2007-12-14 23:06:58 CET

2007-12-14 23:06:58 CET


BIRTINGARSKYLDAR UPPLÝSNINGAR

Íslenska Enska
FL GROUP hf. - Fyrirtækjafréttir

Mikil umframáskrift í hlutafjárútboði FL Group


-Hlutabréf seld fyrir 15 milljarða króna-


Hlutafjárútboði FL Group lauk í dag þar sem fjárfestar skráðu sig fyrir hlutafé
í félaginu að andvirði 20,6 milljarða króna. Mikil umframeftirspurn var í
útboðinu og almenn þátttaka meðal stofnanafjárfesta. Til sölu voru nýir hlutir
í félaginu fyrir 10 milljarða króna, en eins og áður hafði verið tilkynnt stóð
fjárfestum einnig til boða að kaupa allt að 15 milljarða króna ef
umframeftirspurn væri í útboðinu. 

Hlutaféð sem selt var skiptist þannig að nýir hlutir voru seldir fyrir um 10
milljarða króna og Baugur Group seldi hlutafé fyrir um fimm milljarða króna í
samræmi við áður kynnta samninga um kaup FL Group á hlutum í fasteignafélögum
og -sjóðum af Baugi Group. 

Í útboðinu voru seldir 680.272.109 nýir hlutir á genginu 14,7 krónur á hlut.
Nýir hlutir svara til 7,36% af útgefnu heildarhlutafé FL Group, sem verður
9.925.000.682 kr. að nafnverði eftir útboðið. 

Gert er ráð fyrir að nýju hlutirnir verði teknir til viðskipta í OMX
kauphöllinni eigi síðar en fimmtudaginn 27. desember 2007. Frá og með þeim degi
verða þeir afhentir þeim kaupendum sem greitt hafa kaupverðið. Fjárfestum ber
að greiða kaupverð hlutanna eigi síðar en föstudaginn 4. janúar 2008. 

Hluthöfum félagsins mun gefast kostur á að taka þátt í forgangsréttarútboði á
fyrsta ársfjórðungi næsta árs og skrá sig þar fyrir hlutafé að andvirði allt að
þremur milljörðum króna á sama útboðsgengi og í hinu nýafstaðna útboði. Í
kjölfar ársuppgjörs félagsins, sem væntanlegt er í byrjun febrúar 2007, verður
tilkynnt um þann dag sem forgangsrétturinn miðast við (e. record date). 

Í kjölfar útboðsins og þegar Baugur Group hefur fengið útgefna hluti samkvæmt
samningi við FL Group, verður eignarhlutur fimm stærstu hluthafa (miðast við
eign hluthafa að morgni 14. desember 2007, að viðbættum hlut þeirra í útboði)
félagsins eftirfarandi: 

Baugur Group hf. (BG Capital)	36,47%
Gnúpur fjárfestingafélag hf.	12,05%
Oddaflug B.V.	10,86%
Materia Invest ehf.	6,28%
Fons hf.		6,13%

Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka hafði umsjón með útboðinu.  



Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group: 

"Niðurstaða útboðsins er einstaklega ánægjuleg og staðfestir trú fjárfesta á
þeim breytingum sem kynntar hafa verið. Eignasafn okkar er fjölbreytt og
undirliggjandi rekstur okkar fyrirtækja er góður. Þrátt fyrir tímabundinn óróa
á alþjóðlegum fjármálamörkuðum þá felast í þeim mikil tækifæri til framtíðar. 

Fjárhagslegur styrkur FL Group hefur aldrei verið meiri og er félagið vel í
stakk búið til að takast á við ný verkefni og að halda áfram að styðja við
sínar lykilfjárfestingar. 




Nánari upplýsingar veita:

Halldór Kristmannsson
Framkvæmdastjóri Samskiptasviðs FL Group
Sími: +354 591 4400
Tölvupóstfang: halldor@flgroup.is

Þórólfur Jónsson
Framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings banka
Sími +354 444 6000
Tölvupóstfang: thorolfur.jonsson@kaupthing.com 
Um FL Group

FL Group er alþjóðlegt fjárfestingafélag með áherslu á þrjú fjárfestingasvið,
FIG, Private Equity og Capital Markets. FIG hefur umsjón með
áhrifafjárfestingum í fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum. Private Equity
heldur utan um óskráðar eignir ásamt skráðum eignum sem falla að
fjárfestingarstefnu félagsins. Capital Markets svið félagsins hefur umsjón með
markaðsviðskiptum sem lúta að skammtíma fjárfestingum sem og framkvæmd afleiðu-
og verðbréfaviðskipta tengdum eignasafni félagsins. Höfuðstöðvar FL Group eru í
Reykjavík en félagið er einnig með skrifstofu í Lundúnum. FL Group fjárfestir í
félögum um allan heim en leggur sérstaka áherslu á fjárfestingar í Evrópu. FL
Group er skráð á OMX Nordic Exchange í Reykjavík (OMX: FL) og hluthafar
félagsins eru rúmlega 4.000 talsins. 

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu FL Group, www.flgroup.is.