2013-04-11 13:34:51 CEST

2013-04-11 13:35:52 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Mosfellsbær - Ársreikningur

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2012


AFGANGUR AF REKSTRI MOSFELLSBÆJAR

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2012 var lagður fram í bæjarráði í dag
og honum vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn. 

Rekstur Mosfellsbæjar gekk vel á árinu 2012 og var rekstrarafgangur fyrir
fjármagnsliði  um 612 milljónir sem er um 10% af tekjum. Niðurstaðan er í
samræmi við fjárhagsáætlun. Að teknu tilliti til fjármagnsliða var afgangur af
rekstri bæjarins um 29 milljónir eða 0,4% af tekjum. 

Íbúar Mosfellsbæjar voru 8.978 um síðustu áramót og hafði fjölgað um 1,4% á
milli ára. 

Hófleg skuldsetning

Kennitölur úr rekstri bera vott um trausta stöðu bæjarsjóðs. Veltufé frá
rekstri eru 676 milljónir sem eru 11% af rekstrartekjum og framlegð frá rekstri
er 15%. Skuldahlutfall er 125% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er
á um í lögum. Eigið fé í árslok nemur 3.921 milljónum og er eiginfjárhlutfall
31%. 

68% af skatttekjum fara í fræðslu-, félags- og íþróttamál

Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en til hans runnu 2.343 milljónir á
árinu 2012 eða um 49% af skatttekjum. Til félagsþjónustu var veitt 1.015
milljónum og eru þar meðtalin málefni fatlaðs fólks. Íþrótta- og æskulýðsmál
eru þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 563
milljónum á árinu 2012. 

Mikil uppbygging í Mosfellsbæ

Um 767 milljónum var varið í framkvæmdir á árinu 2012 sem er nær tvöföldun frá
fyrra ári.  Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging nýs 30 rýma
hjúkrunarheimils sem verður tekið í notkun innan tíðar. Til þeirrar framkvæmdar
runnu um 276 milljónir á árinu en áætlaður byggingarkostnaður er um 811
milljónir. 

Í Mosfellsbæ rís einnig um þessar mundir nýr framhaldsskóli sem byggður er í
samstarfi við ríkið en í þá framkvæmd fór um 121 milljón á árinu 2012. Rúmar
192 milljónir fóru í gatnaframkvæmdir og einnig var talsverðu fjármagni varið í
viðhald og endurbætur á skólahúsnæði og íþróttaaðstöðu í bænum. Þrátt fyrir
þessar miklu framkvæmdir í sveitarfélaginu lækkar skuldahlutfall milli ára. 

Reikningurinn verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn 17. apríl og
til síðari umræðu 30. apríl. 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 862 0012