2024-04-22 18:25:15 CEST

2024-04-22 18:25:22 CEST


REGULATED INFORMATION

English
Hafnarfjarðarkaupstaður - Annual Financial Report

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2023


Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram í bæjarráði í dag 22. apríl 2024. Rekstrarafgangur fyrir A og B hluta nam 808 milljónum króna á árinu 2023, samanborið við 890 milljónir árið áður. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði nam 3.649 milljónum króna. Afgangur af rekstri A hluta nam 251 milljón króna sem er nánast sami afgangur og árið á undan. Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 2.635 milljónum króna og var 904 milljónum yfir áætlun. Veltufé frá rekstri svaraði til 5,6% af heildartekjum á síðasta ári. Skuldaviðmið samstæðu Hafnarfjarðarbæjar heldur áfram að lækka og nam 82% í árslok 2023.

„Rekstur Hafnarfjarðarbæjar gekk mjög vel á síðasta ári þrátt fyrir krefjandi árferði í rekstri sveitarfélaga. Það er ánægjulegt að sjá að skuldaviðmið bæjarins heldur áfram að lækka og er nú svo komið að fjárhagsstaða bæjarins hefur ekki verið betri í áratugi. Veltufé frá rekstri var verulega yfir áætlunum sem styrkir getu sveitarfélagsins til þess að standa undir framkvæmdum og fjárskuldbindingum. Samhliða blómlegum rekstri voru innviðafjárfestingar auknar verulega í fyrra sem munu skila sér í öflugri þjónustu og betri lífsgæðum fyrir bæjarbúa. Þá nýtur bærinn nú góðs af mikilli uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis á undanförnum árum í auknum fasteignagjöldum. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að halda álögum á íbúa niðri og heldur hlutfall útsvars og fasteignaskatta af heildartekjum áfram að lækka,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. 

Rekstrartekjur af A og B hluta námu 47,3 milljörðum króna á árinu 2023 og jukust um 5,4 milljarða á milli ára. Þar af jukust tekjur vegna útsvars og fasteignaskatta um 3,1 milljarð króna. Í hlutfalli við heildartekjur námu útsvartekjur 49,8% og fasteignaskattar 8,3% sem er lækkun á milli ára.  Rekstrargjöld voru 42,0 milljarðar króna og jukust um 5,4 milljarða. Þar af námu laun og launatengd gjöld 22,2 milljörðum króna og jukust um 2,4 milljarða á milli ára. Hlutfall launa og launatengdra gjalda sem hlutfall af heildartekjum var um 47%. 

Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur námu 2.840 milljónum króna og lækkuðu um 177 milljónir milli ára. Fjármagnskostnaður var þó yfir áætlun sveitarfélagsins vegna neikvæðrar verðlags- og vaxtaþróunar miðað við upphaflegar forsendur.

Rekstrarniðurstaða A og B-hluta var jákvæð um 808 m.kr. sem er um 382 m.kr. undir áætlun. Ef ekki hefðu komið til ófyrirséðar auknar lífeyrisskuldbindingar á árinu hefði rekstrarniðurstaða verið nokkuð yfir áætlun.

Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar hélt áfram að lækka á árinu 2023 úr 85% niður í 82% og er það því verulega undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Skuldahlutfall fór úr 135% í upphafi árs niður í 129%.

Fjárfestingar á árinu 2023 námu 7,1 milljarði króna sem er 74% aukning milli ára. Heildareignir í lok árs voru alls 93,9 milljarðar króna og jukust um 9,3 milljarða á milli ára. Alls námu heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins 61,1 milljarði króna og jukust um 4,6 milljarða króna. Lífeyrisskuldbindingar nema tæplega þriðjungi heildarskulda og skuldbindinga sveitarfélagsins. 

Eigið fé nam 32,8 milljörðum króna í árslok og hækkaði um 4,6 milljarða króna á árinu. Eiginfjárhlutfall hækkaði úr 33,3% í 34,9% yfir árið 2023.

Íbúar Hafnarfjarðar voru 30.616 hinn 1. janúar 2024 miðað við endurbætta aðferð Hagstofu Íslands við mat á íbúafjölda á Íslandi.

Attachment