2013-12-16 12:20:43 CET

2013-12-16 12:21:44 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Orkuveita Reykjavíkur - Fyrirtækjafréttir

Sterkara lánshæfi Orkuveitunnar að mati Moody‘s


Reykjavík, 2013-12-16 12:20 CET (GLOBE NEWSWIRE) -- Staðfesta stjórnenda
Orkuveitu Reykjavíkur við að framfylgja Planinu, sem fyrirtækið hefur starfað
eftir frá 2011, er helsta ástæða þess að matsfyrirtækið Moody‘s hefur breytt
horfum í lánshæfismati sínu á Orkuveitunni úr neikvæðum í stöðugar. Orkuveita
Reykjavíkur er áfram með einkunnina B1. 

Í rökstuðningi fyrir einkunnagjöfinni segir Moody‘s að bætt aðgengi
Orkuveitunnar að lausafé og stöðugt batnandi fjárhagsstaða síðustu ár valdi
batnandi mati. „Einstök staðfesta stjórnenda hefur leitt til þess að árangur í
rekstrinum er umfram markmið í þeim efnum sem stjórnendur hafa áhrif á, svo sem
rekstrarkostnaði og fjárfestingum,“ segir í viðhengdri fréttatilkynningu. 

Í henni er einnig rifjað upp að sala eigna hafi verið sá þáttur Plansins, sem
erfiðast kynni að vera að láta standast. Nú séu þau tíðindi orðin að tekjur af
sölu eigna nemi 7,4 milljörðum króna frá árinu 2011, sem sé nálægt markmiðinu
um 8,1 milljarð. 

Þess má geta að nú er til staðfestingar hjá eigendum Orkuveitunnar sala á
eignarhlut fyrirtækisins í HS Veitum fyrir um 1,5 milljarða króna. 

Moody‘s getur þess í tilkynningu fyrirtækisins að fyrirtækið telji að hinn
lögbundni aðskilnaður samkeppni- og sérleyfisstarfsemi Orkuveitunnar, sem
verður um áramótin, muni ekki auka áhættu í rekstri.