2013-12-22 20:31:10 CET

2013-12-22 20:32:11 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reginn hf. - Fyrirtækjafréttir

Tilkynning um undirritun Regins hf. á kaupsamningi um kaup á öllu hlutafé í Klasa fasteignum ehf.


Undirritaður hefur verið kaupsamningur milli Regins hf. og eigenda
fasteignafélagsins Klasa fasteigna ehf. um sölu á öllum hlutum í félaginu til
Regins hf. Undirritun kaupsamningsins er gerð í kjölfar áreiðanleikakönnunar
sem nú er lokið. Sömuleiðis hefur helsti lánveitandi Klasa fasteigna ehf.,
KLS1, fagfjárfestasjóður í vörslu Stefnis hf. staðfest að sjóðurinn muni ekki
nýta sér gjaldfellingarheimild vegna eigendaskipta á félaginu. 

Kaupsamningurinn er með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og að
hluthafafundur Regins hf. samþykki heimild til stjórnar Regins hf. til útgáfu
nýrra hluta og að hluthafar Regins hf. falli frá forgangsrétti til hinna nýju
hluta. Hluthafafundur verður boðaður á nýju ári og er stefnt að því að hann
verði haldinn í byrjun febrúar. 

Kaupin á félaginu miðast við að heildarvirði Klasa fasteigna ehf. sé 8.250
m.kr. og að greitt verði fyrir eignarhluti í félaginu með hlutafé í Regin hf.
að nafnverði 128.700.000 kr. auk peningagreiðslu eftir að tekið hefur verið
tillit til áhvílandi skulda. Nýtt hlutafé í Regin hf., sem sérstaklega verður
gefið út vegna kaupanna, miðast við fast gengi 13,63 krónur á hlut sem var
lokagengi þann 15. nóvember sl. í Kauphöll. 

Fjárhagsstaða Klasa fasteigna ehf. er sterk, útleiguhlutfall er hátt og
leigutekjur góðar eða yfir 700 m.kr á ársgrundvelli. Fasteignasafn Klasa
fasteigna ehf., sem Reginn hf. eignast, telur 9 fasteignir og er
heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins um 28.500 fermetrar. Fasteignirnar eru
eftirfarandi: 

Skútuvogur 2,  Bíldshöfði 9 (7. hæð),  Síðumúli 7-9 (hluti), Síðumúli 28,
Guðríðarstígur 6-8 og Hádegismóar 4, allar staðsettar í Reykjavík. 

Litlatún 3 og Garðatorg 1 í Garðabæ.

Eyrartröð 2a í Hafnafirði.

Leigutakar eru um 30 talsins. Helstu leigutakar eru Vodafone, Hagkaup, Árvakur,
Garðabær og Víðir. Safnið er einkar glæsilegt og vel við haldið og eignirnar
sem um er að ræða eru allar í 100% eigu félagsins utan Síðumúla 7-9 og
Bíldshöfða 9. 

Ráðgjafi Regins hf. í viðskiptum þessum  er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans  og
ráðgjafi Klasa fasteigna ehf. er Arctica Finance. 

Nánari kynning á viðskiptunum og áhrifa þeirra á rekstur Regins hf. verður send
út í kjölfar boðunar til hluthafafundar. 

Nánari upplýsingar veitir:

Helgi S. Gunnarsson

Forstjóri Regins hf.

S: 512 8900 / 899 6262