2007-08-10 11:00:00 CEST

2011-09-16 12:27:21 CEST


BIRTINGARSKYLDAR UPPLÝSNINGAR

Íslenska
HB Grandi hf. - Company Announcement (is)

- Breytingar á rekstri félagsins


Í kjölfar þess niðurskurðar á aflamarki, sem sjávarútvegsráðherra ákvað 6. júlí
2007, hefur stjórn HB Granda ákveðið að gera breytingar á rekstri félagsins. 

Aflamark félagsins í þorski dregst á næsta fiskveiðiári svo mjög saman að bein
sókn í þorsk verður ómöguleg.  Þorskur verður því eingöngu veiddur sem meðafli
annarra tegunda, s.s. ýsu, ufsa, karfa og grálúðu.  Eina skip félagsins, sem
til þessa hefur sótt beint í þorsk, er ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson.

Því verður útgerð Sturlaugs breytt á þann veg að hann mun veiða ufsa og karfa,
á sambærilegan hátt og hinir tveir ísfisktogarar félagsins, þeir Ásbjörn og
Ottó N. Þorláksson. 

Afleiðing af þessu verður að þorskvinnsla í landi skreppur verulega saman, en
Sturlaugur hefur til þessa lagt henni til hráefni.  Landvinnsla botnfisks
verður því fyrst og fremst á karfa og ufsa.  Til þess að haga henni á sem
hagkvæmastan hátt verður hún öll sameinuð í einu nýju fiskiðjuveri, sem áformað
er að reisa á Akranesi.  Stjórn HB Granda hefur sent stjórn Faxaflóahafna ósk
um samstarf í þessu skyni, m.a. í því fólgið að Faxaflóahafnir flýti gerð
nýrrar landfyllingar og hafnargarðs á Akranesi.  HB Grandi stefnir að því að
reisa á þeirri uppfyllingu nýtt fiskiðjuver, sem verði tilbúið síðla árs 2009. 
Þegar starfsemi í nýju húsi á Akranesi hefst, verði fiskvinnsla félagsins í
Reykjavík lögð af. 

Þangað til starfsemi hefst í nýju húsi mun núverandi fiskiðjuver á Akranesi
vinna hluta þess ufsa og allan þann þorsk, sem ísfisktogarar félagsins veiða. 
Hinn hluti ufsans, sem og allur karfi, verður áfram unninn í Reykjavík. 

Ekki kemur til fjöldauppsagna vegna þessara aðgerða.  Einhver fækkun verður þó
með því að ekki verður ráðið í öll störf sem losna. 

Nánari upplýsingar veitir forstjóri félagsins, Eggert Benedikt Guðmundsson,
sími 550 1000.