2014-02-17 10:27:51 CET

2014-02-17 10:28:29 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Fyrirtækjafréttir

IP Fjarskipti krefjast viðurkenningar á rétti sínum


IP Fjarskipti ehf. (TAL) hafa stefnt Fjarskiptum hf. (Vodafone) fyrir Héraðsdómi
Reykjavíkur til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna riftunar Vodafone á
fjarskiptsamningum félaganna þann 13. september 2012. Vodafone telur að kröfur
TAL séu tilhæfulausar og mun félagið verjast þeim af fullum þunga.

Engar fjárkröfur eru hafðar uppi í málinu af hálfu TAL og getur Vodafone því
ekki lagt mat á möguleg fjárhagsleg áhrif. Viðurkenni dómstólar skaðabótaskyldu
Vodafone gæti TAL síðar haft uppi bótakröfu á hendur Vodafone.


Áður uppgefið um málið í skráningarlýsingu bls. 17 í útgefandalýsingu dags. 19.
nóvember 2012:"Ágreiningur er uppi á milli Fjarskipta og Tals vegna ógreiddra reikninga sem
Fjarskipti hafa gefið út á hendur Tali. Forsaga málsins er sú að Tal og
Fjarskipti gerðu með sér endursölusamning um að Tal keypti tiltekna
fjarskiptaþjónustu af Fjarskiptum í heildsölu. Á árinu 2011 kom upp ágreiningur
milli félaganna varðandi reikninga sem Fjarskipti gáfu út á hendur Tali vegna
umframgagnamagns, þ.e. kaupa Tals á gagnaflutningi umfram tiltekin mörk, og
vegna innsláttar pantana en samkvæmt samningi fyrirtækjanna hafa Fjarskipti
umsjón með innslætti pantana vegna viðskiptavina Tals gegn gjaldi.

Á fyrri hluta árs 2012 greiddi Tal hluta af þeim reikningum sem ágreiningur
ríkir um en eftir stendur ágreiningur um fimm reikninga vegna ársins 2011. Til
viðbótar við þær fjárhæðir sem um ræðir hafa Fjarskipti uppi kröfu á hendur Tali
um greiðslu áfallandi dráttarvaxta, innheimtu- og málskostnaðar.
Þann 31. mars 2011 gaf Tal út reikning á hendur Fjarskiptum sem fyrirtækið
kveðst byggja á kröfu um endurgreiðslu vegna meintrar ofrukkunar Fjarskipta
vegna fastlínuþjónustu í heildsölu. Stjórnendur Fjarskipta telja kröfuna
tilhæfulausa.

Fjarskipti undirbúa nú málshöfðun á hendur Tali til greiðslu þeirra fimm krafna
frá árinu 2011 sem ágreiningur er um og að framan er lýst. Reikna má með að Tal
krefjist sýknu af kröfum Fjarskipta og hafi jafnframt uppi gagnkröfu á hendur
Fjarskiptum vegna framangreinds reiknings frá 31. mars 2011.
Það er afstaða Fjarskipta að samkvæmt fyrirliggjandi samningum Fjarskipta og
Tals sé greiðsluskylda Tals ótvíræð. Fari ágreiningur Fjarskipta og Tals fyrir
dóm er þó ekki hægt að ábyrgjast hver lokaniðurstaða málsins verður. Versta
mögulega niðurstaðan fyrir Fjarskipti væri sú að félagið tapaði öllum kröfum
sínum á hendur Tali auk þess að vera dæmt til að endurgreiða Tali fyrrnefnda
kröfu þeirra. Verði niðurstaðan sú gæti slíkt haft í för með sér neikvæð áhrif á
rekstrarhagnað félagsins að fjárhæð 43,2 m.kr.

Besta mögulega niðurstaðan fyrir Fjarskipti væri sú að félaginu væru dæmdar
fullar greiðslur úr hendi Tals auk þess sem framangreindri kröfu Tals á hendur
Fjarskiptum yrði vísað frá. Í slíku tilviki væru heildaráhrifin á rekstrarhagnað
félagsins jákvæð um 109,3 m.kr.

Til viðbótar við þá fimm reikninga sem að framan greinir, sem eru vegna ársins
2011, hefur Tal haldið eftir hluta af greiðslum vegna reikninga útgefnum á árinu
2012. Vanskilin gætu haft neikvæð áhrif á
rekstrarhagnað Fjarskipta að fjárhæð 21 m.kr.
Útistandandi kröfur vegna ársins 2012 munu fara í hefðbundið innheimtuferli af
hálfu Fjarskipta en kröfur vegna ársins 2011 munu fara fyrir dómstóla líkt og að
framan greinir.

Aðilar hafa undirritað samkomulag þess efnis að Tal hætti alfarið í viðskiptum
við Fjarskipti þann 13. desember 2012. Tal hefur þó möguleika á framlengingu
þess tímabils til 13. febrúar 2013 svo fremi að beiðni þess efnis berist
Fjarskiptum fyrir 1. desember 2012."


Áður uppgefið í viðauka við lýsingu dagsettum 29. nóvember 2012, bls. 4:

Eftirfarandi málsgrein bætist við í lok umfjöllunar um ágreining Fjarskipta og
Tals í kafla 1.3.6. Ágreinings og dómsmál í útgefandalýsingu:"Í tengslum við yfirstandandi málarekstur á milli félaganna, sem rakinn er hér
að framan, hefur Tal gefið til kynna að fyrirtækið hyggist hafa uppi kröfur á
hendur Fjarskiptum til greiðslu skaðabóta, annars vegar til greiðslu svokallaðs
riftunargjalds (e. break-up fee) vegna afturköllunar fyrirhugaðs samruna
félaganna tveggja í apríl 2011, en samruninn var samþykktur með fyrirvara um
samþykki Samkeppniseftirlitsins sem ekki fékkst, og hins vegar vegna þess sem
Tal telur ólögmæta riftun Fjarskipta í september 2012 á samningum félaganna.
Stefna eða kröfubréf hafa ekki borist Fjarskiptum og því ekki unnt fyrir félagið
að meta þær fjárhæðir sem um gæti verið að ræða auk þess sem áhrif slíkrar
kröfugerðar, komi hún fram, væri ávallt háð endanlegri niðurstöðu dómstóla. Það
er afstaða Fjarskipta að kröfur Tals séu tilhæfulausar og munu Fjarskipti grípa
til viðeigandi varna þegar og ef stefna þess efnis berst félaginu."

Nánari upplýsingar verða veittar eftir því sem málinu vindur fram.

[HUG#1762403]