2016-04-19 18:16:54 CEST

2016-04-19 18:16:54 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Fyrirtækjafréttir

Arion banki gefur út skuldabréf í evrum


Arion banki hefur gefið út skuldabréf að upphæð 300 milljónir evra eða sem
nemur um 42 milljörðum íslenskra króna. Í heild bárust tilboð frá yfir 70
fjárfestum fyrir rúmlega 500 milljónir evra. Skuldabréfin eru til þriggja ára
og bera fasta 2,5% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 2,70% álagi á
millibankavexti. Um er að ræða aðra útgáfu Arion banka í evrum sem seld er til
breiðs hóps fjárfesta. 

Það voru Barclays, JP Morgan og Nomura sem sáu um útgáfuna í kjölfar þriggja
daga fundaraðar með evrópskum fjárfestum. Uppgjör Arion banka á síðasta ári var
gott og aðstæður á lánsfjármörkuðum hafa undanfarið þróast með hagstæðum hætti,
því voru til staðar aðstæður til skuldabréfaútgáfu af þessari stærðargráðu. 

Til stendur að nýta hluta lánsins til að greiða niður eldri lán. Einnig munu
fyrirtæki í viðskiptum við bankann, sem þörf hafa fyrir erlenda fjármögnun,
njóta góðs af auknu aðgengi að erlendu lánsfé. 

Skuldabréfaútgáfan nú kemur í framhaldi af vinnu undanfarinna ára við að auka
fjölbreytni í fjármögnun bankans. Í mars 2015 varð Arion banki fyrstur
íslenskra banka um langt skeið til að gefa út skuldabréf í evrum til breiðs
hóps fjárfesta. Arion banki er með lánshæfismatið BBB-, með jákvæðum horfum,
frá Standard & Poor´s. 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Við höfum unnið markvisst að því á undanförnum árum að kynna Arion banka og
stöðu íslensks efnahagslífs fyrir erlendum fjárfestum með það að markmiði að
bæta aðgengi að lánsfjármörkuðum. Það hefur gengið vel enda hefur þróunin verið
góð hjá bankanum sem og í efnahagslífinu. Það er því ánægjulegt að nú í annað
sinn höfum við gefið út skuldabréf í evrum til breiðs hóps fjárfesta. Okkar
viðskiptavinir sem hafa þörf fyrir erlenda fjármögnun munu njóta góðs af en
þetta skiptir einnig máli fyrir efnahagslífið hér á landi þar sem útgáfan nú
staðfestir enn frekar aðgengi íslenskra fjármálafyrirtækja að alþjóðlegum
lánsfjármörkuðum á batnandi kjörum.“ 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs
Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.