2014-08-26 17:30:00 CEST

2014-08-26 17:30:01 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Vátryggingafélag Íslands hf. - árshlutauppgjör


Afkoma á fyrri árshelmingi 2014

Samstæðuárshlutareikningur félagsins fyrir fyrri helming ársins 2014 var
staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 26. ágúst
2014. Árshlutareikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins. 

Helstu niðurstöður

  -- 451 m.kr. hagnaður varð af rekstri félagsins á fyrri helmingi ársins
     samanborið við 1.094 m.kr. hagnað á sama tímabili árið 2013.
  -- Iðgjöld tímabilsins námu 7.781 m.kr. samanborið við 7.971m.kr. á sama
     tímabili árið 2013.
  -- Framlegð af vátryggingarekstri var 94 m.kr. samanborið við 221m.kr. á fyrri
     helmingi ársins 2013.
  -- Samsett hlutfall var 99,9% samanborið við 98,2% á sama tímabili 2013.
  -- Fjármunatekjur námu 663 m.kr. samanborið við 1.374 m.kr. á fyrri helmingi
     2013.
  -- Heildareignir í lok júní námu 47.538 m.kr. samanborið við 46.254 m.kr. í
     árslok 2013.
  -- Fjárfestingaeignir félagsins námu 35.015 m.kr. samanborið við 36.581 m.kr.
     í árslok 2013.
  -- Eigið fé félagsins nam 15.170 m.kr. í lok tímabilsins samanborið við 16.624
     m.kr. í árslok 2013.
  -- Arðsemi eigin fjár var 5,7% á ársgrunni samanborið við 14,6% arðsemi á sama
     tímabili árið 2013.
  -- Eiginfjárhlutfall var 31,9% í lok tímabilsins.
  -- Gjaldþolshlutfall samstæðunnar var 3,85 í lok júní og hefur hækkað úr 3,74
     frá áramótum.
  -- Á fyrri helmingi ársins greiddi félagið 1.831 m.kr. í arð til hluthafa og 
     keypti eigin bréf að nafnverði 8 m.kr. fyrir um 74 m.kr.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri

„Rekstur félagsins gekk ágætlega á öðrum ársfjórðungi ársins.  Iðgjaldatekjur
jukust frá fyrsta fjórðungi og voru litlu minni en á sama fjórðungi í fyrra. 
Tjónaþunginn var nokkuð minni en á fyrsta fjórðungi og var samsett hlutfall
96,9%.  Á fyrri árshelmingi var samsett hlutfall 99,9% sem er heldur hærra en á
sama tímabili 2013 þegar hlufallið var 98,2%.   Þróun á fjármálamörkuðum á
tímabilinu leiðir af sér að ávöxtun af fjárfestingasafni félagsins á fyrri
helmingi ársins var nokkuð undir væntingum stjórnenda og verulega lakari en á
sama tímabili 2013. Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður námu fjármunatekjur á
öðrum ársfjórðungi 492 milljónum króna.  Áherslur stjórnenda á að einfalda
starfsemina og auka skilvirkni í rekstri hafa skilað sér í því að
rekstrarkostnaður á fyrri helmingi ársins er nánast sá sami og hann var á fyrri
helmingi ársins 2013. 

Stefna VÍS er að bæta þjónustu við viðskiptavini og auka ánægju þeirra enn
frekar.  Hluti af því er að auðvelda þeim að eiga viðskipti við félagið.  VÍS
vinnur nú að innleiðingu á nýrri staðlaðri tryggingalausn frá danska
hugbúnaðarframleiðandanum TIA Technology A/S.  Með því byggjum við sterkan
grunn til framtíðar, njótum framþróunar á kerfinu með stórum hópi annarra
notenda og getum einbeitt okkur enn betur að því að þjóna viðskiptavinum okkar
á skilvirkan hátt.  Lausnir TIA eru þrautreyndar og í notkun hjá mörgum
tryggingafélögum erlendis sem við horfum til.  Með því að staðla uppsetningu
náum við að einfalda starfsemi félagsins og leggja áherslu á virðisaukandi
þjónustu til viðskiptavina okkar.  Gert er ráð fyrir að fjárfestingin byrji að
skila ávinningi um það bil ári eftir að innleiðingu lýkur en áætlað er að það
verði á fyrri árshelmingi 2015 og að innleiðingin hafi óveruleg áhrif á afkomu
félagsins á innleiðingartíma. 

Þann 6. júlí síðastliðinn varð stór bruni í Skeifunni í Reykjavík sem olli
miklu eignatjóni.  Áætlað er að áhrif þessa tjóns á eigin tjónakostnað VÍS
verði um 250 mkr. eða sem nemur um 2% af eigin tjónakostnaði ársins 2013.“ 

Horfur

Stefna félagsins er að sækja og rækta samband sitt við núverandi og nýja
viðskiptavini og viðhalda markaðsstöðu sinni.  Áhersla er á áhættumat og
verðlagningu vátryggingaráhættu ásamt öflugu forvarnarstarfi til að fækka
slysum og tjónum.  Markmið félagsins er að auka ánægju viðskiptavina enn frekar
á sama tíma og unnið er að því að einfalda og auka skilvirkni í starfsemi
félagsins og lækka kostnað.  Markmið félagsins er að samsett hlutfall á árinu
2014 verði lægra en það var á árinu 2013 en afkoma á fyrri árshelmingi og
stórtjón á þriðja ársfjórðungi kunna að hafa neikvæð áhrif á að þetta markmið
náist. Jafnframt er áhersla á trausta langtímaávöxtun á fjárfestingar í samræmi
við fjárfestingastefnu félagsins. 

Um VÍS

VÍS er leiðandi fyrirtæki á sviði vátrygginga á Íslandi. VÍS nýtur sterkrar
stöðu á íslenskum vátryggingamarkaði með liðlega þriðjungs markaðshlutdeild.
Félagið býður upp á víðtæka vátryggingaþjónustu til viðskiptavina sinna þar sem
rík áhersla er lögð á viðeigandi ráðgjöf um vátryggingavernd, gæði í þjónustu,
skilvirkni og sveigjanleika. 

Meginstarfsemi VÍS er á sviði skaðatrygginga og líftrygginga og starfrækir
félagið 39 þjónustuskrifstofur víðsvegar um land.  VÍS leggur áherslu á að
starfsmenn og umboðsmenn félagsins vinni eftir grunngildum þess sem eru
umhyggja, fagmennska og árangur. 

Hlutverk VÍS

VÍS er traust, leiðandi og framsækið þjónustufyrirtæki sem veitir
viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd og stuðlar að öryggi í samfélaginu
með öflugum forvörnum. 

Kynningarfundur

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn hjá VÍS í Ármúla
3, 5. hæð, þann 27. ágúst n.k. kl. 8:30. Þar kynnir Sigrún Ragna Ólafsdóttir
forstjóri VÍS afkomu félagsins og svarar spurningum. 

Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu VÍS:
www.vis.is 

Fjárhagsdagatal

Viðburður                           Dagsetning:

3. ársfjórðungur 2014   30. október 2014

Ársuppgjör 2014           26. febrúar 2015

Aðalfundur 2015              12. mars 2015

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri í síma 560-5000og
í netfangi fjarfestatengsl@vis.is.