2011-12-09 10:33:40 CET

2011-12-09 10:34:37 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Hagar hf. - Fyrirtækjafréttir

Arion banki lýkur vel heppnuðu útboði


30% hlutur seldur á 4,9 milljarð króna eða á 13,5 kr./hlut





Almennu útboði á hlutabréfum í Högum hf. lauk klukkan 16.00 fimmtudaginn 8.
desember síðast liðinn. Fyrirtækjaráðgjöf Fjárfestingabankasviðs Arion banka
hf. hafði umsjón með útboðinu og fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll nú
í kjölfar útboðsins, en seljandi hlutanna er Eignabjarg ehf., dótturfélag
bankans. 



Endanleg stærð útboðsins nemur 30% af útgefnum hlutum Haga og endanlegt
útboðsgengi er 13,5 krónur á hlut til allra kaupenda í útboðinu sem eru um
3.000 talsins. Heildarsöluandvirði útboðsins nemur 4.931 milljón króna, en
samtals eru 365.275.752 hlutir seldir í útboðinu. 



Um 12,5% af útgefnum hlutum Haga var úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig
fyrir kaupum að andvirði 0,1-25 milljónum króna og var hverjum aðila úthlutað
hlutabréfum að andvirði um 0,1-1,5 milljónum króna. Um 17,5% af útgefnum hlutum
Haga var úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig fyrir kaupum að andvirði 25-500
milljónum króna og var hverjum aðila úthlutað hlutabréfum að andvirði um 1,5-90
milljónum króna. 



Eindagi kaupverðs hlutanna er miðvikudaginn 14. desember næstkomandi

Eftir eindaga geta fjárfestar ekki innt af hendi greiðslu kaupverðsins, nema
seljandi ákveði að grípa til innheimtu. 



Kauphöllin mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland
með minnst eins viðskiptadags fyrirvara. 



Eftirspurn og úthlutun

Í útboðinu bárust gild tilboð um kaup fyrir alls um 40 milljarða króna og voru
um 95% þeirra gerð á genginu 13,5 kr./hlut eða með samþykki um hvaða gengi sem
yrði ákveðið á bilinu 11-13,5 kr./hlut. Ákvörðun seljanda um endanlega stærð
útboðs, verð, skiptingu og úthlutun tók mið af fjárhæð og gengi áskrifta frá
fjárfestum, eðli og stærð fjárfesta, markmiðum og skilmálum útboðsins sem gerð
var grein fyrir í lýsingu Haga dagsettri 26. nóvember 2011. Markmið seljandans
var að útboðið markaði grunninn að dreifðu eignarhaldi almennings og
fagfjárfesta á Högum, auk þess að fá ásættanlegt verð fyrir eign sína. 







Nánari upplýsingar veita



Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka, í síma 444 7108

Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingabankasviðs Arion banka
í síma 444 6541