2010-08-25 17:47:28 CEST

2010-08-25 17:48:28 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Lánasjóður sveitarfélaga - Ársreikningur

6 mánaða uppgjör 2010


Afkoma lánasjóðsins á fyrri hluta ársins 2010 var umfram væntingar og er
tekjuafgangur 941 m.kr. á móti 586 m.kr. fyrir sama tímabil fyrra árs. Munur
milli ára felst í gengishagnaði vegna erlendra lána sem voru óvarin eftir fall
bankanna 2008. 

Útlán sem fjármögnuð eru með eigin fé eru verðtryggð og þar sem hækkun vísitölu
á fyrri hluta árs er lægri en á sama tímabili í fyrra skýrir það lægri vaxtamun
nú samanborið við 2009. Vextir af þeim lánum hafa verið óbreyttir frá síðasta
hausti 4,25%. Einnig var ávöxtun á lausu fé lægri en á sama tímabili á síðasta
ári, en er þó góð miðað við efnahagsástand. 

Útborguð lán á fyrri hluta ársins 2010 voru 2,5 ma.kr., samanborið við 6,7
ma.kr. á sama tíma árið 2009. Vanskil við útgáfu þessa árshlutareiknings voru
15 m.kr. 

Á tímabilinu gaf sjóðurinn út skuldabréf að fjárhæð 3,3 ma.kr. á innlendum
skuldabréfamarkaði. 

Eigið fé í lok tímabilsins var 13,9 ma.kr. á móti 11,9 ma.kr. um mitt ár 2009.
Vegið eiginfjárhlutfall, svonefnt CAD-hlutfall, var í lok tímabilsins 82%
samkvæmt Basel II reglum. 

Gert er ráð fyrir að hagnaður lánasjóðsins fyrir árið í heild verði svipaður
því sem var síðastliðin tvö ár, en það mun aðallega ráðast af hækkun verðlags
það sem eftir lifir árs og þróun skammtímavaxta. 

Opinn kynningarfundur fyrir markaðsaðila verður haldinn fimmtudaginn 26. ágúst
2010 í starfsstöð sjóðsins, Borgartúni 30, 5 hæð. Óttar Guðjónsson
framkvæmdastjóri mun kynna afkomu og efnahag sjóðsins ásamt því að svara
spurningum. Kynningin hefst kl. 8:30. 

Nánari upplýsingar veitir: Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri, s. 515 4949.