2016-09-08 17:18:08 CEST

2016-09-08 17:18:08 CEST


SÄÄNNELTY TIETO

Islanti Englanti
Landsbankinn hf. - Fyrirtækjafréttir

Landsbankinn hf. : Landsbankinn gefur út 500 milljóna evru skuldabréf


Landsbankinn hf. hefur í dag gefið út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra,
að jafnvirði um 65 milljarða króna. Skuldabréfin eru til 4,5 árs með gjaldaga
15. mars 2021. Þau bera fasta 1,625% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda
190 punkta álagi ofan á millibankavexti í evrum.

Skuldabréfin voru seld til breiðs hóps fjárfesta á Norðurlöndunum, Bretlandi,
meginlandi Evrópu og víðar. Alls bárust tilboð fyrir rúman 1,5 milljarð evra sem
nemur þrefaldri umframeftirspurn frá yfir 130 fjárfestum. Skuldabréfin eru gefin
út undir Euro Medium Term Note (EMTN) skuldabréfaramma Landsbankans og verða
bréfin skráð í kauphöllina á Írlandi þann 15. september næstkomandi.

Landsbankinn mun nýta andvirði útgáfunnar til þess að fyrirframgreiða
óhagkvæmari erlenda fjármögnun ásamt því að styrkja enn frekar lausafjárstöðu
bankans.

Umsjónaraðilar útboðsins voru Barclays, Citigroup og Deutsche Bank

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans:

"Útgáfan í dag er afar ánægjulegur áfangi. Bankinn lækkar verulega
fjármagnskostnað sinn með þessari útgáfu sem er til lengri tíma en fyrri
útgáfur.

Mikill áhugi fjárfesta undirstrikar aukna tiltrú á Landsbankanum á erlendum
fjármálamörkuðum og ánægju með þá jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað í
íslensku efnahagsumhverfi. Hagstæðari kjör og betra aðgengi að erlendum
fjármagnsmörkuðum gerir bankann enn betur í stakk búinn til þess að vera í
fararbroddi í þjónustu við íslenskt viðskiptalíf."

Ítarlegar upplýsingar um Landsbankann eru aðgengilegar fyrir fjárfesta og aðra
áhugasama á vef bankans á slóðinni: https://bankinn.landsbankinn.is/fjarfestar/

Nánari upplýsingar:

Fjárfestatengsl: Hanna Kristín Thoroddsen; ir@landsbankinn.is; s: 410 7100.


[]