2008-10-06 13:03:30 CEST

2008-10-06 13:04:31 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Nýherji hf. - Fyrirtækjafréttir

- Nýtt viðskiptamódel Nýherja hf.


Stjórn Nýherja hf. hefur ákveðið að innleiða nýtt viðskiptamódel og skipulag
fyrir félagið. Markmið með breytingunum er að skerpa áherslur með sérhæfingu
dótturfélaga á einstökum sérsviðum ásamt því að samhæfa og auka hagkvæmni í
rekstri félagsins. 

Helstu breytingar felast í eftirfarandi:

•  Nýherji hf. verður móðurfélag sex megin dótturfélaga. Einnig verður sala og
   vörustjórnun á tölvu og tæknibúnaði hjá Nýherja hf. 

•  Hvert dótturfélag sérhæfir sig á afmörkuðu sviði þjónustu, hugbúnaðar eða
   ráðgjafar með það að markmiði að mæta þörfum viðskiptavina á því sérsviði. 

•  Dótturfélögin verða:
   o  Skyggnir ehf. sérhæft á sviði bestunar UT kerfa, samþættingu
      samskiptalausna og rekstrarþjónustu. 
   o  Sense ehf. fyrir stafrænar lausnir, svo sem fyrir hljóð- og myndbúnað.
   o  TM Software ehf. með áherslu á viðameiri hugbúnaðarþróun og samþættingu
      kerfa. 
   o  Applicon ehf. með áherslu á viðskiptahugbúnað, fjármálalausnir og
      sérhæfðar atvinnugreinalausnir. 
   o  Nýtt félag verður stofnað um alla sameiginlega stoðþjónustu fyrir
      samstæðuna, en það mun í framtíðinni einnig bjóða slíka þjónustu til
      annarra viðskiptavina. 
   o  ParX ehf. sem mun áfram verða sérhæft á sviði vandaðrar
      viðskiptaráðgjafar. 

•  Starfsemin mun að verulegum hluta flytjast að Urðarhvarfi 6 í Kópavogi, þar
   sem TM Software er nú til húsa, en félagið verður einnig með starfsemi í
   húsnæði Nýherja að Borgartúni 37. 

•  Nýtt viðskiptamódel Nýherja samstæðunnar verður komið til framkvæmda í
   nóvember. 


Meginverkefni starfsmanna Nýherja og dótturfélaga felst í því að vinna náið með
viðskiptavinum sínum við það að ná fram auknum sveigjanleika lækkun kostnaðar
eða öðrum ávinningi í þeirra rekstri.  Með breytingunum verður skerpt frekar á
þessum áherslum og tryggt að starfsfólk geti náð hámarks árangri í samvinnu við
sína viðskiptavini. 

Starfsfólk Nýherja á Íslandi er um 550 og munu um 500 starfa hjá dótturfélögum,
en um 50 í móðurfélaginu. Starfsmenn erlendis eru um 180 og starfa því alls um
730 manns hjá Nýherja og dótturfélögum. 

Mikilvægur áfangi í þróun Nýherja.

Frá stofnun árið 1992 hefur Nýherji verið eitt öflugasta fyrirtæki landsins á
sviði upplýsingatækni, en félagið var stofnað með samruna IBM á Íslandi hf. og
Skrifstofuvéla-Sund hf. Félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands frá 1997. 

Á liðnum árum hafa orðið verulegar breytingar á starfsemi Nýherja, sem annars
vegar byggja á stefnu félagsins um vöxt með kaupum á fyrirtækjum á sviði
tækniþjónustu, ráðgjafar og hugbúnaðar og hins vegar vegna mikils innri vaxtar
í kjarnastarfsemi félagsins. 

Í október 2005 keypti Nýherji danska fyrirtækið Applicon AS, en það er sérhæft
ráðgjafafyrirtæki á sviði SAP hugbúnaðar. Á sama tíma var starfsemi Nýherja í
SAP ráðgjöf og skylds hugbúnaðar hérlendis flutt í sérstakt dótturfélag
Applicon ehf. 

Í mars 2007 keypti Nýherji fyrirtækið Link ehf., sem síðar tók yfir rekstur
Sony Setursins í Kringlunni. Um svipað leyti var opnuð Sense verslun til að
kynna stafrænar lausnir og búnað fyrir heimili og fyrirtæki. 

Í janúar 2008 gekk Applicon í Svíþjóð frá samningi um kaup á fyrirtækinu
Marquardt & Partners AB, sem síðar var sameinað Applicon í Svíþjóð, og varð
fjöldi ráðgjafa við það nálægt 40. Í Bretlandi var einnig stofnað Applicon
fyrirtæki til að vinna að SAP ráðgjöf. 

Í lok janúar á þessu ári undirritaði Nýherji samning um kaup á fyrirtækinu TM
Software hf., en á vegum TM Software hf. og dótturfélaga eru boðnar
fjölbreyttar lausnir á sviði rekstrarþjónustu og hugbúnaðar. Starfsmenn TM
Software hf. eru um 230 og er fyrirtækið með aðsetur í nýju húsnæði að
Urðarhvarfi 6 í Kópavogi. 

Sú fjölþætta starfsemi, sem fram fer á vegum Nýherja og dótturfélaga hérlendis
hefur kallað á breytingar á viðskiptamódeli og skipulagi Nýherja samstæðunnar. 
Markmið breytinganna er að starfrækja sérhæfð félög, sem hafa skarpa sýn á
þarfir viðskiptavina á vel skilgreindu og afmörkuðu sviði. Nýtt viðskiptamódel
Nýherjasamstæðunnar miðar þannig að því að hvert dótturfélag búi yfir vönduðum
lausnum og mikilli þekkingu á þörfum viðskiptavina og þeim lausnum, sem hæfir
hverjum viðskiptavini. 



Fyrirtæki í nýju viðskiptamódeli:

Sjá viðhengi.

1.  
Nýherji hf. verður rekið sem móðurfélag sex megin dótturfélaga hérlendis,
auk erlendra dótturfélaga. Félagið mun einnig annast sölu á tölvum og
tengdum tæknibúnaði frá helstu framleiðendum, svo sem IBM, Lenovo, Avaya, Canon,
Cisco o.fl. eins og verið hefur.  Starfsmenn Nýherja verða 45.  Helstu
stjórnendur Nýherja eru: 

Þórður Sverrisson er forstjóri Nýherja, en hann er jafnframt formaður í
stjórnum í megin dótturfélögum félagsins. Þórður hefur verið forstjóri Nýherja
frá 1. apríl 2001. Hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri flutningasviðs Hf.
Eimskipafélags Íslands. Þórður er viðskiptafræðingur (Cand.Oceon) frá Háskóla
Íslands og stundaði einnig framhaldsnám við Viðskiptaskólann í Gautaborg. 
Emil Einarsson verður framkvæmdastjóri Sölu- og markaðssviðs og er því ábyrgur
fyrir vöruframboði og þjónustu Nýherja. Hann mun auk þess  samhæfa
viðskiptatengsl við stærstu viðskiptavini samstæðunnar. Emil hefur verið
framkvæmdastjóri Sölusviðs Nýherja hf. frá 2005, en starfað hjá Nýherja frá
stofnun félagsins 1992 og áður hjá IBM á Íslandi. Emil er viðskiptafræðingur
(Cand. Oceon) frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá George Washington
University. 

Guðmar Guðmundsson er framkvæmdastjóri fjármála Nýherja móðurfélags og
samstæðunnar í heild. Guðmar hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármála hjá
TM Software hf. frá 1999. Guðmar er viðskiptafræðingur (Cand. Oecon) frá
Háskóla Íslands. 

Þorvaldur Jacobsen mun, auk starfa sinna sem framkvæmdastjóri Sérlausnasviðs
Skyggnis ehf., vinna að viðskiptaþróun erlendis á vegum Nýherja og Skyggnis.
Hann á sæti í stjórn Dansupport A/S. og verður ábyrgur fyrir samstarfi og
uppbyggingu á samlegð milli félaganna. 
Áætlaðar tekjur Nýherja hf. eru um 3.500 mkr. og starfsmenn verða um 50.
Starfsemi Nýherja hf. verður til húsa í Urðarhvarfi 6. 

2.  
Skyggnir ehf. hefur veitt þjónustu á sviði hýsingar- og rekstrarþjónustu.
Allar tækni- og þjónustudeildir, sem nú eru starfræktar innan Nýherja verða
fluttar undir Skyggni ehf. Félagið verður sérhæft í að uppfylla þarfir
viðskiptavina í formi ráðgjafar, hýsingar- og rekstrarþjónustu og
uppsetningar- og viðhaldsþjónustu á tæknibúnaði. Markmið Skyggnis er að skapa
viðskiptavinum framúrskarandi rekstrarlegan og þjónustulegan ávinning af UT
lausnum. Þangað flytjast sérfræðingar Nýherja á sviði miðtölvuþjónustu, net- og
símþjónustu, auk verkstæðis og hugbúnaðarþjónustu. Helstu stjórnendur Nýherja
eru: 
Friðrik Þ. Snorrason verður framkvæmdastjóri Skyggnis ehf. Hann hefur starfað
hjá Nýherja frá 2003, síðast sem framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar Nýherja, en
var áður markaðsstjóri félagsins. Friðrik er með meistaragráðu í
alþjóðasamskiptum frá London School of Economics og BA gráðu í sama fagi frá
University of Wisconsin í Madison. 

Framkvæmdastjóri Sérlausnasviðs verður Þorvaldur Jacobsen. Þorvaldur hefur
gegnt starfi framkvæmdastjóra Kjarnalausna Nýherja frá árinu 2005 og hefur
starfað hjá félaginu frá 2002. Hann var áður sölustjóri hjá Teymi hf. og Opnum
Kerfum hf. Þorvaldur er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands, með BS gráðu
í tölvunarfræði frá sama skóla og meistaragráðu í verkfræði frá University of
Texas í Austin. 

Framkvæmdastjóri Rekstrarþjónustusviðs verður Sigurður Þórarinsson, en hann
hefur starfað hjá TM Software frá árinu 2004. Sigurður er með MS-gráðu í
iðnaðarvélaverkfræði frá University of Washington og í véla- og
iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. 

Áætlaðar tekjur Skyggnis ehf. eru um 2.500 mkr og starfsmenn verða um 210.
Starfsemi Skyggnis ehf. verður til húsa í Urðarhvarfi 6. 

3. 
Sense ehf.   Öll starfsemi Links ehf. og rekstur Nýherja, sem hefur verið
undir merkjum Sense, fellur nú undir félagið Sense ehf. Sense mun reka
ráðgjafa og hönnunardeild, tækniþjónustu og samnefnda verslun í Hlíðarsmára.
Sony Setrið í Kringlunni, dreifingarmiðstöð og söludeild í Akralind. Félagið er
umboðsaðili fyrir Sony, NEC, Panasonic, Crestron stjórnbúnað og annast sölu og
dreifingu á þessum vörum ásamt vörum frá Canon, Bose o.fl. til einstaklinga,
fyrirtækja og endursöluaðila. Eitt helsta markmið Sense er að hanna og þróa
fullkomnar tæknilausnir sem eru einfaldar í notkun. 

Erling Ásgeirsson verður framkvæmdastjóri Sense ehf. Hann var áður
framkvæmdastjóri Notendalausna Nýherja og hefur verið framkvæmdastjóri hjá
félaginu frá 1992. Áður starfaði Erling sem sérfræðingur á tæknideild IBM á
Íslandi. Hann er með meistararéttindi í rafeindavirkjun. 

Áætlaðar árstekjur Sense ehf. eru um 2.000 mkr. og er fjöldi starfsmanna um 40.
Sense verður til húsa að Hlíðasmára 3 og Akralind 8, Kópavogi. 

4.
TM Software ehf. verður sameinað rekstri Origo ehf. og verða félögin rekin
undir nafni TM Software ehf. Auk þess verður starfsemi á sviði IBM hugbúnaðar
innan Nýherja og hluti af Microsoft þjónustu hjá Applicon og Skyggni flutt til 
TM Software. Sérhæfing TM Software felst í að uppfylla þarfir viðskipta í
sérlausnum, veflausnum og samþættingu stærri hugbúnaðarkerfa. TM Software var
stofnað árið 1986, þá undir nafninu TölvuMyndir. 
Ágúst Einarsson verður framkvæmdastjóri TM Software. Hann hefur veitt TM
Software forystu frá ársbyrjun 2007, og hefur starfað hjá félaginu frá árinu
2003. Hann hefur áður verið framkvæmdastjóri TrackWell Software,
framkvæmdastjóri SAP og IBM deildar Nýherja. Ágúst er með MS-gráðu í
iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg  og  BS-gráðu í vélaverkfræði frá
sama háskóla. 

TM Software á tvö dótturfélög.  eMR ehf. sem er sérhæft í að uppfylla þarfir
viðskiptavina á heilbrigðissviði, með því að bjóða umfangsmikið
sjúkraskrárkerfi, miðlunarkerfi og kerfi fyrir apótek. Framkvæmdastjóri eMR
ehf. er Hákon Sigurhansson. SimDex ehf. dótturfélag Nýherja verður einnig
dótturfélag TM Software ehf., en SimDex ehf. hefur þróað og selt víða um heim
sérhæfðan hugbúnað, svo sem forgreidda símaþjónustu o.fl. Framkvæmdastjóri
Simdex ehf. er Agnar Jón Ágústsson. 

Áætlaðar tekjur TM Software ehf. og dótturfélaga eru um 1.100  mkr. og verða
starfsmenn yfir  90. Starfsemi TM Software ehf. og dótturfélaga verður til húsa
í Urðarhvarfi 6. 

5.	
Applicon ehf. er sérhæft á sviði viðskiptahugbúnaðar og fjármálalausna, sem
byggja einkum á SAP hugbúnaði. Applicon mun áfram hafa skýra sýn á að uppfylla
þarfir viðskiptavina fyrir viðskiptahugbúnað og fjármálalausnir, sem byggja á
SAP og tengdum hugbúnaði, svo sem Calypso hugbúnaði og Microsoft hugbúnaði. 

Kristján Jóhannsson er framkvæmdastjóri Applicon, en hann var framkvæmdastjóri
hugbúnaðarlausna Nýherja frá 1998. Kristján starfaði áður sem forstöðumaður hjá
Hf. Eimskipafélagi Íslands og sem hagfræðingur alþjóðamála hjá VÍS. Kristján er
viðskiptafræðingur frá Viðskiptaháskólanum í Árósum í Danmörku og
rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá sama skóla. 

Vigor ehf. sem er dótturfélag TM Software verður nú dótturfélag Applicon ehf.
og mun áfram bjóða lausnir á sviði viðskiptahugbúnaðar, svo sem hugbúnaðarkerfi
fyrir íslenskan orkuiðnað. Framkvæmdastjóri Vigor er Sigurður Bergsveinsson. 

Áætlaðar árstekjur Applicon ehf. og dótturfélags eru 1.700 mkr og er fjöldi
starfsmanna yfir 90. Félögin verða til húsa að Borgartúni 37. 

6.	
Sameiginleg þjónusta. Stofnað verður nýtt félag sem annast mun alla
fjármála- og mannauðsþjónustu fyrir Nýherja og dótturfélög. Grunnstarfsemi
þessa félags mun byggja á því að annast staðlaðan og árangursmældan rekstur
viðskiptaferla „Business Process Outsourcing„ og er  ráðgert er að félagið 
muni í náinni framtíð    veita öðrum  viðskiptavinum utan samstæðunnar slíka
þjónustu. Félagið mun einnig annast rekstur á húsnæði og mötuneyti fyrir
Nýherja og dótturfélög og er ábyrgt fyrir rekstri dreifingarmiðstöðvar
félagsins. 
Þorsteinn Þorsteinsson verður framkvæmdastjóri þessa nýja félags en, hann hefur
verið framkvæmdastjóri ParX ehf. viðskiptaráðgjafar. Þorsteinn hefur starfað
hjá ParX og forverum þess IBM Business Consulting Services og
PricewaterhouseCoopers frá árinu 1998, en áður hjá Eimskip og einnig Danyard
Aalborg í Danmörku. Þorsteinn er með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá
Álaborgarháskóla. 

Á vegum hins nýja félags verður fjármálaþjónusta undir stjórn Þórs Konráðssonar
og þjónusta á sviði mannauðsmála undir stjórn Sturlu J. Hreinssonar. 

7.	
ParX ehf. viðskiptaráðgjöf IBM mun halda áfram að veita vandaða
viðskiptaráðgjöf og sérhæfa sig í að uppfylla þarfir viðskiptavina fyrir
ráðgjöf á sviði stefnumótunar og stjórnskipulags, fjármála-, mannauðs- og
markaðsráðgjafar. ParX ehf. verður áfram til húsa að Borgartúni 37. 

Kristinn Hjálmarsson verður framkvæmdastjóri ParX. Hann hefur unnið hjá
fyrirtækinu og forverum þess IBM Business Consulting Services og
PricewaterhouseCoopers frá árinu 2000. Kristinn er með meistaragráðu í
breytingastjórnun  frá Hawaii Pacific University og BA gráðu í heimspeki frá
Háskóla Íslands. 

Skipulag á rekstri Nýherja erlendis óbreytt

Ekki verða breytingar á skipulagi eða starfsemi Nýherja erlendis, en félagið
rekur dótturfélög í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi. 

Danmörk: Applicon A/S, sem sérhæfir sig í hugbúnaði á sviði ráðgjafar og
þjónustu fyrir SAP viðskiptahugbúnað og Applicon Solutions A/S sem annast
hugbúnaðarþróun fyrir SAP hugbúnað og eru starfsmenn beggja fyrirtækjanna um
85. Dansupport A/S býður þjónustu, sem uppfyllir þarfir viðskiptavina fyrir
innri tölvukerfi, hýsingu og tengda þjónustu og býður því sambærilega þjónustu
og Skyggnir ehf. 

Svíþjóð: Applicon Consulting AB sérhæfir sig í þjónustu fyrir fjármálafyrirtæki
og banka, einkum innleiðingu á SAP og Calypso hugbúnaði. 

Bretland: Applicon Solutions Ltd. í London  býður lausnir og þjónustu meðal
annars fyrir fjármálafyrirtæki og fyrirtæki með tengdan rekstur. 

Fjöldi starfsmanna í þessum löndum er alls um 180 og eru heildartekjur erlendis
áætlaðar 2.800 mkr. á þessu ári. 


Þessar breytingar verða innleiddar í áföngum á næstu vikum og verður að fullu
lokið í nóvember. Innleiðing á nýju viðskiptamódeli Nýherja er mikilvægur
áfangi í stefnu félagsins að veita vandaðar lausnir, sem byggja á ríkri
þekkingu starfsmanna og víðtækri reynslu þeirra á sviði upplýsingatækni,
viðskipta og rekstrar. Stefna félagsins er að vera eitt af leiðandi Norrænum
fyrirtækjum á því sviði og eru þessar breytingar mikilvægur áfangi á þeirri
braut.

skipurit.jpg