2013-07-01 18:50:06 CEST

2013-07-01 18:51:07 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Kópavogsbær - Fyrirtækjafréttir

Nýtt lánshæfismat fyrir Kópavog


Íslenska lánshæfismatsfyrirtækið Reitun ehf. hefur hækkað lánshæfismat
Kópavogsbæjar úr B í B+ með stöðugum horfum. Í matinu segir að Kópavogsbær hafi
unnið vel úr afleiðingum efnahagshrunsins. Rekstrarframlegð hafi til dæmis
batnað verulega og veltufé frá rekstri sé einnig sterkt. Því sé ástæða til að
hækka matið þrátt fyrir „minnkandi þrótt efnahagsbatans,“ eins og það er orðað. 

Í matinu er bent á að skuldir Kópavogsbæjar lækki hratt og að endurfjármögnun
lána hafi gengið afar vel. Gengisáhætta sveitarfélagsins verði nánast horfin
eftir þetta ár þar sem tekist hafi að endurfjármagna evru lán frá Dexia banka í
krónum. „Afborganir lána á næstu árum eru mun lægri en í ár og ætti að vera
hægt að fjármagna þær að stórum hluta með veltufé frá rekstri,“ segir í matinu. 

Minnt er á að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna hafi fyrir nokkrum
misserum gert athugasemdir við of hátt skuldahlutfall Kópavogsbæjar, þ.e.
skuldir voru of háar á móti tekjum. Reitun segir að bærinn hafi tekið tillit
til ábendinga og tilmæla eftirlitsnefndarinnar. „Fyrir liggur áætlun þar sem
gert er ráð fyrir að bærinn muni ná að uppfylla kröfu um 150% skuldahlutfall á
árinu 2018. Miðað við stöðuna í dag er útlit fyrir að 150% skuldahlutfall muni
hugsanlega nást ári fyrr, eða árið 2017.“ 

Kópavogur er næst stærsta sveitarfélag landsins. Íbúar eru um 32 þúsund. Árleg
fjölgun íbúa frá árinu 2000 hefur að meðaltali verið um 695 manns. Íbúum hefur
þar með fjölgað um 41% frá aldamótum. Til samanburðar fjölgaði íbúum í
Reykjavík um 9% á sama tíma. Í lánshæfismatinu kemur fram að stærð Kópavogs og
vöxtur hafi jákvæð áhrif á lánshæfismatið. 

Kópavogsbær gerði samning við Reitun fyrir þremur árum um greiningu og mat á
lánshæfi sveitarfélagsins gagnvart fjárfestum á skuldabréfamarkaði. Kópavogur
var fyrst sveitarfélaga til að gera slíkan samning. Markmiðið er að gera
fjárfestum kleift að fá álit óháðra aðila á fjármálum bæjarins. Reitun er
dótturfélag IFS greiningar og var stofnað árið 2010. 

Sjá lánshæfismat í viðhengi.