2024-05-31 17:40:00 CEST

2024-05-31 17:40:11 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Ísfélag hf. - Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Ísfélag hf.: Fyrsti ársfjórðungur 2024



Helsta úr starfseminni. 

  • Markaðir voru góðir fyrir afurðir félagsins. 
  • Heildarafli skipanna var rúmlega 10,7 þúsund tonn. 
  • Bolfiskafli skipa félagsins var um 6 þúsund tonn. 
  • Framleiddar afurðir voru um 8,5 þúsund tonn á tímabilinu. 

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins. 

  • Rekstrartekjur tímabilsins námu 37,1 m.USD. 
  • Tap á rekstri tímabilsins nam 1,2 m.USD. 
  • EBITDA var 6,1 m.USD eða 16,3% á tímabilinu.  
  • Heildareignir námu 782,4 m.USD 31.03.24 og eiginfjárhlutfall er 70%. 

Rekstur. 

Í árshlutareikningi Ísfélags hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2024 eru samanburðartölur í rekstri og sjóðstreymi fyrri árshelmingur 2023, þar sem ekki var gerður árshlutareikningur fyrir fyrsta ársfjórðung 2023. 

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2024 námu 37,1 m.USD samanborið við 82,2 m.USD á fyrri árshelmingi 2023. Loðnubrestur á vetrarvertíð 2024 hafði mikil áhrif til tekjulækkunar.  

Tap á rekstri var 1,2 m.USD á fyrsta ársfjórðungi 2024, samanborið við hagnað 17,9 m.USD á fyrri árshelmingi 2023. Sama á við um rekstrarniðurstöðu og tekjur, þ.e. ástæðan er fyrst og fremst að ekki var veidd loðna á vetrarvertíð 2024.  

EBITDA framlegð á fyrsta ársfjórðungi 2024 var 6,1 m.USD eða 16,3% af rekstrartekjum.  

Efnahagur. 

Heildareignir Ísfélagsins voru 782,4 m.USD þann 31.03.2024, þar af voru fastafjármunir 657,4 m.USD og veltufjármunir 125 m.USD.  

Í árslok 2023 voru heildareignir 804,4 m.USD, þar af voru fastafjármunir 663,4 m.USD og veltufjármunir 141 m.USD. Heildareignir lækkuðu um 22 m.USD á fyrsta ársfjórðungi 2024. Rekja má lækkunina að mestu til til minnkunar birgða, lækkunar á handbæru fé og á eignarhlutum í dóttur- og hlutdeildarfélögum.  

Eigið fé Ísfélagsins var 547,9 m.USD þann 31.3.2024, en var 554,2 m.USD í lok árs 2023. Eiginfjárhlutfallið var 70% þann 31.03.2024 en í lok árs 2023 var eiginfjárhlutfallið 68,9%.  

Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins voru 87 m.USD 31.03.2024 en voru í árslok 2023, 98,5 m.USD.  

Sjóðstreymi. 

Á fyrsta ársfjórðungi 2024 var handbært fé frá rekstri 11,4 m.USD, samanborið við 8 m.USD á fyrri árshelmingi 2023. Fjárfestingarhreyfingar á fyrsta ársfjórðungi voru neikvæðar um 1,5 m.USD. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 13,5 m.USD. Lækkun á handbæru fé á fyrsta ársfjórðungi 2024 var 3,5 m.USD og var handbært fé í lok tímabilsins 39,9 m.USD. 

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á fyrsta ársfjórðungi 2024. 

Þegar helstu niðurstöður úr rekstrarreikningi tímabilsins eru færðar yfir í íslenskar krónur á meðalgengi fyrsta ársfjórðungs 2024 (137,27) voru rekstrartekjur félagsins 5,1 milljarðar króna, rekstrarhagnaður 331 milljónir króna og EBITDA 831 milljónir króna og tap eftir skatta 159 milljónir króna.  

Sé efnahagur félagsins í lok fyrsta ársfjórðungs 2024, færður í íslenskar krónur á lokagengi tímabilsins (138,59), eru heildareignir 108,4 milljarðar króna, fastafjármunir 91,1 milljarðar króna og veltufjármunir 17,3 milljarðar króna. Eigið fé í lok fyrsta ársfjórðungs 2024 var 75,9 milljarðar króna og skuldir og skuldbindingar 32,5 milljarðar króna.  

Kynningarfundur 31. maí 2024.  

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi föstudaginn 31. maí klukkan 16:00. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Ísfélagsins  https://isfelag.is/streymi. Hægt er að senda spurningar á netfangið fjarfestatengsl@isfelag.is. 

Frá Stefáni Friðrikssyni forstjóra 

Veturinn var okkur erfiður í rekstrinum fyrst og fremst vegna þess að loðnan lét ekki sjá sig. Það munar um minna fyrir Ísfélagið sem er með um það bil 20% af loðnukvótanum. Við vonum samt að nægilegt magn loðnu hafi gengið til hrygningar. Þá vil ég einnig nefna að magn yngri loðnu sem mældist í loðnuleiðangri Hafró, sem fram fór sl. haust, gefur góð fyrirheit um að það verði úthlutað loðnukvóta á næstu vetrarvertíð. 

Frystitogarinn okkar, Sólberg ÓF, þurfti í vetur að fara tvær veiðiferðir í Barentshafið í stað einnar vegna þess að veiðar þar hafa dregist verulega saman enda þorskgengd minni en á undanförnum árum og meira þarf að hafa fyrir veiðunum. 

Birgðir eru talsverðar í uppsjávarafurðum en verð á mörkuðum er ágætt. 

Góð eftirspurn er eftir afurðum félagsins og verð helstu bolfiskafurða sem félagið framleiðir hefur hækkað. Sala á uppsjávarafurðum hefur einnig verið góð og væntingar eru um að loðnuhrognabirgðir félagsins seljist að mestu á árinu.  

Félagið er fjárhagslega sterkt og við getum haldið ótrauð áfram í fjárfestingum og endurbótum sem styrkja reksturinn til lengri tíma.  

í þessu sambandi vil ég nefna að félagið hefur hafið byggingu á 2.000 m2 frystigeymslu á Þórshöfn, sem við vonumst til að taka í notkun eftir ár, verið er að leggja lokahönd á smíði ísfisktogarans Sigurbjargar ÁR í Tyrklandi. Stækkun á fiskimjölsverksmiðjunni í Vestmannaeyjum stendur yfir en áætlað er að afköstin fari úr 900 tonnum í 1.200 tonn á sólarhring þegar verksmiðjan er keyrð á fullum afköstum. Í síðasta mánuði var skoska uppsjávarskipið Pathway keypt en það verður afhent í maí á næsta ári. Skipið er mjög öflugt og burðarmikið og með kaupunum á því heldur félagið áfram á þeirri braut að vera í fararbroddi þegar kemur að veiðum uppsjávarfisks og góðri aflameðhöndlun. Skipið er ekki hugsað sem viðbót við flota félagsins og verður því annað skip selt í staðinn.  

Kjarasamningar hafa verið gerðir við flestalla starfsmenn félagsins og það er ánægjulegt að það hafi gerst án harðra átaka á borð við vinnustöðvanir. Samningar við sjómenn eru til engri tíma en áður hefur þekkst.  

Á undanförnum misserum hefur ýmiss rekstrarkostnaður hækkað og nýir kostnaðarliðir bæst við.  Orkuverð hefur farið hækkandi og á meðan félagið undirbýr að fara í miklar fjárfestingar við að rafvæða fiskimjölsverksmiðjuna í Vestmannaeyjum þá eru sumir kollegar okkar, sem hafa nýtt raforku í rekstrinum undanfarin ár, að endurnýja búnað til að nota olíu sem orkugjafa vegna þess að hvorki er fyrir hendi í landinu næg raforka né flutningsgeta á henni.  

Fyrr í þessari viku var tekin ákvörðun um að loka bolfiskvinnslu félagsins í Þorlákshöfn. Sú ákvörðun var ekki auðveld en fyrir liggur að bolfiskvinnslur félagsins í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn ráða vel við þann bolfiskkvóta sem unninn er á vegum félagsins í landi. 

Ég vil þakka starfsmönnum okkar í Þorlákshöfn fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. 

Félagið gaf fyrr í þessum mánuði út sína þriðju ársskýrslu. Í skýrslunni er varpað ljósi á starfsemi félagsins í efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegur þáttum. Í skýrslunni má finna ófjárhagslega upplýsingar um starfsemi félagsins og umfang ásamt tölulegum staðreyndum og umhverfisbókhaldi. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu félagsins.  

Fjárhagsdagatal 

Birting uppgjörs Q2 2024 – 30. ágúst 2024 

Birting uppgjörs Q3 2024 – 29. nóvember 2024 

Ársuppgjör 2024 – 19. Mars 2025 

Nánari upplýsingar 
Stefán Friðriksson, forstjóri 

Viðhengi