2015-10-13 18:14:05 CEST

2015-10-13 18:15:08 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Orkuveita Reykjavíkur - Fyrirtækjafréttir

Góð afkoma og traustari fjárhagur OR


Fjárhagsáætlun Orkuveitu Reykjavíkur samþykkt

Reykjavík, 2015-10-13 18:14 CEST (GLOBE NEWSWIRE) -- Festa í rekstri Orkuveitu
Reykjavíkur (OR) og dótturfélaga mun skila góðri afkomu og traustari fjárhag á
næstu árum þrátt fyrir talsverðar fjárfestingar. Fjárhagsáætlun fyrir samstæðu
OR fyrir árið 2016 og fimm ára áætlun fyrir árin 2017 til og með 2021 hefur
verið samþykkt af stjórn OR. Helstu dótturfélögin eru Veitur ohf, Orka
náttúrunnar ohf (ON) og Gagnaveita Reykjavíkur ehf (GR). 

Aðhaldsaðgerðir í rekstri OR, Planið, sem gripið var til vorið 2011, höfðu um
mitt ár 2015 þegar skilað betri sjóðstöðu en áformað var að ná í árslok 2016.
Áframhaldandi aðhald í rekstri á sama tíma og tekjur vaxa skila góðri afkomu,
minnkandi skuldum og traustari fjárhag. 

Fjárfestingar OR samstæðunnar hafa aukist smátt og smátt frá árinu 2013. Á
árinu 2016 lýkur uppbyggingu nýrra fráveitna á Vesturlandi og á árunum eftir
það taka við hefðbundnari endurnýjunar- og nýfjárfestingar í veitukerfum. Sú
ákvörðun var tekin síðla árs 2014 að OR eignist aftur mæla fyrir rafmagn og
heitt og kalt vatn hjá viðskiptavinum á þjónustusvæði sínu. Mælarnir eru um
150.000 talsins. 

Hjá ON eru helstu fjárfestingar tengdar Hellisheiðarvirkjun. Þar er unnið að
því að viðhalda gufuöflun til rekstursins með tengingu við háhitasvæðið við
Hverahlíð og með viðhaldsborunum. Jafnframt tengjast fjárfestingar ON
umhverfisverkefnum á borð við að draga úr útblæstri brennisteinsvetnis og
frágangi eftir framkvæmdaskeið síðasta áratugar. 

Á árinu 2015 lýkur GR við útbreiðslu ljósleiðaranets fyrirtækisins til heimila
í Reykjavík. Sú áratugarreynsla sem nú er komin á ljósleiðaranetið hefur aukið
mjög eftirspurn eftir þessum öflugustu gagnatengingum sem heimilum standa til
boða. Fjöldi sveitarfélaga hefur óskað eftir samstarfi við GR og sér þess merki
í fjárfestingaáætlunum fyrirtækisins. 

Fjárhagsáætlun OR 2016 og fimm ára áætlun 2017-2021 er nú til umfjöllunar hjá
Reykjavíkurborg sem hluti af áætlun samstæðu borgarinnar. 


         Nánari upplýsingar:
         Ingvar Stefánsson
         framkvæmdastjóri fjármála
         516 6000