2016-05-25 19:30:51 CEST

2016-05-25 19:30:51 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Fjarskipti hf. : Héraðsdómur í skaðabótamáli vegna innbrots á "Mínar síður"


Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í dag upp dóm í skaðabótamáli sem höfðað var af
einstaklingi sem byggði á því að hafa orðið fyrir tjóni vegna upplýsinga sem
tölvuþrjótur stal af "Mínum síðum" á heimasíðu Fjarskipta hf. í nóvember 2013.

Höfuðstóll bótakröfunnar í málinu hljóðaði upp á 8.424.500 kr. Niðurstaða
héraðsdóms var sú að Fjarskipti hf. var dæmt skylt að greiða skaðabætur að
fjárhæð 1.936.500 kr. auk málskostnaðar að fjárhæð 1.000.000 kr. og vaxta og
dráttarvaxta.

Með þessu hafa verið kveðnir upp héraðsdómar í þeim sex málum sem höfðuð hafa
verið vegna innbrotsins á "Mínar síður". Áður hafði félagið verið sýknað í málum
tveggja einstaklinga en var dæmt skylt til að greiða skaðabætur í málum þriggja
einstaklinga, samtals að fjárhæð 2.700.000 kr., auk vaxta og málskostnaðar, sbr.
kauphallartilkynning félagsins, dags. 26.4. 2016.

Fjarskipti hf. er að kynna sér forsendur allra dómanna og meta framhaldið.

Innan Fjarskipta hf. hefur mikil vinna átt sér stað undanfarin ár á sviði
öryggismála og hefur félagið kappkostað að læra af reynslunni. Innleiðingarferli
öryggisvottunar upplýsingakerfa samkvæmt ISO-27001 upplýsingaöryggisstaðlinum
var hafið þegar fyrrnefnt innbrot átti sér stað en fyrirtækið fékk vottun í júlí
2014 á grundvelli staðalsins sem var síðan uppfærð árið 2015 og tekur nú til
alls fyrirtækisins. Vottunin felur í sér formlega viðurkenningu á því að hjá
Vodafone sé upplýsingaöryggi stjórnað samkvæmt fyrirfram ákveðnum ferlum og
fagleg vinnubrögð viðhöfð í hvívetna. Vottunin tryggir jafnframt stöðugar
umbætur í upplýsingaöryggismálum og veitir þannig jákvætt aðhald en úttekt fer
árlega fram.




[HUG#2015617]