2015-02-26 16:30:49 CET

2015-02-26 16:31:50 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Vátryggingafélag Íslands hf. - Ársuppgjör 2014


Afkoma VÍS á árinu 2014

Samstæðuárshlutareikningur félagsins fyrir árið 2014 var staðfestur af stjórn
og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 26. febrúar 2015.  Verður
ársreikningurinn lagður fyrir aðalfund þann 12. mars 2015 til staðfestingar. 



Helstu niðurstöður árið 2014

  -- Hagnaður ársins eftir skatta nam 1.710 m.kr. eða 0,69 krónum á hlut. (2013:
     2.154 m.kr. eða 0,86 á hlut).
  -- Iðgjöld ársins námu 16.023 m.kr. (2013: 16.090 m.kr.).
  -- Framlegð af vátryggingarekstri var 46 m.kr. (2013: 503 m.kr.).
  -- Rekstrarkostnaður lækkar frá fyrra ári og kostnaðarhlutfallið var 21,4%
     (2013: 21.4%)
  -- Samsett hlutfall var 100,7% (2013: 97,8%).

  -- Fjármunatekjur námu 2.439 m.kr. (2013: 2.631 m.kr.).

  -- Heildareignir í lok ársins námu 46.466 m.kr. (2013: 46.368 m.kr.).
  -- Fjárfestingaeignir félagsins námu 34.658 m.kr. (2013: 36.581 m.kr.).
  -- Eigið fé félagsins nam 15.956 m.kr. (2013: 16.624 m.kr.).
  -- Eiginfjárhlutfall var 34,3% í lok árs.
  -- Arðsemi eigin fjár var 10,5% (2013: 13,9%). 
  -- Á árinu greiddi félagið 1.831 m.kr. í arð til hluthafa.
  -- Á árinu keypti félagið eigin bréf í samræmi við endurkaupaáætlun þess að
     nafnverði 64 m.kr. fyrir 547 m.kr.



Helstu niðurstöður fjórða ársfjórðungs

  -- Hagnaður félagsins eftir skatta nam 804 m.kr. (4F13: 111 m.kr.).
  -- Iðgjöld ársins námu 4.170 m.kr. (4F13: 4.061 m.kr.).
  -- Framlegð af vátryggingarekstri var 26 m.kr. (4F13: 42 m.kr.). 
  -- Kostnaðarhlutfall var 20,5% (4F13: 22,0%) 
  -- Samsett hlutfall var 100,4% (4F13: 100,0%).

  -- Fjármunatekjur námu 1.013 m.kr. (4F13: 174 m.kr.).

  -- Arðsemi eigin fjár var 20,5% (4F13: 0,7%). 

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri

„Hagnaður félagsins á síðasta ársfjórðungi 2014 var góður og skýrist hann af
góðri ávöxtun af skuldabréfum og hlutabréfum á tímabilinu. Ávöxtun fjárfestinga
félagsins nam 2,94% á fjórðungnum og 7,1% á árinu og telst góð þegar horft er
til helstu viðmiða.  Afkoma félagsins af vátryggingastarfsemi var hins vegar
undir væntingum á árinu og þá sérstaklega afkoma af eignatryggingum og
ökutækjatryggingum.  Samsett hlutfall árið 2014 endaði í 100,7% en árið 2013
var samsett hlutfall 97,8%.  Tjónaþungi ársins er meiri en búist var við í
upphafi árs og skýrist hann annars vegar af aukinni tjónatíðni og hins vegar af
fjölgun stærri tjóna. Áherslur stjórnenda á einföldun og aukna skilvirkni í
rekstri hafa skilað sér í því að rekstrarkostnaður lækkaði á árinu.“ 



Fjárfest í innviðum

Félagið stendur í umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum.  Unnið er að
innleiðingu á staðlaðri lausn trygginga- og tjónakerfis í samstarfi við danska
hugbúnaðarfyrirtækið TIA Technology A/S, sem er leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki
fyrir tryggingafyrirtæki í Evrópu.  Stefnt er að gangsetningu kerfisins um mitt
ár 2015 og eru talsverðar væntingar um að það muni skila ávinningi í bættum
þjónustuferlum og hagkvæmni í rekstri.  Á árinu hefur jafnframt verið haldið
áfram að fjárfesta í innleiðingu á LEAN og hafa stjórnendur sett sér það
langtímamarkmið að byggja upp menningu sem grundvallast á stöðugum umbótum og
vilja til að gera sífellt betur.  Ávinningur er þegar farinn að skila sér í
bættri þjónustu og einföldun í starfseminni. 



Ný vátryggingalöggjöf - Solvency II

Félagið vinnur að innleiðingu á væntanlegri löggjöf um vátryggingafélög,
Solvency II, sem taka á gildi frá og með 1. janúar 2016. Löggjöfin felur meðal
annars í sér umtalsverða breytingu á því hvernig áhætta í starfsemi
vátryggingafélaga er mæld og hvernig gjaldþol og gjaldþolskrafa eru ákvörðuð.
Gjaldþolskrafa skv. Solvency II er reiknuð sem áhættumiðað mat á heildaráhættu
félagsins þ.e. í rekstri félagsins, vátryggingastofni og eignasafni. Megin
breyting á reiknuðu gjaldþoli eftir Solvency II felst í að staða
vátryggingaskuldar umfram varfærnislegt mat telst til gjaldþols þó að
frádregnum tekjuskatti. Þetta hefur í för með sér að gjaldþol félagsins
reiknast hærra samkvæmt Solvency II. Félagið hefur reiknað gjaldþol og
gjaldþolskröfu miðað við árslok 2014 og er í útreikningum tekið tillit til
væntanlegrar arðgreiðslu að fjárhæð 2,5 ma.kr.  Þá reiknaðist gjaldþol skv.
Solvency II 15,0 milljarðar króna og 



gjaldþolskrafa 9,1 milljarðar króna sem gefur gjaldþolshlutfall 1,65. Þessi
útreikningur miðast við þær forsendur og upplýsingar sem nú liggja fyrir um
væntanlega löggjöf. 



Samhliða innleiðingu á Solvency II er unnið að því að setja félaginu ný markmið
um gjaldþolskröfu, gjaldþol og arðgreiðslustefnu.  Félagið mun upplýsa um
niðurstöður þeirrar vinnu þegar henni er lokið og allar nauðsynlegar
upplýsingar varðandi nýja löggjöf liggja fyrir. 

Tillaga stjórnar til aðalfundar um arðgreiðslu

Stjórn félagsins leggur til að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur kr. 1,03
á hlut. Heildarfjárhæð arðgreiðslunnar er um 2.500 milljónir króna.
Arðsákvörðunardagur er 12. mars 2015 sem þýðir að skráðir hluthafar í lok dags
16. mars 2015 (arðsréttindadagur) eiga rétt á arðgreiðslu. Arðleysisdagur er
því 13. mars 2015 sem er fyrsti viðskiptadagur eftir arðsákvörðunardag og
útborgunardagur er 9. apríl 2015. 

Tillaga stjórnar til aðalfundar um heimild til kaupa á eigin hlutum

Stjórn félagsins mun leggja það til við aðalfund þess þann 12. mars 2015 að
aðalfundur heimili stjórn félagsins að kaupa á næstu átján mánuðum hluti í
félaginu þannig að það ásamt dótturfélögum þess eigi, að öðrum lagaskilyrðum
uppfylltum, allt að 10% af hlutafé þess. 

Horfur

VÍS leggur áfram áherslu á að sækja og rækta samband sitt við núverandi og nýja
viðskiptavini og viðhalda markaðsstöðu sinni.  Áhersla er á áhættumat og rétta
verðlagningu vátryggingaráhættu ásamt öflugu forvarnarstarfi til að fækka
slysum og tjónum.  Markmið félagsins er að auka ánægju og tryggð viðskiptavina
enn frekar á sama tíma og unnið er að því að einfalda og auka skilvirkni í
starfsemi félagsins og lækka kostnað.  Markmið félagsins er að samsett hlutfall
á árinu 2015 verði undir 100%. Jafnframt er áhersla á trausta langtímaávöxtun á
fjárfestingar í samræmi við fjárfestingastefnu félagsins. 

Um VÍS

VÍS er leiðandi fyrirtæki á sviði vátrygginga á Íslandi. VÍS nýtur sterkrar
stöðu á íslenskum vátryggingamarkaði með liðlega þriðjungs markaðshlutdeild.
Félagið býður upp á víðtæka vátryggingaþjónustu til viðskiptavina sinna þar sem
rík áhersla er lögð á viðeigandi ráðgjöf um vátryggingavernd, gæði í þjónustu,
skilvirkni og sveigjanleika. 



Meginstarfsemi VÍS er á sviði skaðatrygginga og líftrygginga og starfrækir
félagið 32 þjónustuskrifstofur víðsvegar um land.  VÍS leggur áherslu á að
starfsmenn og þjónustuaðilar félagsins vinni eftir grunngildum þess sem eru
umhyggja, fagmennska og árangur. 

Hlutverk VÍS

VÍS er traust, leiðandi og framsækið þjónustufyrirtæki sem veitir
viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd og stuðlar að öryggi í samfélaginu
með öflugum forvörnum. 

Kynningarfundur

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn hjá VÍS í Ármúla
3, 5. hæð, þann 26. febrúar n.k. kl. 16:15. Þar kynnir Sigrún Ragna Ólafsdóttir
forstjóri VÍS afkomu félagsins og svarar spurningum. 

Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu VÍS:
www.vis.is 

Fjárhagsdagatal

Viðburður                                Dagsetning:

Ársuppgjör 2014               26. febrúar 2015

Aðalfundur 2015                   12. mars 2015

  1. ársfjórðungur 2015           30. apríl 2015
  2. ársfjórðungur 2015         27. ágúst 2015
  3. ársfjórðungur 2015     29. október 2015

Ársuppgjör 2015               25. febrúar 2016

Aðalfundur 2016                   17. mars 2016

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri í síma 560-5000 og
í netfangi fjarfestatengsl@vis.is.