2014-11-12 09:53:13 CET

2014-11-12 09:54:13 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Hampiðjan hf. - Company Announcement (is)

Hampiðjan hf. eignast 45% hlut í netaverkstæðinu Sílnet í Færeyjum


Hampiðjan hefur ásamt útgerðafélaginu P/f Varðin í Syðri Götu í Færeyjum keypt
90% hlut í netaverkstæðinu Spf Sílnet i Klaksvik á Borðey.  Seljendur eru
stofnandinn Kristian Sofus og tveir meðeigendur hans.   Kristian heldur eftir
10% hlut og starfar áfram hjá fyrirtækinu eftir kaupin og verður
framleiðslustjóri fyrirtækisins. Hlutur Hampiðjunnar og Varðin skiptist jafnt í
tvo 45% hluti.   Kaupverð Hampiðjunnar á sínum hlut er 0,6 milljónir DKK. 
Samhliða kaupunum þá er hlutafé félagsins aukið umtalvert til að gera því
kleift að kaupa hentuga byggingu og þann tækjabúnað sem þarf á netaverkstæðið
til að sinna viðhaldi á flottrollum og nótum. 

Hlutafjáraukningin er 3,0 milljónir DKK frá hvoru félagi fyrir sig eða 6,0
milljónir DKK alls. 





Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar:



Hampiðjan hefur framleitt og selt Gloríu flottroll og flottrollspoka til
allflestra uppsjávarskipa Færeyinga undanfarin ár ásamt því að selja Dynex
Togtaugar og Dynex Data höfuðlínukapla á nýjustu skip flotans.  Samstarf okkar
við Færeyinga hefur verið afar ánægjulegt og það er okkur því mikið gleðiefni
að geta nú þjónustað færeyska fiskveiðiflotann á heimavelli í samstarfi við
Varðin sem er eitt öflugasta útgerðafyrirtæki Færeyja og Kristian Sofus í
Lambanum stofnanda Sílnets. 



Sílnet var stofnað fyrir rúmum 12 árum og var netaverkstæðið  lengst af
starfrækt í Götu en er nú flutt í stóra og myndarlega 1.900 m2 og 85 metra
langa byggingu við höfnina í Klaksvik þar sem verður hægt að þjónusta og setja
upp botntroll, flottroll og nætur. 



Framkvæmdastjóri Sílnets verður Hans Jacob Paulsen en hann þekkir vel til
sjávarútvegsgeirans enda starfað lengi við veiðarfæragerð og sölu á veiðarfærum
til útgerðafyrirtækja í Færeyjum.