2009-11-03 17:41:59 CET

2009-11-03 17:43:01 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel Food Systems hf. - Ársreikningur

Marel Food Systems hf. kynnir afkomu þriðja ársfjórðungs 2009


Góð afkoma; nýr kostnaðargrunnur og bætt markaðsumhverfi

- Tekjur af kjarnastarfsemi námu 111,9 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi,
sem er 4,4% hækkun miðað við síðasta ársfjórðung (Q3 2008: 143,1 milljónir
evra). 
- EBITDA af kjarnastarfsemi var 18,6 milljónir evra, sem er 16,6% af veltu (Q3
2008: 20,9 milljónir evra; 14,6% of veltu). 
- Rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi var 13,1 milljónir evra, sem er
11,7% af veltu (Q3 2008: 15,7 milljónir evra; 11% af veltu). 
- Hlutafjáreign erlendra aðila jókst í 16% eftir kaup Columbia Wanger á 5,2%
eignarhlut í Marel. 

Heildarafkoma  
- Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi 2009 námu 133,7 milljónum evra (Q3 2008:
170,6 milljónir evra). 
- Heildar EBITDA var 18,0 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi 2009 (Q3 2008:
20,8 milljónir evra) og heildar rekstrarhagnaður (EBIT) var 11,8 milljónir evra
(Q3 2008: 14,5 milljónir evra). 
- Hagnaður eftir skatta var 0,9 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi 2009 (Q3
2008: 4,5 milljónir evra). 
- Nettó vaxtaberandi skuldir námu 348,0 milljónum evra.
- Brúarlán vegna starfsemi Food and Dairy var framlengt um tvö ár til október
2011. 


Theo Hoen, forstjóri
„Við erum ánægð með rekstrarafkomu ársfjórðungsins. Við erum áfram mjög
meðvituð um kostnaðarhliðina í rekstrinum í ljósi þess hve batinn er hægur. Það
er stöðugleiki í fjölda pantana af kjarnastarfsemi á þriðja ársfjórðungi eftir
vöxt á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins. Kostnaðaraðhaldið hefur gert okkur
kleift að auka framlegð og rekstrarhagnað. Eftir þær aðhaldsaðgerðir sem við
höfum ráðist í á síðastliðnu ári er kostnaðargrunnur fyrirtækisins nú töluvert
lægri en hann var áður. 

Nú einbeitum við okkur að því að ná fram þeim samlegðaráhrifum sem stefnt var
að við sameiningu Marel og Stork Food Systems. Við hlökkum til að geta boðið
viðskiptavinum okkar upp á framúrskarandi ný kerfi sem sameina þá háþróuðu
tækni sem fyrirtækin geta nú boðið upp á sem eitt félag. 

Við erum stolt af því að Columbia Wanger Asset Management, dótturfélag Bank of
America, hefur eignast hlut í félaginu. Hluthafar hafa stutt vel við stefnu
okkar á undanförnum árum og það er hvetjandi fyrir okkur að alþjóðlegir
fjárfestar skuli hafa trú á félaginu og framtíð greinarinnar.“ 


Rekstrarumhverfi

• Lykilmarkaðir Marel fyrir sölu á tækjum og kerfum til vinnslu á matvælum eru
á batavegi en batinn er hægari en gert hafði verið ráð fyrir. 
• Pöntunum hefur fækkað lítillega, eða um 4% milli ársfjórðunga, þrátt fyrir
sumarleyfistímann þegar minna er um viðskipti. 
Eftir aukningu tvo ársfjórðunga í röð fækkaði pöntunum hjá Marel einungis
lítillega á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir sumarleyfistímann en þá er
venjulega minna um viðskipti en á öðrum árstímum. Það kunna engu að síður að
verða einhverjar sveiflur í fjölda pantana á komandi ársfjórðungum vegna
hagsveiflna og tímasetninga stærri verkefna. 

Fjármálastofnanir hika enn við að fjármagna stærri fjárfestingar og hefur það
orðið til þess að stærri pantanir hafa sumstaðar frestast, einkum í
Norður-Ameríku og Austur-Evrópu. Aftur á móti er merkjanlegur bati í sölu á
meðalstórum kerfum og hefur orðið veruleg aukning í slíkum verkefnum. Tekjur af
sölu á varahlutum og þjónustu eru sambærilegar við tekjur ársins 2008. 

Matvælaiðnaðurinn

• Það er aukin virkni í öllum undirgreinum iðnaðarins.
• Mestur vöxtur er í vinnslu á kjúklingi.
• Aukin fjárfesting er í fiskvinnslu, sérstaklega í vinnslu á hvítfiski og laxi.
• Töluverður bati hefur orðið í kjötiðnaði, einkum í sölu meðalstórra kerfa.
• Það er mikil virkni í frekari vinnslu en hún skilar sér hægt í aukinni sölu.

Þrátt fyrir áframhaldandi kostnaðaraðhald leggur Marel mikla áherslu á
rannsóknar- og þróunarstarf til að tryggja stöðugar framfarir í framboði á
vörum  fyrir allar fjórar undirgreinar iðnaðarins. Það er aukin virkni í öllum
geirum iðnaðarins en það er munur á markaðsaðstæðum eftir geirum. 

- Fiskur: Sala til fiskiðnaðarins er nálægt þeim markmiðum sem sett voru í
upphafi árs. Noregur er um þessar mundir langstærsti markaðurinn í fiski eins
og nýleg dæmi um stór verkefni í laxi og hvítfiski sanna. Þó sala til sumra
landa sé enn treg hefur útkoman annars staðar farið fram úr væntingum, eins og
t.d. í Litháen og Kanada. Almennt stendur laxaiðnaðurinn vel og verð á laxi er
hátt. Í janúar 2010 taka nýjar reglur gildi í Evrópubandalaginu þar sem farið
verður fram á aflavottorð við innflutning á fiski. Fyrirtæki munu þurfa að koma
sér upp ferlum til að rekja uppruna afla sem mun skapa tækifæri fyrir Marel. 

- Kjöt: Kjötiðnaðurinn er smám saman að ná sér á strik eftir að hafa verið í
lægð undanfarið ár. Markaðurinn hefur brugðist mjög vel við þeim samþættum
kjötvinnslulausnum sem Marel býður upp á. Fyrir tveimur árum var ákveðið að
leggja einkum áherslu á meðalstór verkefni fyrir meðalstór vinnslufyrirtæki og
hefur það gefist vel. Um þessar mundir er fjöldi slíkra verkefna í bígerð.
Svínakjötsmarkaðurinn í Bandaríkjunum og Evrópubandalagslöndunum er að
styrkjast þó enn sé á brattann að sækja hvað verð á svínakjöti og hagnað af
vinnslu varðar. Góð aðsókn var að Worldwide Food Expo/AMI matvælasýningunni í
Chicago (28.-30. október) þar sem Marel sýndi m.a. nýtt samþætt kerfi sem
sameinar innsprautunarvél frá Townsend og tilvaxtareftirlitskerfi frá Marel. 

- Kjúklingur: Víðast hvar hefur kjúklingaiðnaðurinn náð góðum bata og sala
aukist. Tafir á kornuppskeru hafa valdið verðhækkunum á korni og sojabaunum í
Norður-Ameríku. Þessar hækkanir hafa hins vegar ekki komið niður á stórum
verkefnum sem nýlega var gengið frá við framleiðendur í Kanada og
Suður-Ameríku. Framleiðendur halda áfram að fjárfesta í  úrbeiningarkerfum frá
Stork, sem og heildstæðum kjúklingavinnslukerfum. Engu að síður er ólíklegt að
hreyfing komist á stærstu verkefnin fyrr en á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi
næsta árs. Búist er við að kjúklingaframleiðsla muni aukast um 10% árið 2010 á
mörkuðum eins og Rússlandi, Indlandi, Argentínu og Íran. 

- Frekari vinnsla: Framleiðendur í frekari vinnslu hafa hagnast á því að
efnahagslægðin hefur valdið aukningu í neyslu ódýrari próteina, t.d. kjúklings
og unninna vara eins og pylsna. Þeir hafa einnig haft hag af því að neytendur
kjósa í auknum mæli frekar að veita sér meiri munað í heimatilbúnum mat en að
borða úti. Strax um vorið 2008 sagðist nærri helmingur Bandaríkjamanna finna
fyrir verðhækkunum á matvælum og um 30% aðspurðra hafði brugðist við með því að
borða oftar heima, samkvæmt könnun Gallup.  Framleiðendur í frekari vinnslu
hafa brugðist við þessum breytingum á neysluvenjum með því að aðlaga og uppfæra
framleiðsluferli og -kerfi. 

- Viðskiptavinur í nærmynd - Sysco Corporation: Sysco Corporation, sem er í
fararbroddi á heimsvísu í matvælaþjónustugeiranum, starfrækir 17
kjötvinnslustöðvar í Bandaríkjunum og Kanada. Þegar Sysco ákvað að byggja nýja
vinnslustöð í Buckhead, New Jersey, til að leysa eldri stöð af hólmi leitaði
fyrirtækið til Marel. Sysco stefndi að því að auka framleiðslugetu um minnst
50% með nýju samþættu vinnslukerfi. Þar að auki vildi fyrirtækið geta fylgst
með og mælt frammistöðu einstakra starfsmanna og bætt flæði vinnsluferlisins.
Lausnin sem Marel lagði til byggist á nýja StreamLine vinnslukerfinu sem er að
fullu samþætt við Innova, háþróaða framleiðslustýringarhugbúnaðinn frá Marel.
Kerfið færir Sysco mun betri stjórn og yfirsýn yfir framleiðsluferlið og gerir
fyrirtækinu kleift að fylgjast náið með nýtingu, afköstum og gæðum afurða hjá
hverjum starfsmanni fyrir sig í gegnum allt ferlið. Þá er hægt að stýra hraða
vinnslulínunnar og hráefninu er skilað áfram á næsta vinnslustig með
sjálfvirkum hætti sem bætir mjög vinnsluflæðið. „Lausnin frá Marel mun gera
okkur kleift að auka framleiðslugetu um 50% án fjölgunar starfsfólks og bæta
nýtingu um 2-4 prósentustig. Við erum mjög ánægð með að vera fyrsta
kjötvinnslustöðin í Bandaríkjunum til að taka þessa háþróuðu nýju vinnslulínu í
notkun,“ segir Gary F. Szura, forstöðumaður Buckhead Beef NE, í eigu Sysco
Corporation. Velgengni þessara samþættaðra kerfa ber mikilvægi nýsköpunar og
rannsóknar- og þróunarvinnu glöggt vitni. Þess vegna fjárfestir Marel 6-8% af
veltu í nýsköpun en það er hæsta hlutfall sem fyrirfinnst í greininni. Hægt er
að nálgast frekari upplýsingar um Sysco Corporation á vefsíðu fyrirtækisins,
www.sysco.com. 

Helstu atburðir á tímabilinu

Samþætting og kostnaðaraðhald
Vinna við samþættingu Marel og Stork Food Systems er nú hafin með það fyrir
augum að ná fram þeim samlegðaráhrifum sem stefnt var að við sameiningu
fyrirtækjanna. Hafist hefur verið handa við þróun nýrra vara sem sameina þá
háþróuðu tækni sem fyrirtækin búa yfir með það að leiðarljósi að hámarka
virðisauka til viðskiptavina. Að auki er verið að móta samræmt viðmót gagnvart
viðskiptavininum með því að sameina skrifstofur og dótturfyrirtæki sem
fyrirtækin starfrækja um allan heim. Þetta mun einnig auka hagkvæmni og árangur
af alþjóðlegu markaðsstarfi. Endurskipulagningin verður framkvæmd í skrefum til
að trufla sem minnst daglega starfsemi. 

Marel leggur áfram mikla áherslu á kostnaðaraðhald og hagræðingu. Í heild hafa
um 25 milljónir evra sparast á ársgrundvelli. Þar af leiðandi byggist starfsemi
fyrirtækisins nú á mun lægri kostnaðargrunni en áður. Megnið af sparnaðinum
kemur til vegna fækkunar starfsfólks. Í lok annars ársfjórðungs 2008 störfuðu
4.108 manns hjá fyrirtækinu. Í lok þriðja ársfjórðungs 2009 var fjöldinn kominn
niður í 3.565. 

Sjóðstreymi
Eitt af helstu markmiðum ársins er að styrkja sjóðstreymi enn frekar. Þess
vegna var fyrir u.þ.b. einu ári ráðist í aðgerðir til að draga úr veltufé með
því að minnka birgðir og fækka fjölda skuldunauta. 

Marel var með jákvætt sjóðstreymi á þriðja ársfjórðungi upp á 5,1 milljónir
evra þrátt fyrir að reksturinn hafi vaxið í samanburði við síðasta ársfjórðung,
en það jók þörfina á veltufé. Á heildina litið er lítil fjárfestingarþörf hjá
fyrirtækinu og voru fjárfestingar í lágmarki á þriðja ársfjórðungi. 

Marel mun halda áfram aðgerðum til að draga úr veltufé að minnsta kosti út árið
2010 til að minnka enn frekar birgðir og fækka fjölda skuldunauta. Þar sem
rekstur fyrirtækisins er í vexti munu þessar aðgerðir ekki nauðsynlega leiða
til aukins sjóðstreymis. 

Fjármögnun
Þann 25. september s.l. var tilkynnt að sjóðir á vegum Columbia Wanger Asset
Management, dótturfélags Bank of America Corporation, hefðu fest kaup á samtals
tæplega 32,2 milljónum hluta í Marel sem jafngildir 5,2% eignarhlut. Fóru
viðskiptin fram á genginu 59,0. Greiðslan var innt af hendi í byrjun
októbermánaðar. Við þessi viðskipti hækkaði alþjóðleg eignaraðild í Marel úr
11% í 16% sem er í samræmi við stefnu fyrirtækisins um breiðari eignaraðild að
félaginu. 

Marel hefur nú endurfjármagnað lán tengt kaupunum á Food and Dairy Systems og
er endurgreiðsla á láninu nú í október 2011. Marel er ekki með nein
útistandandi skammtímalán. 

Núverandi lausafjárstaða nemur 51,1 milljónum evra og er enn tiltölulega góð.
Fyrirtækið er vel í stakk búið til að takast á við það markaðsumhverfi sem nú
ríkir. 

Eignir utan kjarnastarfsemi
Einum af tveimur framleiðslustöðum í Danmörku í eigu Carnitech, sem skilgreint
hefur verið sem utan kjarnastarfsemi Marel, var lokað á ársfjórðungnum. Var
starfsemin sameinuð á staðnum sem eftir stendur. 

Eins og áður hefur verið greint frá var lokið við tvær sölur á eignum utan
kjarnastarfsemi á öðrum ársfjórðungi. Var þar um að um að ræða fasteignir í
Amsterdam sem áður tilheyrðu Food & Dairy hluta Stork Food Systems og Scanvaegt
Nordic A/S fyrirtækið sem starfar utan matvælaiðnaðarins. Frekari sala eigna
utan kjarnastarfsemi er enn til athugunar. 

Horfur

Búist er við að núverandi jákvæð þróun á mörkuðum haldist eða batni lítils
háttar á komandi mánuðum. Reiknað er með að árið 2010 fari betur af stað en
árið 2009. Afkoma mun batna í samræmi við aukin umsvif á mörkuðum og mun
fyrirtækið styðja við þá þróun með áframhaldandi kostnaðaraðhaldi. Afkoma kann
að vera breytileg milli ársfjórðunga en langtíma horfur eru góðar. 


Kynningarfundur 4. nóvember 2009

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins miðvikudaginn 4. nóvember
2009 kl. 8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabær. 


Birtingardagar fyrir reikningsárið 2009 og aðalfundur 2010

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2009: 
4. ársfjórðungur 2009 				4. febrúar 2010 
Aðalfundur Marel Food Systems hf 		3. mars 2010

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2010:
1. ársfjórðungur 2010				28. apríl 2010
2. ársfjórðungur 2010				28. júlí 2010
3. ársfjórðungur 2010				27. október 2010
4. ársfjórðungur 2010				2. febrúar 2011
Aðalfundur Marel Food Systems hf 		2. mars 2010


Frekari upplýsingar veita: 
Erik Kaman, fjármálastjóri. Sími: 563-8070 
Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel ehf. Sími: 563-8070


Um Marel
Marel er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og sölu á háþróuðum búnaði og kerfum
til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi. Við höfum á að skipa heimsþekktum
vörumerkjum á borð við AEW Delford, Carnitech, Dantech, Marel, Scanvaegt, Stork
og Townsend. Við erum alþjóðlegt fyrirtæki og starfrækjum skrifstofur og
dótturfélög í meira en 30 löndum, auk 60 sölu- og dreifingaraðila um allan
heim. Við erum stöðugt að þróa nýjar leiðir til að hámarka afköst og nýtingu í
vinnslu á matvælum í náinni samvinnu við viðskipavini okkar.