2013-05-23 19:00:35 CEST

2013-05-23 19:01:36 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Hagnaður Eimskips eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2013 nam 2,5 milljónum evra


  -- Rekstrartekjur hækkuðu um 12,4% milli ára og námu 105,3 milljónum evra
  -- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 7,2 milljónir evra
  -- Eiginfjárhlutfall var 65,8% í lok mars
  -- Flutningsmagn í áætlanasiglingum á Norður Atlantshafi jókst um 0,3% á milli
     ára
  -- Flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 13,1% á milli ára

Gylfi Sigfússon, forstjóri

„Rekstrarhagnaður Eimskips fyrir afskriftir á fyrsta ársfjórðungi nam 7,2
milljónum evra og jókst um 6,5% frá fyrra ári. Hagnaður eftir skatta nam 2,5
milljónum evra samanborið við 0,6 milljóna evra hagnað á sama tímabili í fyrra. 

Flutningsmagn í áætlanaflutningum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst
lítillega eða um 0,3% miðað við sama tímabil 2012. Töluverður vöxtur hefur
verið í flutningum til og frá Færeyjum og í flutningum á milli Evrópu og
Norður-Ameríku en samdráttur hefur verið í flutningum til Íslands og í Noregi.
Magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 13,1% í samanburði við árið á undan,
einkum vegna aukinna flutninga innan Asíu. 

Eimskip kynnti í byrjun mars umfangsmiklar breytingar á siglingakerfi félagsins
þar sem einu skipi var bætt við kerfið og jafngildir það 7,7% aukningu í
afkastagetu. Breytt siglingakerfi opnar möguleika fyrir viðskiptavini Eimskips
og fyrir nýja tekjumyndun fyrir félagið. Helstu breytingar eru vikulegar
strandsiglingar, nýjar viðkomur í Færeyjum, Skotlandi, Póllandi og
Bandaríkjunum. Í tengslum við breytingar á siglingakerfinu opnaði félagið
skrifstofu í Gdynia í Póllandi í byrjun mars og var fyrsta viðkoma félagsins í
Swinoujscie í Póllandi í apríl. Með þessari breytingu á siglingakerfinu fær
Eimskip tækifæri til að sækja inná nýja markaði í Eystrasaltinu og þjónusta
betur þá fjölmörgu viðskiptavini félagsins sem selja sjávarafurðir inná þann
markað frá Íslandi, Færeyjum og Noregi. 

Það mun taka tíma að byggja upp magn í breyttu siglingakerfi en viðskiptavinir
hafa tekið breytingunum vel og höfum við nú þegar skrifað undir nýja samninga
samtals að verðmæti þrjár til fjórar milljónir evra í sjóflutningstekjur á
ársgrundvelli. Breytingarnar koma bæði viðskiptavinum og fyrirtækinu til góða
með aukinni hagkvæmni, lækkun kostnaðar og minni umferð á þjóðvegum á Íslandi.
Sem dæmi má nefna að fyrstu tvo mánuðina eftir að strandflutningar hófust höfum
við ekið um 150 þúsund færri kílómetra en áður. 

Eimskip samdi í apríl um rúmlega 20% lækkun á kaupverði gámaskipanna tveggja
sem félagið er með í smíðum í Kína. Nemur lækkunin samtals 10 milljónum dollara
fyrir bæði skipin. Upphaflega var gert ráð fyrir að skipin yrðu afhent á þessu
ári en samið var um að afhending þeirra yrði á fyrri hluta árs 2014. Breyting á
afhendingartíma skipanna mun ekki hafa áhrif á þjónustu við viðskiptavini. 

Félagið leggur áfram sérstaka áherslu á uppbyggingu á Norður-Atlantshafi í
tengslum við möguleg verkefni tengd stóriðju, olíu og námuvinnslu, ásamt
hafnarþjónustu og annarri tengdri þjónustu. Félagið fylgist einnig með og metur
möguleg tækifæri tengd Norðurheimsskautssiglingum framtíðarinnar.“ 

Frekari upplýsingar

  -- Gylfi Sigfússon, forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs, 
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is