2013-02-22 13:57:51 CET

2013-02-22 13:58:54 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsvirkjun - Ársreikningur

Ársreikningur Landsvirkjunar 2012


Skuldir Landsvirkjunar fara áfram lækkandi

Helstu atriði ársreiknings



  -- Rekstrartekjur námu 407,8 milljónum USD (51,8 ma.kr.) sem er 6,5% lækkun
     frá árinu áður.1
  -- EBITDA nam 319,6 milljónum USD (40,6 ma.kr.). EBITDA hlutfall er 78,4% af
     tekjum, en var 79,1% árið áður.
  -- Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 102,0 milljónum USD (13,0
     ma.kr.), en var 106,1 milljón USD árið áður.
  -- Handbært fé frá rekstri nam 236,2 milljónum USD (30,0 ma.kr.) sem er 11,6%
     lækkun frá árinu áður.
  -- Nettó skuldir lækkuðu á árinu um 67,3 milljónir USD (8,5 ma.kr.) og voru í
     árslok 2.436 milljónir USD (309,4 ma.kr).



Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstur Landsvirkjunar gekk vel árið 2012, raforkuvinnslan gekk vel og
framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun eru á áætlun. Skrifað var undir
raforkusamninga við tvo nýja viðskiptavini. 

  Afkoma ársins er viðunandi í ljósi efnahagsástands í heiminum. Tekjur dragast
saman um 6,5% sem að hluta má rekja til lækkandi álverðs og áhrifa þess á
samningsbundið raforkuverð. Við þessar aðstæður njótum við góðs af því að
endursamið var við einn af stærstu viðskiptavinum okkar um hærra raforkuverð
sem ekki var tengt álverði. 

Nettó skuldir fyrirtækisins halda áfram að lækka og eiginfjárhlutfall fer áfram
hækkandi. Á síðustu þremur árum hafa nettó skuldir lækkað um 389 milljónir USD
og nauðsynlegt er að Landsvirkjun nýti núverandi lágvaxtaumhverfi til að halda
áfram á þeirri braut.“ 



Rekstraryfirlit

Raforkuvinnsla Landsvirkjunar á árinu 2012 gekk vel en selt magn nam 12.770
GWst  á árinu. Hlutur vatnsafls er um 96% í vinnslu Landsvirkjunar og hlutur
jarðvarma er 4%. Rekstur aflstöðva gekk vel á árinu, án áfalla og alvarlegra
ófyrirséðra atvika. 



Lykiltölur úr rekstri: Sjá viðhengi



Um ársreikninginn

Ársreikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum
reikningsskilastöðlum (IFRS) og er hann í Bandaríkjadölum sem er
starfrækslugjaldmiðill móðurfélagsins. 

Rekstrarreikningur

Rekstrartekjur

Rekstrartekjur samstæðunnar lækkuðu um 28,4 m. USD frá árinu áður, eða úr 436,2
m. USD í 407,8 m. USD. Lækkunin skýrist aðallega af lægra orkuverði til iðnaðar
vegna lægra álverðs þrátt fyrir að hluti tekna hækki vegna almennrar þróunar
verðlags. Lækkun orkuverðs kemur til vegna lægra álverðs á heimsmarkaði, sem
lækkaði um 15% á milli ára. Meðalheild­söluverð til almenningsrafveitna (án
flutningskostnaðar) var 3,9 kr./kWst á árinu samanborið við 3,6 kr./kWst árið
áður. Meðalverð til iðnaðar var 26,2 USD/MWst en var 28,7 USD/MWst árið áður.
Meðalverð til iðnaðar er reiknað með flutningskostnaði þar sem það á við.
Flutningstekjur lækka á milli ára úr 46,9 m. USD í 44,4 m. USD sem skýrist
aðallega af gengisáhrifum. 

Rekstrargjöld

Rekstrarkostnaður án afskrifta og virðisrýrnunar nam 88,2 m. USD á árinu 2012
en var 91,0 m. USD árið áður. 

Afkoma

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir, EBITDA, nam 319,6 m. USD.
EBITDA hlutfallið er 78,4% en var 79,1% árið 2011. Að teknu tilliti til
afskrifta nam rekstrar­hagnaður, EBIT 207,3 m. USD en var 237,0 m. USD árið
áður. 

Gjaldeyrismunur er neikvæður um 17,5 m. USD á árinu en var jákvæður um 8,6 m.
USD árið áður. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 3,3% að teknu tilliti til
ríkisábyrgðargjalds en voru um 3,5% árið áður. Lágt vaxtastig á heimsmarkaði
hefur haft jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins. 

Hluti af orkusölu­samningum móðurfélagsins eru tengdir þróun álverðs.
Alþjóðlegir reikningsskila­staðlar krefjast þess að sú tenging sé reiknuð upp
sem innbyggð afleiða. Reiknuð breyting á verðmæti þessarar innbyggðu afleiðu
færist í rekstrarreikning og er 3,4 m. USD til gjalda á árinu 2012 en var 93,2
m. USD til gjalda árið áður. Gjaldeyrismunur og gangvirðisbreytingar eru að
mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga við mat á afkomu
fyrirtækisins og eru óinnleystir fjármagnsliðir því sérgreindir í framsetningu
stjórnenda. 

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði er sá mælikvarði sem Landsvirkjun
horfir til þegar það metur grunnrekstur félagsins. Hagnaðurinn nam 102,0 m. USD
árið 2012 en var 106,1 m. USD árið áður. 

Hagnaður ársins var 54,2 m. USD en 26,5 m. USD árið áður.



Efnahagsreikningur

Eignir

Heildareignir Landsvirkjunar voru 4.519 m. USD í árslok 2012.  Lausafjárstaða
Landsvirkjunar er með ágætum en handbært fé í árslok 2012 var 188 m. USD.
Fyrirtækið hefur aðgang að samningsbundnum veltilánum og er óádreginn hluti
þeirra 282 m. USD. Þar að auki eru óádregin langtímalán að fjárhæð 128 m. USD.
Lausafé og óádregin lán voru því alls 598 m. USD. 

Skuldir og eigið fé

Vaxtaberandi skuldir námu 2.624 m. USD í árslok 2012 og hafa lækkað um 117 m.
USD frá árslokum 2011 þegar þær námu 2.741 m. USD. Að teknu tilliti til
handbærs fjár og bundinna innstæðna þá námu nettó skuldir Landsvirkjunar 2.436
m. USD í árslok en voru 2.503 m. USD í árslok 2011 og hafa lækkað um 67 m. USD.
Veginn meðallíftími lánasafnsins var um 6,5 ár. 

Eigið fé fyrirtækisins var 1.697 m. USD og hefur eiginfjárhlutfall hækkað. Það
var 37,6% í árslok 2012 en 35,8% í lok árs 2011. 

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri samstæðunnar nam 236,2 m. USD.  Fjárfestingarhreyfingar
námu 123 m. USD þar sem framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun voru fyrirferðamestar.
Afborganir lána umfram lántökur námu 139 m. USD og greiddur arður 14,2 m. USD
vegna rekstrarársins 2011. Handbært fé samstæðunnar lækkaði um 42 m. USD á
árinu og var 187,9 m. USD í árslok. 

Kennitölur

Skuldsetning samstæðunnar mæld á móti rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (nettó
skuldir / EBITDA) hækkar úr 7,25x í árslok 2011 í 7,62x í árslok 2012. Hlutfall
veltufjár frá rekstri (FFO) á móti nettó skuldum stendur nánast í stað og fer
úr 10,2% árið 2011 í 9,9% í árslok 2012. 

Vaxtaþekjan (EBITDA / nettó vaxtagjöld) hækkar í 3,25x en var 3,06x í árslok
2011. Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti vaxtagjöldum hækkar úr 2,19x
í lok árs 2011 í 2,36x í árslok 2012. 

Arðsemi eiginfjár reiknast frá hagnaði og því geta innbyggðar afleiður og
óinnleystur gjaldeyrismunur haft mikil áhrif á niðurstöðuna. Arðsemi eigin fjár
hækkaði úr 1,6% fyrir árið 2011 í 3,3% í árslok 2012. 

Horfur í rekstri

Gert er ráð fyrir afhendingu orku úr Búðarhálsvirkjun (95 MW) í árslok 2013 og
mun orka þaðan meðal annars nýtast straumaukningu Rio Tinto Alcan á Íslandi hf.
sem samið var um árið 2010. 

Á fyrri hluta ársins var skrifað undir tvo nýja raforkusölusamninga. Annars
vegar við GMR Endurvinnsluna ehf. um afhendingu allt að 10 MW í ársbyrjun 2013
og hins vegar við PCC BakkiSilicon hf. um afhendingu 52 MW í lok árs 2015 fyrir
kísilmálmverksmiðju við Húsavík. Samningurinn við PCC BakkiSilicon hf. er
undirritaður með ákveðnum fyrirvörum, þ.m.t. um tilheyrandi leyfisveitingar,
samninga við íslenska ríkið, Landsnet hf. og fjármögnun, sem er áætlað að verði
uppfylltir fyrir maí 2013. 

Afkoma fyrirtækisins mun sem fyrr ráðast að miklu leyti af þróun álverðs, vaxta
og gjaldmiðla. Þó dregið hafi úr álverðstengingu í raforkusamningum úr um 70% í
45% á síðustu árum eru tekjur Landsvirkjunar enn að umtalsverðu leyti háðar
álverði á heimsmarkaði. Haldist vaxtastig lágt er það Landsvirkjun hagstætt þar
sem meirihluti lána fyrirtækisins ber breytilega vexti. 





Nánari upplýsingar veitir:

Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs

s. 515 9000









        Um Landsvirkjun

Landsvirkjun var stofnuð árið 1965 og er orkufyrirtæki í eigu íslensku
þjóðarinnar. Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum
sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og
hagkvæmni að leiðarljósi. Fyrirtækið vinnur rafmagn úr endurnýjanlegum
orkugjöfum, vatnsafli, jarðvarma. Landsvirkjun vinnur 73% allrar raforku á
Íslandi. Um leið er fyrirtækið leiðandi í sjálfbærri nýtingu orkugjafa og
stuðlar að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun.