2011-10-26 15:54:55 CEST

2011-10-26 15:55:59 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Ársreikningur

Marel kynnir afkomu þriðja ársfjórðungs 2011


Metfjórðungur í sölu og góð afkoma


  -- Tekjur þriðja ársfjórðungs 2011 námu 169,1 milljónum evra, sem er 13,1%
     aukning samanborið við þriðja ársfjórðung 2010 [Q3 2010: 149,5 milljónir
     evra].
  -- EBITDA var 25,8 milljónir evra, sem er 15,3% af tekjum [Q3 2010: 19,9
     milljónir evra].
  -- Rekstrarhagnaður (EBIT) var 19,5 milljónir evra, sem er 11,5% af tekjum [Q3
     2010: 13,8 milljónir evra].
  -- Hagnaður nam 10,5 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi 2011 [Q3 2010: 2,4
     milljónir evra].
  -- Sjóðstreymi er traust og nettó vaxtaberandi skuldir námu 243,3 milljónum
     evra í lok þriðja ársfjórðungs 2011 [Q3 2010: 271,1 milljónir evra].
  -- Pantanabók heldur áfram að styrkjast í takt við stöðugt framboð nýrra vara
     og aukningu í fjölda nýrra pantana á ársfjórðungnum. Pantanastaða nam 204,2
     milljónum evra í lok þriðja ársfjórðungs 2011 og hefur aldrei verið
     sterkari [Q3 2010: 141,2 milljónir evra].

Þriðji ársfjórðungur 2011 var mjög góður hjá Marel. Tekjur námu 169,1 milljónum
evra, sem er 13% aukning samanborið við sama tímabil fyrir ári og 4% samanborið
við fyrri ársfjórðung, þrátt fyrir sumarleyfistímann. Rekstrarhagnaður var
11,5% af veltu sem er í samræmi við markmið fyrirtækisins um rekstrarhagnað upp
á 10-12% af veltu á árinu. 

Tekjur fyrstu níu mánaða ársins námu 484,5 milljónum evra, sem er 16,9% aukning
samanborið við sama tímabil fyrir ári. Leiðréttur rekstrarhagnaður fyrir fyrstu
níu mánuði ársins var 51,5 milljónir evra, sem er 10,6% af tekjum, og leiðrétt
EBITDA var 70,1 milljónir evra, eða 14,5% af tekjum.[1] Horfur út árið eru
jákvæðar. 



Theo Hoen, forstjóri:

„Ársfjórðungurinn var mjög góður hjá Marel þrátt fyrir sumarleyfistímann. Sá
vöxtur sem einkennir starfsemina er að öllu leyti innri vöxtur. Tekjur fyrstu
níu mánaða ársins jukust um 17% samanborið við sama tímabil fyrir ári og
rekstrarhagnaður nam 10,6% af veltu, sem er í fullu samræmi við EBIT markmið
okkar fyrir árið. Landfræðileg dreifing verkefna er góð eins og nýleg dæmi
sýna, þar á meðal sala á nýju fiskvinnslukerfi til Kína, sem og sú velgengni
sem ‚co-extrusion‘ pylsugerðarkerfin okkar njóta á hefðbundnum mörkuðum. Þetta
jafnvægi skapar góða undirstöðu fyrir áframhaldandi vöxt og verðmætasköpun. 

Það er fjöldi nýrra vara og lausna í pípunum hjá okkur fyrir allar þær
iðngreinar sem við þjónum. Á meðal nýjunga má nefna AeroScalder tækið sem notað
er til að losa fjaðrir af kjúklingi. AreoScalder notast við heitt loft og
dregur þannig úr notkun vatns, sem er takmörkuð og sífellt verðmætari auðlind.
Auk þess að draga úr kostnaði viðskiptavina er þetta tæki gott dæmi um þá
viðleitni okkar að þróa umhverfisvænar vörur sem stuðla að sjálfbærni.“ 



Virði fyrirliggjandi pantana aldrei meira

Marel nýtur áfram góðs af sterkri markaðsstöðu og stöðugu framboði nýrra vara.
Nýjar pantanir, að meðtöldum þjónustutekjum, námu 197,0 milljónum evra á þriðja
ársfjórðungi 2011, samanborið við 165,4 milljónir á sama tímabili fyrir ári.
Sem fyrr var virði nýrra pantana umfram afgreiddar pantanir og heldur
verkefnastaðan þar af leiðandi áfram að styrkjast og hefur aldrei verið betri.
Virði pantana nam 204,2 milljónum evra í lok þriðja ársfjórðungs 2011
samanborið við 141,2 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. 



Horfur

Markaðsaðstæður eru áfram hagstæðar. Marel hefur styrkt markaðsstöðu sína enn
frekar með nýjum lausnum og frekari markaðssókn. Sterk pantanabók gefur góð
fyrirheit um framhaldið á komandi mánuðum. Engu að síður má gera ráð fyrir að
afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna sveiflna í pöntunum og
tímasetningu stærri verkefna. 



Kynningarfundur 27. október 2011

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 27. október
kl. 8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabæ. Fundinum verður einnig
netvarpað: www.marel.com/webcast 



Birtingardagar fyrir reikningsárin 2011 og 2012 og aðalfundur 2012

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2011:

  -- 4. ársfjórðungur 2011                                                      
     1. febrúar 2012
  -- Aðalfundur Marel hf.                                                       
     29. febrúar 2012

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2012:

  -- 1. ársfjórðungur 2012                                                      
     26. apríl 2012
  -- 2. ársfjórðungur 2012                                                      
     25. júlí 2012
  -- 3. ársfjórðungur 2012                                                      
     24. október 2012
  -- 4. ársfjórðungur 2012                                                      
     30. janúar 2013



Frekari upplýsingar veita:

Jón Ingi Herbertsson, fjárfesta- og almannatengsl. Sími: 563-8451

Erik Kaman, fjármálastjóri. Sími: 563-8072

Sigsteinn Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marel. Sími: 563-8072





Um Marel                                                                        
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á     
 heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á    
 fiski, kjöti og kjúklingi. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki
 í meira en 30 löndum, auk 100 umboðsmanna og dreifingaraðila.                  
Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:                                      
Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og  
 áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna   
 við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við
 vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif 
 að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir
 í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað
 þetta varðar.                                                                  






[1]Einskiptiskostnaður á öðrum ársfjórðungi 2011 upp á 11,1 milljónir evra,
tengdur samningi um nýtt fyrirkomulag lífeyrissjóðsmála hjá Stork, er ekki
talinn með í leiðréttum tölum fyrir árið 2011.