2015-04-16 11:04:47 CEST

2015-04-16 11:05:47 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Skipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Síminn og Skjárinn sameinast


•   Síminn mun nú bjóða fjórþætta þjónustu; talsíma, farsíma, netþjónustu og
sjónvarpsefni 

•   Betri þjónusta við viðskiptavini og hagræðing í rekstri

•   Skjáreinn, Skjárbíó, Skjárkrakkar, Skjárheimur, Skjársport og Útvarpsstöðin
K100,5 færast til Símans 

•   Kemur í kjölfar sáttar við Samkeppniseftirlitisins um að aflétta hluta af
kvöðum frá árinu 2005 



Ákveðið hefur verið að sameina Símann og Skjáinn. Öll starfsemi Skjásins á
sviði miðlunar og afþreyingar færist til Símans og verður rekin af Símanum. Sú
þjónusta sem um ræðir eru Skjáreinn, Skjárbíó, Skjárkrakkar, Skjárheimur,
Skjársport og Útvarpsstöðin K100,5. Eftir sameininguna býður Síminn fjórþætta
þjónustu; talsíma, farsíma, netþjónustu og sjónvarpsefni. Svo öflugt
þjónustuframboð er í samræmi við þróunina erlendis þar sem afþreying og
sjónvarpsefni tengjast fjarskiptaþjónustu sífellt sterkari böndum. 

Sameiningin kemur í kjölfar sáttar við Samkeppniseftirlitið um að aflétta hluta
af þeim kvöðum sem lagðar voru á Símann og Skjáinn á árinu 2005. 

Starfsemi Skjásins flyst mestu í húsnæði Símans í Ármúla 25 á næstu vikum.
Starfsfólk Skjásins verður starfsfólk Símans eftir sameiningu. Friðrik
Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins mun vinna að sameiningunni með
stjórnendum og starfsfólki Símans og Skjásins en lætur svo af störfum, þar sem
ekki verður sérstök yfirstjórn yfir sjónvarpsstarfsemi Símans. 

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir markmiðið með sameiningunni að bæta
þjónustu við viðskiptavini og jafnframt að ná fram hagræðingu í rekstrinum:
„Þetta eru mjög spennandi breytingar fyrir viðskiptavini Símans þar sem
afþreying og sjónvarpsefni verða nú í auknum mæli hluti af þjónustuframboði
Símans. Breytt skipulag gerir viðskiptavinum okkar kleift að nálgast alla
þjónustu á einum stað.  Sameiningin kemur í kjölfar mikilla breytinga á
fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði á undanförnum árum. Við höfum viljað breyta
þeim kvöðum sem voru settar á sínum tíma og endurspegluðu stöðu sem er ekki til
staðar lengur á markaðnum. Það er ljóst að þessu skrefi mun fylgja  töluverð
rekstrarhagræðing þar sem við rekum í einhverjum tilvikum svipaðar einingar á
tveimur stöðum. Í kjölfar sameiningar mun ekki verða sérstök yfirstjórn yfir
þeim þjónustuþáttum sem færast til Símans. Ég vil þakka Friðrik kærlega fyrir
vel unnin störf á undanförnum árum og óska honum velfarnaðar.“ 

Friðrik Friðriksson fráfarandi framkvæmdastjóri Skjásins: „Það er skynsamlegt
skref að sameina Símann og Skjáinn í kjölfar nýrrar sáttar við
Samkeppnieftirlitið. Fram að þessu var sameining ekki möguleg og okkur er
flestum ljóst að núverandi fyrirkomulag aftraði framþróun beggja fyrirtækja
Símans og Skjásins við að bæta þjónustuframboð sitt.  Skjárinn hefur aldrei
staðið betur en einmitt nú og ég er stoltur af þeim árangri sem náðst hefur með
félagið á undanförnum árum og er viss um að þessi eðlilega breyting sé til
farsældar bæði fyrir viðskiptavini Skjásins og starfsfólk félagsins.“ 

Með sáttinni er ákveðið að rekstur innlendrar línulegrar sjónvarpsdagskrár
skuli vera efnahagslega og bókhaldslega aðskilinn frá öðrum rekstri Símans.
Eftirlitsnefnd um jafnan aðgang fjarskiptafyrirtækja, EJAF, er ætlað að hafa
eftirlit með framkvæmd sáttarinnar. 



Frekari upplýsingar veitir Pétur Þ. Óskarsson, yfirmaður samskipta Símans,
farsími 863-6075.