2009-05-20 17:51:11 CEST

2009-05-20 17:52:19 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Bakkavör Group hf. - Niðurstöður hluthafafunda

- Niðurstöður aðalfundar 20. maí 2009


Eftirfarandi tillögur sem lagðar voru fyrir aðalfund Bakkavör Group hf.
miðvikudaginn 20. maí 2009 voru samþykktar samhljóða: 

1.	Tillaga félagsstjórnar um greiðslu arðs og jöfnun taps fyrir síðastliðið
rekstrarár: 

Stjórn Bakkavör Group hf. gerir að tillögu sinni að aðalfundur félagsins
haldinn 20. maí 2009, samþykki að ekki verði greiddur arður til hluthafa. Tap
félagsins að fjárhæð 153.872 þúsund sterlingspund verði fært til lækkunar á
eigin fé félagsins. 


2.	Tillaga um þóknun til stjórnarmanna:

Aðalfundur Bakkavör Group hf. haldinn 20. maí 2009 samþykkir að þóknun til
hvers stjórnarmanns, þ.m.t. stjórnarformanns, verði 18.000 sterlingspund á ári
frá aðalfundi 2009 til aðalfundar 2010. Ekki er greidd sérstök þóknun fyrir
setu í undirnefndum stjórnar. 


3.	Eftirtaldir aðilar voru kjörnir í stjórn félagsins fram að aðalfundi 2010:

1.	Ágúst Guðmundsson, Bretlandi, forstjóri Bakkavör Group hf. (Fyrst kjörinn
1986) 
2.	Ásgeir Thoroddsen, Íslandi, hrl. (Fyrst kjörinn 2000)
3.	Hildur Árnadóttir, Íslandi, löggiltur endurskoðandi (Fyrst kjörin 2008)
4.	Katrín Pétursdóttir, Íslandi, framkvæmdastjóri Lýsi hf. (Fyrst kjörin 2007)
5.	Lýður Guðmundsson, Bretlandi, starfandi stjórnarformaður Exista hf. (Fyrst
kjörinn 1986) 


4.	Tillaga um endurskoðunarfélag:

Lagt er til að Deloitte hf., Smáratorgi 3, 201 Kópavogur, verði endurkjörið
endurskoðunarfélag Bakkavör Group hf. fyrir árið 2009. 


5.	Tillaga um starfskjarastefnu:

Stjórn Bakkavör Group hf. gerir að tillögu sinni að eftirfarandi
starfskjarastefna Bakkavör Group hf. sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 14.
mars 2008 verði samþykkt á ný í óbreyttri mynd. 



Starfskjarastefna Bakkavör Group hf.

1.	Markmið

Markmið starfskjarastefnu þessarar er að gera starf hjá Bakkavör Group hf. að
eftirsóknarverðum kosti fyrir starfsfólk og þar með tryggja félaginu stöðu í
fremstu röð á alþjóðavettvangi. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að stjórn
félagsins sé kleift að bjóða samkeppnishæf laun og aðrar greiðslur sem tíðkast
hjá sambærilegum fyrirtækjum á alþjóðavettvangi. 

2.	Starfskjör stjórnarmanna

Stjórnarmönnum skal greidd föst mánaðarleg þóknun í samræmi við ákvörðun
aðalfundar ár hvert, svo sem kveðið er á um í 79. gr. laga um hlutafélög nr.
2/1995. Gerir stjórnin tillögu um þóknunina fyrir komandi starfsár og skal í
þeim efnum taka mið af þeim tíma sem stjórnarmenn verja til starfans, þeirri
ábyrgð sem á þeim hvílir, og afkomu félagsins. Þá er heimilt að greiða
stjórnarmönnum fyrir setu í nefndum á vegum stjórnar. 

3.	Starfskjör forstjóra

Gera skal skriflega(n) ráðningarsamning(a) við forstjóra. Kjör hans/þeirra
skulu ávallt vera samkeppnishæf á alþjóðamarkaði. 

Fjárhæð grunnlauna og annarra greiðslna til forstjóra skal taka mið af menntun,
reynslu og fyrri störfum. Tilgreina skal önnur starfskjör í
ráðningarsamningnum, svo sem greiðslur í lífeyrissjóð, orlof, hlunnindi og
uppsagnarfrest. Heimilt er að semja við forstjóra um upphafsgreiðslu vegna
ráðningar hans/þeirra að félaginu. 

Við gerð ráðningarsamnings við forstjóra skal haft að leiðarljósi að ekki komi
til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi. Heimilt
er þó við sérstök skilyrði að mati stjórnar að gera sérstakan starfslokasamning
við starfslok forstjóra ef stjórn telur það þjóna hagsmunum félagsins. 

4.	Umbun til æðstu stjórnenda

Forstjóra er heimilt að leggja fram tillögu fyrir stjórn félagsins um að umbuna
æðstu stjórnendum til viðbótar grunnlaunum í formi afhendingar hluta,
árangurstengdra greiðslna, hlutabréfa, kaup- og/eða söluréttar, forkaupsréttar
og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun
verðs á hlutabréfum í félaginu, lífeyrissamninga og starfslokasamninga. 

Við ákvörðun um hvort veita skuli æðstu stjórnendum umbun til viðbótar
grunnlaunum skal taka mið af stöðu, ábyrgð, frammistöðu og framtíðarmöguleikum
viðkomandi stjórnanda innan félagsins. Kaup- og söluréttir gagnvart
starfsmönnum hverju sinni geta í heild numið allt að 5% af útgefnu hlutafé í
félaginu. Kaup- eða samningsverð valrétta skal vera markaðsverð þann dag sem
rétturinn er gefinn út. 

5.	Samþykkt starfskjarastefnu og fleira

Starfskjarastefna félagsins skal tekin til afgreiðslu á aðalfundi og skal hún
tekin til endurskoðunar ár hvert og borin undir aðalfund til samþykktar eða
synjunar. 

Er starfskjarastefnan bindandi fyrir stjórn félagsins að því er varðar ákvæði
um kaupréttarsamninga og hvers konar samninga eða greiðslur er fylgja þróun
verðs á hlutabréfum í félaginu, sbr. 2. mgr. 79. gr. a. hlutafélagalaga. Að
öðru leyti er starfskjarastefnan leiðbeinandi fyrir félagið og stjórn þess.
Stjórn félagsins skal færa til bókar í fundargerðarbók veigamikil frávik frá
starfskjarastefnunni og skulu þau frávik studd greinargóðum rökum. Gera skal
grein fyrir frávikum á næsta aðalfundi félagsins. 


Eftirfarandi tillaga um endurnýjun heimildar félagsstjórnar til kaupa á
hlutabréfum í Bakkavör Group hf. var dregin til baka: 

Aðalfundur Bakkavör Group hf. haldinn 20. maí 2009 samþykkir með vísan til 55.
gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, að heimila stjórn á næstu 18 mánuðum að
kaupa allt að 10% af eigin hlutum í félaginu. Má kaupverð bréfanna verða allt
að 20% yfir meðalsöluverði hluta skráðum í Kauphöll Íslands á næstliðnum
tveimur vikum áður en kaup eru gerð og skal kaupverð hlutanna ekki vera lægra
en 0,01 kr. á hlut. Ekki eru sett lágmörk á heimild þessa hvað varðar stærð
hluta sem keyptir eru hverju sinni. Með samþykki þessarar tillögu fellur niður
sams konar heimild, sem samþykkt var á síðasta aðalfundi. 


Upplýsingar:

Snorri Guðmundsson, fjárfestatengsl
Sími: 550 9700 
snorri.gudmundsson@bakkavor.com