2013-11-11 16:50:51 CET

2013-11-11 16:51:17 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Uppgjör Vodafone á 3. ársfjórðungi 2013


Tekjur hækka og hagnaður eykst

  * EBITDA hagnaður nam 990 m.kr. og hefur aldrei verið meiri á einum
    ársfjórðungi
  * EBITDA hlutfall tímabilsins nam 28,9%
  * Hagnaður nam 415 m.kr. og jókst um 192%
  * Tekjur hækkuðu um 1% frá sama tímabili í fyrra
  * Handbært fé 1.300 milljónir króna og hefur aldrei verið hærra

Ómar Svavarsson, forstjóri:"Þriðji ársfjórðungur ársins 2013 var sérlega góður í rekstri Vodafone. Allar
helstu kennitölur rekstrarins eru jákvæðar, hvort sem litið er til tekna,
kostnaðar, framlegðarhlutfalls, EBITDA, fjármagnsliða eða hagnaðar. EBITDA
hagnaður hefur aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi og hagnaðurinn nærri
þrefaldast frá sama tímabili í fyrra. Við erum hæstánægð með þennan árangur, sem
er afrakstur markvissrar vinnu starfsfólks Vodafone síðustu misseri.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá tekjurnar vaxa milli ára en um er að ræða
viðsnúning sé litið til síðustu ársfjórðunga. Hækkunin á tekjum félagsins
skýrist af nokkrum þáttum;  markvissri vörusamsetningu og sölu til núverandi
viðskiptavina, aukinni gagnamagnsnotkun og auknum tekjum af sjónvarpsþjónustu.

Þessi góði árangur verður þó ekki rakinn eingöngu til aðgerða okkar á síðasta
ársfjórðungi.  Hér er um að ræða afrakstur stefnumarkandi ákvarðana stjórnenda
og fjárfestingarverkefna sem átt hafa langan aðdraganda. Niðurstaða fjórðungsins
staðfestir þá trú okkar að stefnan hafi verið rétt og að félagið sé á réttri
leið.

Fjárhagsstaða Vodafone er afar sterk. Eiginfjárhlutfallið hefur aldrei verið
hærra, handbært fé hefur aldrei verið meira og skuldsetning félagsins er
hófleg.  Þrátt fyrir að ákveðin óvissa ríki um ýmsa ytri þætti sem haft geta
áhrif á reksturinn þá verður spennandi verkefni að takast á við síðasta fjórðung
ársins."

Kynningarfundur 12. nóvember 2013:

Opinn kynningarfundur verður haldinn þriðjudaginn 12. nóvember 2013 í
höfuðstöðvum félagsins að Skútuvogi 2. Kynningin hefst kl. 8:30 en boðið verður
upp á morgunverð frá kl. 8:00.

Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast að honum loknum á síðu
fjárfestatengsla Vodafone á www.vodafone.is/fjarfestatengsl


[HUG#1742226]