2017-02-16 17:27:31 CET

2017-02-16 17:27:31 CET


REGLAMENTUOJAMA INFORMACIJA

Islandų
Síminn hf. - Ársreikningur

Síminn hf. - Hagræðing og skýr framtíðarsýn skila Símanum góðri uppskeru


   Helstu niðurstöður í rekstri á fjórða ársfjórðungi 2016

  -- Tekjur á fjórða ársfjórðungi 2016 voru 7.945 milljónir króna samanborið við
     8.236 milljónir króna á sama tímabili 2015. Samdráttur tekna skýrist meðal
     annars af sölu á dótturfélögunum Staka og Talentu.
  -- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA var 2.103
     milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2016 samanborið við 1.654 milljónir
     króna á sama tímabili 2015. EBITDA hlutfallið var 26,5% fyrir fjórða
     ársfjórðung 2016 en var 20,1% á sama tímabili 2015.
  -- Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2016 var 601 milljón króna samanborið við
     679 milljónir króna á sama tímabili 2015.
  -- Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 2.241 milljónir króna á
     fjórða ársfjórðungi 2016 en var 1.047 milljónir króna á sama tímabili 2015.
     Eftir vexti og skatta var handbært fé frá rekstri 2.106 milljónir króna á
     fjórða ársfjórðungi 2016 en 1.054 milljónir króna á sama tímabili 2015 og
     hækkar um 1.052 milljónir króna milli ára.
  -- Vaxtaberandi skuldir voru 22,9 milljarðar króna í lok árs 2016 en voru 24,2
     milljarðar í árslok 2015. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 19,3 milljarðar
     króna í lok árs 2016 en 20,1 milljarðar króna í lok árs 2015.
  -- Hrein fjármagnsgjöld voru 370 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2016 en
     voru 265 milljónir króna á sama tímabili 2015. Fjármagnsgjöld voru 584
     milljónir króna, fjármunatekjur voru 232 milljónir króna og gengistap 18
     milljónir króna.
  -- Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 53,5% í lok árs 2016 og eigið fé 34,3
     milljarðar króna.

Orri Hauksson, forstjóri:

„Við hjá Símanum horfum stolt á afrakstur síðasta árs. Míla náði takmarki sínu
um að veita 30 þúsund heimilum tækifæri á ljósleiðaratengingu fyrir árslok.
Sensa átti veltumesta ár sitt frá upphafi. Síminn hélt vel stöðu sinni á
einstaklings- og fyrirtækjamarkaði ásamt því að heildsölustarfsemi gekk vel.
Þrýstingur var hins vegar á einingaverð. Rekstrarkostnaður samstæðunnar hefur
nú á einu ári verið lækkaður um ríflega 800 milljónir króna á ársgrundvelli. 

Árið hófst með krefjandi hætti. Verð lækkaði bratt á lykilvörum og laun hækkuðu
langt umfram áætlanir. Gripið var til fjölmargra aðgerða til hagræðingar og
meðal annars fækkaði starfsfólki Símans hf. um 14% á árinu. Þessi ólgusjór kom
þó ekki í veg fyrir samheldni innan Símans og skýrist árangurinn á síðari hluta
ársins af einbeitni starfsfólks við að ná settum markmiðum. 

Sala dótturfélaga á árinu skerpti samstæðuna, kjarni hennar felst nú í þremur
stærstu fyrirtækjunum, Símanum, Mílu og Sensa. Rekstur tveggja smárra
dótturfélaga, On-Waves og Sensa DK, gekk illa á árinu og drógu þau
rekstrarárangur samstæðunnar niður. Neikvæð áhrif þessara eininga verða mun
minni á þessu ári. 

Við horfum bjartsýn á nýja árið. Fjárfest var markvisst síðustu mánuði ársins
og á meiri hraða en framan af ári. Sterkt vöruframboð Símans fékk verðskuldaða
athygli á markaðnum. Samanburður seinni helminga síðustu tveggja ára sýnir
glöggt að samstæðan er á réttri leið. 

Síminn státar nú af nýlegri viðurkenningu fyrir hraða á farsímanetinu, vaxandi
vinsældum sjónvarpsþjónustu Símans, öflugum innviðum og samkeppnishæfu verði.“ 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550-6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans s. 550-6003 (oskarh@siminn.is)