2011-02-25 16:51:20 CET

2011-02-25 16:52:21 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Sláturfélag Suðurlands svf. - Ársreikningur

Ársreikningur 2010



Afkoma ársins 2010

  -- Tekjur ársins 7.602 mkr. en 7.120 mkr. árið 2009.
  -- 186 mkr. hagnaður á árinu, en 412 mkr. hagnaður árið áður.
  -- EBITDA afkoma var 467 mkr. en 390 mkr. árið 2009.
  -- Fjármagnsliðir neikvæðir um 42 mkr. en jákvæðir um 262 mkr. árið áður.



Samstæðuársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands
svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. 

Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2010 var 186 mkr. skv.
rekstarreikningi. Árið áður var 412 mkr. hagnaður. Eigið fé er 1.547 mkr. og
eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 28%. 

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 7.602 mkr. árið 2010, en
7.120 mkr. árið áður og hækka því um 7%. Aðrar tekjur voru 35 mkr eins og árið
áður. 

Vöru- og umbúðanotkun var 4.127 mkr. en 3.939 mkr. árið áður. Launakostnaður
hækkaði um tæp 4%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um tæp 13% og afskriftir
lækkuðu um 3%. Sekt frá Samkeppniseftirlitinu að fjárhæð 45 mkr. er gjaldfærð
meðal annars rekstrarkostnaðar en gerð var sátt við Samkeppniseftirlitið á
árinu vegna brota á ákvæðum samkeppnislaga. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna
og fjármagnsgjalda var 197 mkr., en 111 mkr. árið áður. 

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 42 mkr., en fjármunatekjur umfram
fjármagnsgjöld voru 262 mkr. árið áður. Gengishagnaður nam 99 mkr. samanborið
við 109 mkr. gengistap árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var
jákvæð um 24 mkr. en árið áður um 6,5 mkr. Reiknaður er tekjuskattur til tekna
að fjárhæð 7 mkr. en 33 mkr. árið áður. Hagnaður af rekstri ársins var 186 mkr.
en 412 mkr. árið áður. 

Veltufé frá rekstri var 462 mkr. árið 2010, samanborið við 385 mkr. árið 2009.

Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2010 voru 5.620 mkr. og
eiginfjárhlutfall 28% en 23% árið áður.  Veltufjárhlutfall var 1,3 árið 2010
eins og árið áður. 

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2010 var hvorki greiddur arður af
B-deild stofnsjóðs né reiknaðir vextir á A-deild stofnsjóðs. 

Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag.

Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við
heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallarinnar. 



Aðalfundur

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 25. mars n.k.
Stjórn félagsins mun þar leggja til að hvorki verði greiddur arður af B-deild
né reiknaðir vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs. 

Staða og horfur

Rekstrarskilyrði eru tekin að batna með minni verðbólgu, styrkingu krónu og
lægra vaxtastigi sem hafði jákvæð áhrif á fjármagnsliði á árinu 2010.
Kaupmáttur heimila er nú tekinn að vaxa að nýju eftir mikinn samdrátt sem á að
leiða til bættra skilyrða. Aðgerðir til að bæta rekstur félagsins á árinu
skiluðu bættri afkomu en EBITDA jókst um 77 mkr. frá fyrra ári. 

Sláturfélagið hefur komist að samkomulagi við viðskiptabanka sinn að hefja
viðræður um fjárhagslega endurskipulagningu og er áætlað að henni sé lokið
fyrir 30. júní 2011. Viðræðurnar felast m.a. í því að lán félagsins verði
endurfjármögnuð og afborganir þeirra verði betur aðlagaðar að greiðslugetu
félagsins til lengri tíma með jafnari afborgunum. 

Aukinn útflutningur og betra verð á útflutningsmörkuðum fyrir lambakjöt hefur
haft jákvæð áhrif á rekstur afurðahluta félagsins. Staða á erlendum mörkuðum
fyrir lambakjöt er góð eins og nú horfir. 

Erfið staða á neytendamarkaði og kostnaðarhækkanir á erlendum rekstrarvörum
hafa haft neikvæð áhrif á rekstur kjötiðnaðar frá árinu 2008. Á undanförnum
mánuðum hafa rekstrarskilyrði batnað. Sterk staða lykil vörumerkja ásamt
vöruþróun skapa áframhaldandi skilyrði til vaxtar. 

Matvöruhluta innflutningsdeildar hefur tekist vel að viðhalda sterkri stöðu í
helstu vöruflokkum innfluttrar matvöru. Sala á tilbúnum áburði til bænda er
vaxandi hluti í starfsemi félagsins ásamt innflutningi á kjarnfóðri. 












         Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000