2015-02-26 17:03:09 CET

2015-02-26 17:04:11 CET


REGULATED INFORMATION

This message has been corrected. Click here to view the corrected message

Islandic English
Landsbankinn hf. - Ársreikningur

Landsbankinn hf.: Ársuppgjör 2014


Hagnaður Landsbankans  29,7 milljarðar króna árið 2014

Hagnaður Landsbankans á árinu 2014 nam 29,7 milljörðum króna eftir skatta
samanborið við 28,8 milljarða króna á árinu 2013. Arðsemi eiginfjár eftir
skatta á árinu 2014 var 12,5%. Hreinar vaxtatekjur bankans lækkuðu verulega
milli ára, eða um 6,2 milljarða króna og vaxtamunur var 2,4% af meðalstöðu
heildareigna árið 2014 samanborið við 3,1% árið áður. Hagnaður á fjórða
ársfjórðungi 2014 nam 9,8 milljörðum króna samanborið við 6,5 milljarða króna á
sama fjórðungi 2013. 

Heildareignir bankans lækkuðu um 53,1 milljarð króna á milli ára og stóðu í
árslok í 1.098 milljörðum króna. Útlán jukust um 6% á árinu og voru í árslok
718 milljarðar króna. Aukningin byggist fyrst og fremst á mikilli aukningu í
íbúðalánum. Vanskil útlána voru 2,3% í árslok og lækkuðu verulega á árinu. Í
samræmi við sett markmið, hefur eign bankans í hlutabréfum, hlutdeildarfélögum
og eignum til sölu lækkað verulega á árinu, eða um 27 milljarða króna. 

Innlán frá viðskiptavinum voru í árslok 551,4 milljarðar króna og jukust
verulega á árinu, en innlán frá fjármálafyrirtækjum minnka að sama skapi[1].
Eigið fé bankans stóð í 250,8 milljörðum króna í árslok og hækkaði um 9,4
milljarða þrátt fyrir að greiddur hafi verið um 20 milljarða króna arður til
hluthafa á árinu 2014. Eiginfjárhlutfall bankans (e. Capital Adequacy Ratio)
byggir eingöngu á eiginfjárþætti A og var 29,5 í árslok, en var 26,7% í lok árs
2013. 



Steinþór Pálsson bankastjóri segir:

„Afkoma Landsbankans á árinu 2014 var góð og fjárhagsstaðan er traust.
Eiginfjárhlutfallið er með því hæsta sem þekkist meðal banka um víða veröld og
lausafjárstaðan með ágætum, þrátt fyrir að bankinn hafi greitt út 20 milljarða
króna arð til hluthafa á árinu, töluverðan útlánavöxt og verulega
fyrirframgreiðslu inn á skuld bankans við LBI hf. 

Bæði útlán og eignir verða æ traustari eins og lækkun vanskila og sala á
hlutabréfum og öðrum eignum bera með sér. Fram hjá því verður hins vegar ekki
horft að stór hluti af tekjum bankans eru jákvæðar virðisbreytingar af útlánum
og hagnaður af hlutabréfum. Einskiptisliðir hafa litað afkomuna á undanförnum
árum, en viðbúið er að áhrif þeirra minnki verulega á næstu árum. Landsbankinn
stendur frammi fyrir því að nauðsynlegt er að auka hagkvæmni reglubundins
rekstrar með lækkun kostnaðar og bættri tekjusamsetningu svo áfram takist að
skila ásættanlegri arðsemi á eigið fé bankans. 

Endurskipulagningu og leiðréttingu á tugum þúsunda lána sem bankinn tók yfir
við stofnun er nú lokið. Þegar allt er talið saman varðandi virðisbreytingar
þeirra útlána sem færðust frá LBI hf. til Landsbankans við stofnun hans þá
kemur í ljós að hreinar gjaldfærslur í rekstrarreikningi bankans vegna lána til
heimila eru rúmir 12 milljarðar króna, eða -7% af kaupverði lánanna, og
tekjufærsla vegna lána til fyrirtækja tæpir 25 milljarðar króna, eða +5% af
þeim lánum. 

Mikilvægur áfangi náðist í desember 2014 þegar samkomulag um breytingar á skuld
Landsbankans við LBI hf. tók gildi. Samkomulagið dregur verulega úr
endurfjármögnunaráhættu bankans í erlendri mynt og greiðir fyrir því að
Landsbankinn geti endurfjármagnað sig á ásættanlegum kjörum á alþjóðlegum
fjármálamörkuðum þegar fram í sækir. 

Við erum stolt af því að markaðshlutdeild Landsbankans fer vaxandi og að
bankinn skili samfélaginu öllu ávinningi. Skattar vegna ársins 2014 eru um 10,5
milljarðar króna og þá verður lagt til við aðalfund að samþykkt verði að greiða
hluthöfum arð að fjárhæð tæplega 24 milljarðar króna. Samanlagðar arðgreiðslur
vegna síðustu þriggja rekstrarára munu því nema um 53,5 milljörðum króna. 

Framundan eru spennandi tímar við að þróa rekstur Landsbankans, efla þjónustu
við heimilin og atvinnulífið og vinna að breytingum á eignarhaldi eins og
stærsti eigandi bankans hefur boðað að orðið geti fljótlega.“ 



Helstu stærðir úr rekstri á 4F 2014

  -- Hagnaður nam 9,8 milljörðum króna á 4F 2014, samanborið við 6,5 milljarða
     króna á sama fjórðungi 2013.
  -- Arðsemi eigin fjár hækkar talsvert á milli tímabila og var 15,9% á 4F 2014
     samanborið við 10,9% á sama ársfjórðungi 2013.
  -- Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 6,1 milljarð á 4F 2014 en námu 3,9
     milljörðum á 4F 2013.
  -- Hreinar vaxtatekjur lækkuðu milli tímabila og voru 5,8 milljarðar á 4F 2014
     en tæpir 10 milljarðar á 4F 2013.
  -- Hreinar þjónustutekjur hækkuðu á milli tímabila og voru 1,6 milljarðar
     króna á 4F 2014 samanborið við 1,2 milljarða á sama tímabili 2013.



Helstu stærðir úr rekstri og efnahag árið 2014

Rekstur:

  -- Hagnaður Landsbankans nam 29,7 milljörðum króna árið 2014, samanborið við
     28,8 milljarða króna árið áður.
  -- Arðsemi eigin fjár eftir skatta hækkar lítillega, þrátt fyrir hækkun
     eiginfjár. Arðsemin var 12,5% árið 2014 samanborið við 12,4% árið 2013.
  -- Hreinar vaxtatekjur lækkuðu um 6,2 milljarða króna frá fyrra ári, námu 28,1
     milljarði króna á árinu 2014 samanborið við 34,3 milljarða króna á árinu
     2013.
  -- Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkaði milli ára, var
     2,4% á árinu 2014 en 3,1% árið 2013.
  -- Hreinar þjónustutekjur námu 5,8 milljörðum króna og hafa aukist lítillega
     frá því árið áður.
  -- Virðisbreytingar á árinu 2014 voru jákvæðar um 20 milljarða króna á útlánum
     og 9 milljarða króna á fjáreignum.
  -- Að teknu tilliti til verðbólgu hefur raunhækkun rekstrarkostnaðar milli ára
     verið 5,9%. Markmið bankans var að lækka rekstrarkostnaðinn.
  -- Laun og launatengd gjöld hækka um 8% milli ára en sú hækkun skýrist að
     hluta til af gjaldfærslum vegna starfslokasamninga er gerðir voru á árinu.
     Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum hækkar um 7%.
  -- Kostnaðarhlutfall hækkar á milli ára, var 56,0% fyrir árið 2014 en var
     42,9% fyrir árið 2013.
  -- Skattar Landsbankans á árinu 2014 voru 10,5 milljarðar króna samanborið við
     13,2 milljarða ári fyrr.
  -- Stöðugildi í lok árs voru 1.126 og fækkaði um 57 á árinu.



Efnahagur:

  -- Eigið fé bankans nam í lok árs 2014 um 250,8 milljörðum króna. Það hefur
     hækkað um 4% frá árslokum 2013 þrátt fyrir 20 milljarða króna arðgreiðslu á   árinu.
  -- Eiginfjárhlutfall bankans (CAR - Capital Adequacy Ratio) er hátt og vel
     umfram kröfur Fjármálaeftirlitsins. Það var 29,5% í lok árs 2014 en 26,7% í
     lok árs 2013.
  -- Heildareignir bankans námu 1.098 milljörðum í lok árs 2014. Heildareignir
     lækka um 5% milli ára og skýrist helst af lækkun á hluta- og
     skuldabréfaeign bankans og lækkun á skuld við LBI hf.
  -- Landsbankinn hefur lánað rúma 162 milljarða króna í ný útlán á árinu en
     vegna afborgana og styrkingar krónunnar og þar með lækkunar erlendra lána
     aukast heildarútlán um samtals 38 milljarða króna.
  -- Innlán viðskiptavina án fjármálafyrirtækja jukust um 21% á árinu eða um 95
     milljarða króna. Hluti af þessari aukningu er tilkominn vegna þess að
     innlán frá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð teljast til almennra innlána
     frá þeim tíma er Fjármálaeftirlitið afturkallar starfsleyfi þeirra að
     fullu.
  -- Lausafjárstaða bankans er mjög sterk, bæði í erlendri mynt og í íslenskum
     krónum og vel yfir kröfum eftirlitsaðila. Hlutfall lausafjár af innlánum
     var 39% í lok árs 2014 en var 50% í lok árs 2013. Heildarlausafjárstaða
     bankans, sem og lausafjárstaða bankans í erlendri mynt, er jafnframt  vel
     umfram lausafjárviðmið Seðlabankans.
  -- Gjaldeyrisjöfnuður bankans er í góðu horfi og eignir í erlendri mynt eru um
     20,3 milljarðar króna umfram skuldir í erlendri mynt.
  -- Liðurinn eignir til sölu lækkar um tæpa 7 milljarða króna á árinu og
     verðmæti hlutabréfa og hlutdeildarfélaga um rúma 20 milljarða.
  -- Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum stóðu í 2,3% í lok árs 2014, en
     í 5,3% á sama tíma árið áður.



Helstu þættir í rekstri á árinu

  -- Hið alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtæki Standard & Poor‘s (S&P)
     veitti Landsbankanum í janúar lánshæfiseinkunina BB+ með stöðugum horfum. Í
     október breytti svo S&P horfum lánshæfiseinkunnar bankans úr stöðugum í
     jákvæðar og staðfesti ‘BB+/B' lang- og skammtímaeinkunn bankans.
  -- Landsbankinn greiddi arð til eigenda sinna í mars í samræmi við samþykkt
     aðalfundar og nam hún 70% af hagnaði síðasta árs, eða tæpum 20 milljörðum
     króna. Arðgreiðslan kom til lækkunar á eigin fé á fyrsta ársfjórðungi.
  -- Í mars tók gildi nýtt skipulag útibúa Landsbankans á höfuðborgarsvæðinu og
     eru öll útibú bankans á því svæði eftirleiðis einstaklingsútibú. Öll
     viðskipti smærri og meðalstórra fyrirtækja færðust í nýja fyrirtækjamiðstöð
     í Borgartúni 33.
  -- Í júní seldi Landsbankinn 9,9% eignarhlut í FSÍ (Framtakssjóður Íslands)
     slhf. og allan eignarhlut sinn í IEI slhf., eða sem nemur 27,6%, en í
     árslok 2013 var FSÍ skipt upp í tvö félög, FSÍ slhf. og IEI slhf.
     Heildarsöluandvirðið var rúmlega 7 milljarðar króna.
  -- Í ágúst skráði Landsbankinn EMTN skuldabréfaramma (Euro Medium Term Note) í
     kauphöll á Írlandi. Þetta gefur bankanum færi á að gefa út skuldabréf þegar
     kjör verða hagstæð, að jafnvirði allt að 1 milljarði evra í ýmsum
     gjaldmiðlum og á föstum eða fljótandi vöxtum.
  -- Í september gaf Landsbankinn út nýjan flokk sértryggðra skuldabréfa, LBANK
     CB 19. Skuldabréfin eru óverðtryggð með föstum 6,8% vöxtum til fimm ára.
     Fjárhæð útgáfunnar nemur 960 milljónum króna. Fyrr á árinu hafði útgáfa
     sértryggðra skuldabréfa bankans verið aukin um 1,5 milljarða króna.
  -- Í samræmi við sátt sem Landsbankinn gerði við Samkeppniseftirlitið þá hefur
     bankinn unnið að breytingum á kortamálum sem ætlað er að einfalda og bæta
     þjónustu við viðskiptavini og tryggja um leið sjálfstæði bankans á þessum
     markaði. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að Landsbankinn seldi
     meirihlutaeign sína í bæði Valitor og Borgun seinni hluta árs 2014.
  -- Í október gerðu óháðir aðilar ytra gæðamat á innri endurskoðun
     Landsbankans. Niðurstöður gæðamatsins sýna að starfsemi innri
     endurskoðunardeildar Landsbankans er í samræmi við alþjóðlega staðla og
     siðareglur en það er besta umsögn sem hægt er að fá í slíku mati samkvæmt
     aðferðafræði alþjóðlegra samtaka um innri endurskoðun.
  -- Í byrjun desember kom til framkvæmda breyting á skilmálum skuldabréfa
     Landsbankans og LBI hf. sem samið var um í desember 2009. Lokagjalddagi
     skuldabréfanna verður árið 2026 í stað 2018, rutt er úr vegi íþyngjandi
     takmörkunum á arðgreiðslur og dregið úr kröfum um veðsetningu eigna.
  -- Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti veitti Landsbankanum í desember
     viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum eftir að hafa
     bankinn hafði undirgengist úttekt á starfsháttum stjórnar og stjórnenda
     fyrirtækisins.
  -- Mikill vöxtur var í íbúðalánum á árinu og voru ný íbúðalán rúmlega tvöfalt
     meiri en árið áður.  Íbúðalán eru nú um 66% af útlánum bankans til
     einstaklinga. Tæplega 40% nýrra íbúðalána á árinu voru óverðtryggð
     samanborið við um 50% árið á undan. Fjöldi nýrra samninga um
     lífeyrissparnað þrefaldaðist á árinu 2014 miðað við undangengið ár.
  -- The Banker, tímarit á vegum Financial Times, birti í júlí mat sitt á styrk
     og frammistöðu 1.000 fremstu banka heimsins. Landsbankinn er í 20. sæti í
     heiminum og 1. sæti í Vestur-Evrópu þegar metinn er fjárhagslegur styrkur.
  -- Landsbankinn var eitt fjögurra fyrirtækja sem tilnefnd voru til
     Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014.
  -- Landsbankinn var eitt þeirra fimm fyrirtækja sem tilnefnd voru sem
     markaðsfyrirtæki ársins 2014 að hálfu ÍMARK.
  -- Alþjóðlega fjármálaritið Global Finance valdi Landsbankann besta bankann á
     Íslandi.
  -- Alþjóðlega fjármálatímaritið International Finance valdi Landsbankann besta
     bankann á Íslandi og taldi netbanka Landsbankans besta netbankann.
  -- Nýr netbanki var valinn besta þjónustusvæðið þegar Íslensku vefverðlaunin
     voru afhent í janúar 2015.



Nánari upplýsingar veita:

Kolbrún Guðlaugsdóttir, fjárfestatengill, ir@landsbankinn.is og í síma 410 4014

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 4011



[1] Innlán frá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð sem misst hafa starfsleyfi að
fullu teljast til almennra innlána.