2016-04-15 17:56:41 CEST

2016-04-15 17:56:41 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Fjarskipti hf. : Vodafone semur við EIK um húsnæði undir nýjar höfuðstöðvar


Vodafone hefur náð samningum við Eik fasteignafélag hf. um framtíðarhöfuðstöðvar
Vodafone. Um er að ræða Suðurlandsbraut 8 í Reykjavík, hið svokallaða Fálkahús.
Allsherjar breytingar standa sem stendur yfir á húsnæðinu sem verður sérhannað
fyrir starfsemi Vodafone. Um er að ræða yfir 4.700. fermetra skrifstofurými sem
mun meðal annars hýsa um 270 starfsmenn og verslun félagsins. Bætt verður þremur
hæðum við núverandi hús og starfsemin þannig verða á sex hæðum .

Í nýjum höfuðstöðvum mun Vodafone gefast tækifæri að innleiða BESTA (e. Better
Way of Working) að hætti Vodafone Group. Sameinar það allt í senn nútímalega
vinnuaðstöðu fyrir starfsmenn, áherslu á umhverfismál og hagkvæmni. Vodafone
stefnir á að taka að fullu við húsnæðinu þann 1. maí 2017 og hefur nú þegar
hafið undirbúning að nýju skipulagi og flutningi starfseminnar.

Leigusamningur um núverandi höfuðstöðvar Vodafone að Skútuvogi 2 í Reykjavík er
uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara.  Vodafone er í samskiptum við eiganda
húsnæðisins að Skútuvogi 2, Reginn hf., með það fyrir augum að ná samningum um
leigulok og fullnaðaruppgjör milli félaganna. Vodafone gerir ráð fyrir að ekki
komi til greiðslu kostnaðar af sinni hálfu til Regins hf. vegna leigulokanna,
sökum þess að Vodafone telur sig eiga kröfur á hendur Reginn hf. vegna galla og
skorts á viðhaldi á núverandi húsnæði að Skútuvogi 2. Óvissa er um hvernig þeim
viðræðum lyktar og hugsanlegt er að ágreiningur Vodafone og Regins hf. þar að
lútandi verði leystur fyrir dómstólum, með tilheyrandi óvissu um málalok.  Í
versta falli yrðu neikvæð fjárhagsleg áhrif á afkomu Vodafone um 70 m verði að
engu leyti tekið tillit til beinna og óbeinna krafna félagsins.

Það er mat Vodafone að þrátt fyrir verstu mögulegu niðurstöðu með tilliti til
leiguloka muni þetta skref ávallt vera félaginu til hagsbóta vegna lægri
kostnaðar við nýja leigu sem nemur um 35-50m á ári.






[HUG#2004122]