2014-03-21 14:45:00 CET

2014-03-21 14:45:03 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Orkuveita Reykjavíkur - Ársreikningur

Traustur rekstur og sterkari fjárhagur


Reykjavík, 2014-03-21 14:45 CET (GLOBE NEWSWIRE) -- Hagræðing í rekstri
Orkuveitu Reykjavíkur og umfangsmiklar ráðstafanir, sem stjórn fyrirtækisins og
eigendur þess (Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð), samþykktu á
árinu 2011 hafa skilað mun meiri og skjótari árangri en gert var ráð fyrir þá. 

Aðgerðaáætlun Orkuveitunnar, Planið svokallaða, er til ársloka 2016 og þegar
til ráðstafana var gripið fékk Orkuveitan víkjandi lán hjá eigendum sínum til
að koma í veg fyrir sjóðþurrð um mitt ár 2011. 

Nú þegar gildistími Plansins er hálfnaður sýnir ársreikningur samstæðu
Orkuveitunnar, sem stjórn fyrirtækisins samþykkti í dag, að tekist hefur að „ná
í hús“ ríflega 42 milljörðum króna af þeim 51 milljarði sem ráðstafanirnar áttu
að skila í heild sinni. 



 Árangurinn Plansins í lok árs 2013 er liðlega 5 milljörðum króna umfram áætlun
     og búið er að ná meira en 80% þeirrar heildarfjárhæðar sem Planinu var
                           upphaflega ætlað að skila.



Árangur hagræðingarinnar er viðvarandi og því grundvöllur stöðugt batnandi
afkomu fyrirtækisins. Stjórnendur Orkuveitunnar verða greinilega varir við að
þessi viðsnúningur fer ekki fram hjá fjármálafyrirtækjum erlendis. Svo var
komið árið 2011 að allar dyr að erlendu lánsfé voru fyrirtækinu lokaðar. Nú eru
viðhorfin gjörbreytt og dæmi um að fulltrúar erlendra banka óski að fyrra
bragði eftir samskiptum við Orkuveituna með möguleg viðskipti í huga. 

Vaxandi framlegð og stórbætt eiginfjárstaða

·         Raunkostnaður við rekstur OR hefur lækkað um 2,1 milljarð króna frá
2009 og er í krónum talið nánast sá sami nú og þá. 

·         Hagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) árið 2013 nam 17,2 milljörðum
króna. 

·         Hagnaður ársins 2013 eftir skatta og fjármagnsliði nam 3,3 milljörðum
króna. 

·         Framlegð reksturs OR (EBITDA) nam 26 milljörðum króna en var 25
milljarðar árið 2012. 

·         Nettóskuldir lækkuðu á árinu 2013 um 38,7 milljarða króna. Þær nema
nú 186 milljörðum króna en voru 234 milljarðar fyrir fjórum árum. 

·         Eigið fé fyrirtækisins jókst um 34% frá fyrra ári, fór úr 61
milljarði króna í árslok 2012 í 81 milljarð í lok árs 2013. 

·         Eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 20,4% í 28,6%.

·         Orkuveitan greiðir ekki arð vegna ársins enda ekki gert ráð fyrir
arðgreiðslum út árið 2016, á meðan Planið er í gildi. 

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar:

Afkoma Orkuveitunnar á síðasta ári var prýðileg og hún þurfti líka að vera það.
Háar fjárhæðir voru á gjalddaga og mikilvægt fyrir Orkuveituna að standa við
allar skuldbindingar. Það tókst og gott betur. 

Fjárhagsstaða fyrirtækisins styrkist hratt og með föstum tökum á rekstrinum
hefur okkur lánast að bæta afkomuna frá ári til árs. 

Staðfesta starfsfólks Orkuveitunnar, stjórnar og eigenda við að framfylgja
Planinu hefur verið einstök. Nú uppskerum við árangur erfiðisins. Á sama tíma
hefur okkur tekist að tryggja hnökralitla þjónustu veitukerfanna. 

Um áramótin urðu miklar breytingar á skipulagi Orkuveitunnar þegar kvaðir
raforkulaga um uppskiptingu sérleyfisþátta og samkeppnisþátta í rekstri
orkufyrirtækja komu til framkvæmda. Það er vandaverk að tryggja í sessi þann
árangur sem náðst hefur við breyttar aðstæður. Skuldabaggi Orkuveitunnar er
áfram þungur en vissulega mun léttari en hann var! Traustur rekstur
Orkuveitunnar og fumlaus og góð þjónusta kemur viðskiptavinum Orkuveitunnar
best til lengdar. 

Rekstraryfirlit stjórnenda

Allar fjárhæðir eru í milljónum króna á verðlagi hvers árs.

Rekstur                             2009      2010      2011      2012      2013
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrartekjur                    26.013    27.916    33.626    37.905    39.209
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrarkostnaður               (13.042)  (13.964)  (12.391)  (12.861)  (13.126)
--------------------------------------------------------------------------------
EBITDA                            12.970    13.951    21.235    25.044    26.084
--------------------------------------------------------------------------------
Afskriftir                       (7.814)   (7.962)   (8.881)  (10.371)   (8.927)
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrarhagnaður EBIT              5.157     5.989    12.354    14.673    17.156
--------------------------------------------------------------------------------
Innleystar fjármunat. og         (4.873)   (3.558)   (3.621)   (5.993)   (4.664)
 (fjármagnsgj.)                                                                 
--------------------------------------------------------------------------------
Afkoma fyrir óinnleysta              284     2.431     8.734     8.680    12.492
 fjármagnsliði                                                                  
--------------------------------------------------------------------------------
Óinnleystir fjármagnsliðir       (4.198)    14.335  (16.041)  (12.511)   (1.570)
--------------------------------------------------------------------------------
Afkoma fyrir tekjuskatt skv.     (3.914)    16.766   (7.307)   (3.830)    10.922
 árshlutar.                   
--------------------------------------------------------------------------------
Tekjuskattur                       1.398   (3.037)     6.751     1.535   (7.572)
--------------------------------------------------------------------------------
Afkoma tímabilsins               (2.516)    13.729     (556)   (2.295)     3.350
--------------------------------------------------------------------------------




         Nánari upplýsingar:
         Bjarni Bjarnason
         Forstjóri
         Sími: 516 7707