2012-12-07 16:59:44 CET

2012-12-07 17:00:17 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Umframeftirspurn í opna hluta almenns útboðs Fjarskipta


Þann 6. desember 2012 lauk opna hluta almenns útboðs með hlutabréf Fjarskipta
hf. (Vodafone), en lokaða hluta almenns útboðs lauk þann 3. desember 2012. Í
opna hluta útboðsins, sem var opinn almenningi, voru 10% hlutafjár félagsins í
boði. Fyrirfram var greint frá því að yrði eftirspurn næg í bæði opna og lokaða
hluta útboðsins þá hefði seljandi heimild til að ráðstafa 10% af útgefnu hlutafé
félagsins til viðbótar í hvorum hluta útboðsins sem er. Íslandsbanki var
ráðgjafi Vodafone og seljandans Framtakssjóðs Íslands.

Útboðsgengið var 31,5 krónur á hlut. Samtals bárust áskriftir fyrir 1.652
milljónir króna í þennan hluta eða sem nemur um 1,6 faldri umframeftirspurn
miðað við þann 10% hlut sem boðinn var til sölu af Framtakssjóði Íslands.

Í lokaða hluta útboðsins mánudaginn 3. desember síðastliðinn bárust samtals
tilboð fyrir 9.969 milljónir króna frá fjárfestum. Í þeim hluta voru í boði 40%
hlutafjár í félaginu sem voru í eigu Framtakssjóðs Íslands. Samtals bárust því
áskriftir fyrir 11.621 milljónir króna eða sem nemur um 2,2 faldri
umframeftirspurn miðað við þann 50% hlut sem boðinn var.

Í ljósi umframeftirspurnar mun Framtakssjóður Íslands, í samræmi við efni kafla
4.5. í verðbréfalýsingu, auka við framboðið og selja til viðbótar sem nemur 10%
hlutafjár í Vodafone, eða samtals 60% af hlutafé félagsins. Í lokaða hluta
útboðsins verða seldir samtals 164.333.265 hlutir eða sem samsvarar 49%
hlutafjár og í opna hluta útboðsins verða seldir 37.053.855 hlutir eða sem
samsvarar 11% hlutafjár. Við úthlutun leitaðist Framtakssjóður Íslands við að
uppfylla skilyrði kauphallar um skráningu, hámarka söluverðmæti, fá að félaginu
sterka langtímaeigendur og stuðla að virkum íslenskum hlutabréfamarkaði.

Samtals munu því 201.387.120 hlutir, eða sem samsvarar 60% hlut í félaginu,
skipta um hendur í tengslum við töku félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði
NASDAQ OMX Iceland hf. Söluandvirði hlutanna er 6.344 milljónir króna.

Framtakssjóður Íslands á eftir viðskiptin 19,7% hlut í félaginu. Sjóðurinn kom
að félaginu í upphafi árs 2010 og hefur gegnt virku eigandahlutverki í félaginu
frá þeim tíma. Á tímabilinu var ráðist í umfangsmikla endurskipulagningu á
félaginu, bæði hvað varðar rekstur og fjármögnun sem lauk núna á haustmánuðum.
Meginmarkmið Framtakssjóðsins voru að félagið uppfyllti skilyrði Kauphallarinnar
um dreifingu hlutafjár, þ.m.t. um eignarhald almennra fjárfesta og fjölda
hluthafa. Niðurstaða útboðsins er í takt við þau markmið.

Úthlutun hlutabréfa fer fram samkvæmt kafla 4.11. í verðbréfalýsingu Fjarskipta
hf., dags. 19. nóvember 2012.  Þátttakendum í útboðinu verður tilkynnt um
úthlutun sína með tölvupósti fyrir miðnætti þann 7. desember 2012.

Þór Hauksson, stjórnarformaður Vodafone og fjárfestingarstjóri hjá Framtakssjóði
Íslands:"Það er ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga meðal fjárfesta á Fjarskiptum hf.
 og að markmið útboðsins hafi náðst. Nýir hluthafar eru komnir að félaginu og
félagið verður tekið til viðskipta í kjölfarið. Fyrir hönd bæði stjórnar
Vodafone og Framtakssjóðsins vil ég þakka starfsmönnum félagsins fyrir
árangursríkt starf. Um leið býð ég nýja hluthafa velkomna að félaginu. Vodafone
mun í framtíðinni leggja ríka áherslu á góð samskipti við hluthafa,
greiningaraðila, framtíðarfjárfesta og NASDAQ OMX"


[HUG#1663435]