2015-08-27 17:31:00 CEST

2015-08-27 17:31:02 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Vátryggingafélag Íslands hf. - árshlutauppgjör


Afkoma á fyrri árshelmingi 2015

Samstæðuárshlutareikningur félagsins fyrir fyrri helming ársins 2015 var
staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 27. ágúst
2015.  Árshlutareikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins. 

Helstu niðurstöður

  -- 1.419 m.kr. hagnaður varð af rekstri félagsins á fyrri helmingi ársins
     samanborið við 451 m.kr. hagnað fyrir sama tímabil árið 2014.
  -- Fjárfestingatekjur námu 2.065 m.kr. samanborið við 663 m.kr. fyrir sama
     tímabil í fyrra.
  -- Iðgjöld tímabilsins námu 8.107 m.kr. samanborið við 7.781 m.kr. sama
     tímabil í fyrra og nemur hækkunin 4,2%.
  -- Framlegð af vátryggingarekstri var neikvæð um 280 m.kr.  Framlegð af
     vátryggingarekstri á sama tímabili í fyrra var 94 m.kr.
  -- Kostnaðarhlutfall var 21,9% samanborið við 22,4% á sama tímabili í fyrra.
  -- Samsett hlutfall var 104,5% en var 99,9% á sama tímabili í fyrra.
  -- Heildareignir í lok tímabilsins námu 47.472 m.kr. samanborið við 46.466 í
     árslok 2014.
  -- Fjárfestingaeignir félagsins námu 33.146 m.kr. en voru 34.658 í árslok
     2014.
  -- Eigið fé félagsins nam 14.417 m.kr. samanborið við 15.956 í árslok 2014.
  -- Eiginfjárhlutfall var 30,4% í lok tímabilsins.
  -- Arðsemi eigin fjár var 18,7% á tímabilinu á ársgrunni. 
  -- Félagið greiddi hluthöfum sínum arð að fjárhæð 2.488 m.kr. í apríl.  Ennfremur keypti félagið eigin hlutabréf fyrir 470 m.kr. á fyrri hluta
     ársins og átti sem nam 2,3% af heildarhlutafé þess þann 30. júní s.l.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri

„Afkoma félagsins á fyrri helmingi ársins var góð og umfram væntingar. 
Hagnaður af rekstri félagsins var 1.419 m.kr. eða tæpum 1.000 m.kr umfram
afkomu á sama tímabili 2014.  Aukinn hagnaður skýrist fyrst og fremst af góðri
ávöxtun af fjárfestingaeignum félagsins, en ávöxtunin var 2,7% á öðrum
fjórðungi og 6,05% á fyrri helmingi ársins.  Afkoma félagsins af
vátryggingastarfsemi var lakari en reiknað var með og var samsett hlutfall
104,5% á tímabilinu.  Afkoman skýrist af auknum fjölda tjóna það sem af er ári
en óveðrið 14. mars hafði umtalsverð áhrif á félagið og telur um 3,7% til
hækkunar á samsettu hlutfalli á árshelmingnum. Tjónatíðni hefur aukist talsvert
og á það sérstaklega við í ökutækjatryggingum auk þess sem félaginu var á öðrum
fjórðungi tilkynnt um stórt tjón í erlendri starfsemi þess.  Hinsvegar er
ánægjulegt að sjá góðan vöxt í iðgjöldum en bókfærð iðgjöld voru 11,4% hærri á
öðrum fjórðungi en á sama fjórðungi í fyrra.“ 

Fjárhagsskipan

Félagið vinnur að innleiðingu á löggjöf um vátryggingastarfsemi, Solvency II,
sem taka á gildi 1. janúar 2016.  Löggjöfin felur meðal annars í sér
umtalsverða breytingu á því hvernig áhætta í starfsemi vátryggingafélaga er
mæld og hvernig gjaldþol og gjaldþolskrafa eru reiknuð.  Stjórn félagsins hefur
sett samstæðunni  markmið um áhættuvilja sem tekur mið af núverandi starfsemi
auk neðri vikmarka. Samkvæmt markmiðunum á gjaldþolshlutfall samstæðunnar
samkvæmt Solvency II að vera um 1,5 með neðri vikmörkum í 1,35.  Virk
áhættustýring og mælingar eiga að tryggja að markmið náist.  Arðgreiðslur og
kaup á eigin bréfum munu taka mið af settum markmiðum.  Gjaldþolshlutfall
samstæðunnar reiknað í samræmi við væntanlega nýja löggjöf var 1,65 í árslok
2014. 

Í samræmi við endurkaupaáætlanir félagsins sem samþykktar voru á aðalfundum
2014 og 2015 hefur félagið keypt eigin hluti fyrir 470 milljónir króna á fyrri
helmingi ársins 2015 og átti sem nam 2,3% af heildarhlutafé þess þann 30. júní
s.l. 

Stjórn félagsins hefur  yfirfarið og lagt mat á áhrif mögulegrar útgáfu
víkjandi láns samkvæmt kröfum um eiginfjárþátt 2 (Tier 2) á gjaldþol félagsins.
 Markmið útgáfu er að viðhalda sem bestri samsetningu eiginfjárþátta, sem taka
mið af markmiðum félagsins um arðsemi eigin fjár, fjármagnskostnað og
sveigjanleika í fjármagnsskipan félagsins.  Ákvörðun stjórnar er að fara ekki í
útgáfu að sinni en lagt verður mat á fýsileika útgáfu reglulega. 

Fyrirhugaðar breytingar á mati á tjónaskuld

Félagið hyggst breyta reikningsskilaaðferð hvað varðar mat á tjónaskuld í
árslok 2015 til samræmis við kröfur Solvency II.  Samkvæmt núgildandi aðferð
við útreikning á gjaldþoli felur tjónaskuldin í sér álag vegna óvissu en þetta
álag er lægra í nýju löggjöfinni.  Þar sem um er að ræða breytingu á
reikningsskilaaðferð samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum  mun hún hafa
áhrif á upphafsstöðu eigin fjár og tjónaskuldar ársins 2014 og verða
rekstrarreikningar áranna 2014 og 2015 jafnframt lagaðir að breytingunni. 
Tekjuskattar vegna breytingarinnar koma til greiðslu á árinu 2016.  Í árslok
2014 nam reiknað umframvirði í tjónaskuld að meðtöldum sköttum um 4,7 ma.kr. 

Fjárfest í innviðum

Félagið hefur undanfarið fjárfest í innviðum sínum.  Innleiðing á stöðluðu
tryggingakerfi í samstarfi við danska hugbúnaðarfyrirtækið TIA Technology A/S,
sem er leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki fyrir tryggingafyrirtæki í Evrópu, er í
lokafasa og verður afhent til viðtökuprófana á síðasta ársfjórðungi 2015.  
Ennfremur er áfram fjárfest í innleiðingu á straumlínustjórnun (LEAN) og hafa
stjórnendur sett sér það langtímamarkmið að byggja upp menningu sem
grundvallast á stöðugum umbótum og vilja til að gera sífellt betur.  Þá var nýr
vefur VIS.is gangsettur á öðrum ársfjórðungi.  Með þessum fjárfestingum stígur
félagið mikilvæg skref í að byggja grunn að bættri rafrænni þjónustu með
hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.  Gert er ráð fyrir því að þessi styrking
innviða geri félaginu kleift að bæta þjónustu og einfalda starfsemi sína og að
fjárfestingin skili arði í formi lækkunar kostnaðar til næstu ára. 

Horfur

Ágætur iðgjaldavöxtur var á fyrri helmingi ársins og reiknar félagið með að
iðgjöld ársins vaxi um ríflega 4%.  Líkur eru á að markmið félagsins um að
samsett hlutfall á árinu 2015 verði undir 100% náist ekki og munar þar mestu um
aukinn tjónaþunga vegna óveðurs á fyrri hluta ársins.  Afkoma af
fjárfestingastarfsemi var góð á fyrri hluta ársins sé tekið mið af helstu
viðmiðunarvísitölum og eru væntingar um að ávöxtun á síðari hluta ársins geti
einnig orðið ágæt þó nokkurrar óvissu gæti og þá sérstaklega á erlendum
mörkuðum. 

Um VÍS

VÍS er leiðandi fyrirtæki á sviði vátrygginga á Íslandi. VÍS nýtur sterkrar
stöðu á íslenskum vátryggingamarkaði með liðlega þriðjungs markaðshlutdeild.
Félagið býður upp á víðtæka vátryggingaþjónustu til viðskiptavina sinna þar sem
rík áhersla er lögð á viðeigandi ráðgjöf um vátryggingavernd, gæði í þjónustu,
skilvirkni og sveigjanleika. 

Meginstarfsemi VÍS er á sviði skaðatrygginga og líftrygginga og starfrækir
félagið 32 þjónustuskrifstofur víðsvegar um land.  VÍS leggur áherslu á að
starfsmenn og þjónustuaðilar félagsins vinni eftir grunngildum þess sem eru
umhyggja, fagmennska og árangur. 

Hlutverk VÍS

VÍS er traust, leiðandi og framsækið þjónustufyrirtæki sem veitir
viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd og stuðlar að öryggi með öflugum
forvörnum. 

Kynningarfundur

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn hjá VÍS í Ármúla
3, 5. hæð, þann 28. ágúst n.k. kl. 8:30. Þar kynnir Sigrún Ragna Ólafsdóttir
forstjóri VÍS afkomu félagsins og svarar spurningum. 

Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu VÍS:
www.vis.is 

Fjárhagsdagatal

Viðburður                                Dagsetning:

3. ársfjórðungur 2015        29. október 2015

Ársuppgjör 2015               25. febrúar 2016

Aðalfundur 2016                   17. mars 2016

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri í síma 560-5000 og
í netfangi fjarfestatengsl@vis.is