2008-05-20 20:22:50 CEST

2008-05-20 20:23:52 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Icelandair Group hf. - Ársreikningur

-Afkoma Icelandair Group á fyrsta ársfjórðungi 2008


Helstu niðurstöður fyrir fyrsta ársfjórðung 2008

 * Heildarvelta félagsins var 14 milljarðar króna og jókst um 18% frá sama tíma
   í fyrra 
 * Vegna árstíðasveiflu í flugi og ferðaþjónustu er afkoma jafnan neikvæð á
   fyrsta ársfjórðungi og nú var EBITDA neikvæð um 857 milljónir króna 

 * EBIT var neikvæð um 1,7 milljarða króna

 * Tap eftir skatta var 1,7 milljarðar króna, en var 1,2 milljarðar króna á
   sama  tíma  í fyrra 

 * Enginn söluhagnaður færður til tekna á fyrsta ársfjórðungi 2008 en var 1,2 
   milljarður króna á sama tíma í fyrra.
 * Grunnrekstur styrkist

 * Eignir voru 73,8 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs samanborið við
   66,8 milljarða í lok árs 2007 

 * Eiginfjárhlutfall var 34%

 * Handbært fé frá rekstri var 3,1 milljarður króna

 * Skipulag Icelandair Group hefur verið einfaldað, Sigþór Einarsson verður    
   aðstoðarforstjóri 

 * Nýir stjórnendur teknir við hjá Icelandair og breytingarverkefnum hrint í
   framkvæmd 
 * Fyrsta Boeing 787 Dreamliner breiðþotan leigð út



Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group:

„Rekstur Icelandair Group á fyrsta ársfjórðungi er nokkru betri en við gerðum
ráð fyrir, í mun erfiðara árferði en á síðasta ári. Eldsneytiskostnaður
félagsins hefur aukist um tæpan einn milljarð króna frá sama tíma 2007, auk
þess sem að á fyrsta ársfjórðungi í fyrra var færður til bókar tæplega 1,2
milljarða króna söluhagnaður eigna. 

Verkefnastaða okkar í leiguflugsviðskiptum er góð sem og bókunarstaða í
áætlunarflugi. En við sjáum fram á viðvarandi hátt eldsneytisverð og gerum ráð
fyrir að það muni, ásamt ótryggu efnahagsástandi, hafa áhrif á eftirspurn í
flugi og ferðaþjónustu. Eitt helsta viðfangsefni okkar nú er að fást við þessar
breyttu aðstæður og gera félagið í stakk búið til að takast á við nýja framtíð. 

Við erum að laga fyrirtækin innan Icelandair Group að þessum veruleika, auka
snerpu þeirra og sveigjanleika. Við höfum einfaldað skipulag samstæðunnar og
Sigþór Einarsson verður aðstoðarforstjóri. Nýráðinn framkvæmdastjóri
Icelandair, Birkir Hólm Guðnason, hefur nú þegar gert breytingar innan
Icelandair og mun halda þeim áfram. Samið hefur verið um útleigu á fyrstu
Boeing 787 Dreamliner breiðþotunni sem félagið á í pöntun. Fallið hefur verið
frá vaxtaráformum hjá Icelandair Cargo. Ákveðið hefur verið að félagið hasli
sér völl á ný í ferðaskrifstofurekstri. Samið hefur verið við flugstéttir til
skamms tíma. 

Með þessum aðgerðum og fleirum erum við að treysta grunnrekstur okkar, draga úr
áhættu og styrkja Icelandair Group til framtíðar“.