2013-04-17 11:01:00 CEST

2013-04-17 11:01:29 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Fyrirtækjafréttir

Mikil umframeftirspurn í hlutafjárútboði VÍS


70% hlutur seldur á 14,3 milljarða króna á genginu 7,95-9,20 krónur á hlut

Vel heppnuðu almennu útboði á hlutabréfum í Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS)
lauk í gær klukkan 16.00 þriðjudaginn 16. apríl þar sem tæplega 5.000
fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf fyrir samtals um 150 milljarða
króna. Fyrirtækjaráðgjöf Fjárfestingabankasviðs Arion banka hf. hafði umsjón
með útboðinu og fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll nú í kjölfar
útboðsins, en seljandi hlutanna er Klakki ehf. 

Í ljósi eftirspurnar ákvað Klakki að nýta heimild sína til stækkunar útboðsins
og nemur því endanleg stærð þess 70% af útgefnum hlutum í VÍS. Söluandvirði
útboðsins er 14,3 milljarðar króna. Tilboðum á genginu 7,95-9,20 krónur á hlut
var tekið við úthlutun, en endanlegt útboðsgengi í tilboðsbókum A og B er 7,95
krónur á hlut og í tilboðsbók C er meðalgengi 8,52 krónur á hlut. 

Um 14,55% af útgefnum hlutum VÍS verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í
tilboðsbók A fyrir kaupum að andvirði 0,1-50 milljónum króna og hverjum aðila
úthlutað hlutabréfum að andvirði um 0,1-1,5 milljónum króna. Um 30,70% af
útgefnum hlutum VÍS verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í tilboðsbók B
fyrir kaupum að andvirði 50 milljónum króna eða meira og verður hverjum aðila
úthlutað sem nemur 5% af gildri áskrift sinni. Fjárfestum sem skráðu sig í
tilboðsbók C verður úthlutað 24,75% af útgefnum hlutum VÍS fyrir andvirði um
5,3 milljörðum króna. 

Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka:   „Það er virkilega ánægjulegt
að sjá þennan mikla áhuga fjárfesta í útboðinu og niðurstaða þess er góð fyrir
bæði Klakka og VÍS. Eftir útboðið á Klakki enn hagsmuna að gæta í félaginu og
fagnar því að geta boðið tæplega fimm þúsund nýja hluthafa velkomna á þessum
tímamótum.“ 

Gert er ráð fyrir að viðskipti með hluti í VÍS geti hafist á Aðalmarkaði
Kauphallar Íslands miðvikudaginn 24. apríl næstkomandi en Kauphöllin mun
tilkynna um fyrsta viðskiptadag með minnst eins viðskiptadags fyrirvara. 

Eindagi greiðsluseðla sem fjárfestar fá senda fyrir kaupum í útboðinu er 23.
apríl, en eftir klukkan 21.00 á eindaga geta kaupendur ekki innt af hendi
greiðslu nema seljandi ákveði að innheimta ógreiddar áskriftir. 



Nánari upplýsingar veita:

Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkv.stj. Fjárfestingabankasviðs Arion banka í
síma 444 6541 

Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka í síma 550 8601

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS í síma 560 5000