2017-11-30 22:15:27 CET

2017-11-30 22:15:47 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Fjarskipti hf. - Flöggun

Fjarskipti hf. : Kaup Fjarskipta á einingum 365


Þann 14. mars 2017 undirrituðu Fjarskipti hf. og 365 miðlar hf. samning um kaup
á rekstrarhluta og nánar tilgreindum eignum 365 miðla hf., að undanskildum
eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins og tímaritsins Glamour.
Samkeppniseftirlitið samþykkti kaupin með skilyrðum þann 9. október síðastliðinn
og við það tilefni kom fram að næstu vikur færu í að leggja lokahönd á
viðskiptin og uppfylla hefðbundna fyrirvara í kaupsamningi með það að markmiði
að greiðsla kaupverðs og afhending eigna færi fram 1. desember 2017. Nú hafa
allir fyrirvarar kaupsamningsins verið uppfylltir og þeim aflétt. Samhliða hefur
verið gengið frá nauðsynlegum samningum , m.a. um uppgjör aðila sín á milli.
Greiðsla kaupverðs og afhending eigna og reksturs fer því fram á morgun, 1.
desember eins og að var stefnt. Einingarnar sem koma frá 365 innifela meðal
annars fjölmiðla eins og Stöð 2, Stöð 2 Sport, Bylgjuna, FM957, Xið, vísir.is,
fréttadeild og auglýsinga- og áskriftasölu. Þessar einingar, starfsmenn þeirra
og stjórnendur munu færast undir nýtt svið sem ber nafnið Miðlar innan
Fjarskipta.

Björn Víglundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hins nýja sviðs og mun
leiða samþættingu þess við aðrar einingar Fjarskipta og vöruþróun sem félagið
telur mikil tækifæri í. Það er skýrt markmið samrunans að styðja öfluga innlenda
dagskrárgerð og faglega óháða fréttastofu sem lykilþátt í framtíðarstefnu
félagsins. Viðskiptavinir munu finna litlar sem engar breytingar fyrst um sinn
en markmiðið er að viðskiptavinir finni fljótlega fyrir jákvæðum breytingum með
tilliti til vöruframboðs og þjónustu sem mun skila sér til neytenda.
Velta  sameinaðs félags mun nema um 22 milljörðum króna og skila um 5 milljörðum
króna í EBITDA hagnað þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram eftir 12-18
mánuði. Með viðskiptunum verður til leiðandi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki á
Íslandi, sem mun veita yfir 500 manns atvinnu og bjóða upp á fjölbreytt
vöruframboð og enn betri þjónustu til sinna viðskiptavina.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone:
"Það er mjög ánægjulegt að taka síðasta skrefið í kaupum okkar á stórum hluta
fjölmiðla- og fjarskiptastarfsemi 365. Á meðan á löngu kaupferli hefur staðið
hef ég gert mér enn betur grein fyrir mikilvægi þessarar starfsemi fyrir
íslenskt samfélag og þeim frábæra hópi starfsfólks sem á hverjum einasta degi
færir landsmönnum menningu, fréttir og afþreyingu í heimsklassa í sjónvarpi,
útvarpi á netinu eða í snjalltækjum. Við hlökkum til að geta nú farið að vinna
með afbragðs starfsfólki í nýjum einingum að framtíðarþróun félagsins. Þrátt
fyrir aukið erlent framboð tel ég að um alla framtíð verði þörf og eftirspurn
eftir öflugum innlendum miðlum sem gera efni sem tengist samfélagi okkar og
menningu.  Markmiðið er skýrt að reka öfluga íslenska fjölmiðlun, byggja upp
einstakan vinnustað og vöru og þjónustu í bestu fáanlegu gæðum fyrir landsmenn
alla."

[]