2010-03-19 15:08:58 CET

2010-03-19 15:09:58 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Orkuveita Reykjavíkur - Ársreikningur

Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur 2009


Verulegur viðsnúningur varð í afkomu Orkuveitu Reykjavíkur á síðasta fjórðungi
ársins 2009, eins og fram kemur í ársreikningi fyrirtækisins, sem samþykktur
var í dag. Hagnaður af rekstrinum síðustu þrjá mánuði ársins nam um 8,8
milljörðum króna. Hagstæð þróun álverðs veldur þar miklu. 
Rekstrarhagnaður Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fjármagnsliði, skatta og
afskriftir, EBITDA, árið 2009 var 13,0 milljarðar króna. Að teknu tilliti til
þeirra þátta nemur halli af rekstrinum 2,5 milljörðum króna og ræðst það að
mestu af 7,6% veikingu íslensku krónunnar frá upphafi til loka árs. Á árinu
2008 varð halli að fjárhæð 73,0 milljarðar króna af rekstrinum. 
Vaxandi tekjur fyrirtækisins í erlendri mynt gera því kleift að standa undir
greiðslum af erlendum lántökum þrátt fyrir miklar gengissveiflur. 
Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla.
Helstu niðurstöður ársins 2009

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur var með 2.516 milljóna króna halla árið 2009
samanborið við 73.037 milljóna króna halla árið áður. 
Rekstrartekjur ársins námu 26.013 milljónum króna en voru 24.168 milljónir
króna árið áður. 
Hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, var
12.970 milljónir króna samanborið við 11.652 milljónir króna árið áður. 
Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 8.843 milljónir króna á árinu, en voru
neikvæðir um 92.523 milljónir króna árið 2008. 
Heildareignir þann 31. desember 2009 voru 281.526 milljónir króna en voru
259.373 milljónir króna 31. desember 2008. 
Eigið fé þann 31. desember 2009 var 40.657 milljónir króna en var 48.359
milljónir króna 31. desember 2008. 
Heildarskuldir fyrirtækisins þann 31. desember 2009 voru 240.868 milljónir
króna samanborið við 211.015 milljónir króna í árslok 2008. 
Eiginfjárhlutfall var 14,4% þann 31. desember 2009 en var 18,6% í árslok 2008.
Ýmis mál
Á árinu 2009 var farsællega bundinn endir á ágreining við Hafnarfjarðarbæ um
eignarhluta í HS Orku. Með samkomulaginu var verulegri áhættu, sem OR stóð
frammi fyrir, rutt úr vegi.. 

Horfur
Þrátt fyrir umrót á íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum er rekstur Orkuveitu
Reykjavíkur  traustur. Áfram er unnið að stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Áformað
er að taka 4. áfanga hennar, framleiðslu á heitu vatni, í notkun undir lok
yfirstandandi árs og 5. áfanga virkjunarinnar, framleiðslu á 90 MW rafafls,
síðla árs 2011. 

Þann 20. nóvember síðastliðinn samdi Orkuveita Reykjavíkur við Evrópska
fjárfestingabankann um hagstæða fjármögnun helmings 5. áfangans og helming
fyrirhugaðrar Hverahlíðarvirkjunar. 

Vegna óvissu í íslensku efnahagslífi hefur dregið úr fjárfestingum í
fjárhagsáætlun Orkuveitu Reykjavíkur og gripið hefur verið til víðtækra
aðhaldsaðgerða í rekstri fyrirtækisins bæði hvað varðar launagreiðslur og annan
rekstrarkostnað. 

Gengi íslensku krónunnar var nokkuð stöðugt síðasta ársfjórðung 2009 og hefur
styrkst nokkuð það sem af er árinu 2010, eða um 2,5%. Eiginfjárstaða Orkuveitu
Reykjavíkur mun á næstu misserum ráðast að miklu leyti af stöðu íslensku
krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. 

Nánari upplýsingar veitir Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu
Reykjavíkur, í síma 516-6000.