavinum sínum á Norðurlöndum
heildarframboð á stærri kerfum, stöðluðum vörum og þjónustu sem mun þjóna
viðskiptavinum betur og styrkja tekjugrunn félagsins. 

Marel mun halda áfram að auka skilvirkni og draga úr kostnaði með því að
samþætta einingar sem þjóna sömu þörfum viðskiptavina og byggja á samskonar
grunntækni. Framundan er hámörkun á framleiðslueiningunum sem felur í sér aukna
áherslu á stærri einingar þar sem mismunandi iðnaðir koma saman undir einu
þaki. Þetta mun gera félaginu kleift að auka nýtingu og mæta sveiflum í rekstri
með aukinni hagræðingu. Vöruframboð verður einnig endurskoðað og skilvirkni
aukin á öllum sviðum til að tryggja að reksturinn endurspegli getu og
samkeppnisstöðu félagsins. 

Góð verkefnastaða á öðrum ársfjórðungi
Jákvæð þróun hefur orðið á mörkuðum og með markvissri markaðssókn hefur Marel
tryggt gott innflæði pantana á öðrum ársfjórðungi. Jafnvægi er á milli stærri
pantana og pantana á stöðluðum vörum og varahlutum. Pantanabókin stendur í
156,4 milljónum evra sem er hækkun um 18 milljónir frá fyrri ársfjórðungi.
Nýjar pantanir námu 187,8 milljónum evra samanborið við 160,8 milljónir evra á
fyrsta ársfjórðungi og 159,1 milljón evra í sama ársfjórðungi fyrir ári síðan. 
Á öðrum ársfjórðungi tókst að tryggja pantanir frá öllum heimshornum sem 
staðfestir að staða Marel er sterk og vöruframboð gott. 

Horfur
Í byrjun árs tilkynnti Marel að gert væri ráð fyrir 55 milljóna evra leiðréttum
rekstrarhagnaði (e. adjusted EBIT) á árinu með innri tekjuvexti. Byggt  á stöðu
pantana og útliti á mörkuðum er innri vöxtur raunhæfur. Uppfært mat stjórnenda
gerir ráð fyrir að leiðréttur rekstrarhagnaður verði 40-50 milljónir evra. 
Megináhersla er á aukna skilvirkni í markaðssókn og rekstri með það að markmiði
að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði yfir 100 milljónir evra. 

Til meðal og lengri tíma litið, telur Marel að nýsköpun og sterk markaðsstaða
um allan heim í öllum iðnuðum félagsins muni skila góðum vexti og aukinni
arðsemi.  Framtíðarhorfur eru góðar og gert er ráð fyrir því að markaðsvöxtur
nemi 4-6%  á næstu árum. Markmið Marel er að halda áfram að vaxa hraðar en
markaðurinn. 

Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga
vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningar stærri
verkefna.