2012-12-06 11:18:07 CET

2012-12-06 11:19:08 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Icelandair Group hf. - Fyrirtækjafréttir

CORRECTION: Icelandair Group og Boeing undirrita viljayfirlýsingu


Leiðrétting:  Heildarverðmæti flugvélanna 12 samkvæmt listaverði Boeing er um
1,2 milljarðar bandaríkjadala, en kaupverð er trúnaðarmál. Verð í ISK sem
tilgreint var í fyrri tilkynningu var ekki rétt. 



Icelandair Group og Boeing hafa undirritað viljayfirlýsingu um pöntun á 12 737
MAX8 og 737 MAX9 flugvélum með kauprétti á 12 flugvélum til viðbótar. 

Um er að ræða nýjar gerðir flugvéla og er áætlað að fyrstu vélarnar komi í
rekstur flugfélaga árið 2017. Icelandair mun taka við fyrstu vélunum af þessum
gerðum á fyrri hluta árs 2018, eða eftir rúmlega 5 ár. 

Pantaðar eru átta 737 MAX 8 vélar sem taka 153 farþega og fjórar 737 MAX 9
vélar sem taka 172 farþega miðað við sætafjölda Icelandair.  Til samanburðar
taka Boeing 757-200 flugvélar Icelandair 183 farþega. 

Heildarverðmæti flugvélanna 12 samkvæmt listaverði Boeing er um 1,2 milljarðar
bandaríkjadala, en kaupverð er trúnaðarmál. Fyrirhugað er að fjármagna kaupin
með sjóðstreymi frá rekstri og hefðbundinni flugvélafjármögnun þegar þar að
kemur. Viðræður hafa átt sér stað við Export-Import Bank of the United States
varðandi stuðning bankans við fjármögnun vélanna. Samkvæmt áætlunum félagsins
hafa kaupin ekki áhrif á núverandi arðgreiðslustefnu. 

Boeing 737 MAX vélarnar eru ný og endurbætt langdrægari útgáfa af núverandi
Boeing 737 vélum. Á þeim verða nýir og sparneytnari hreyflar sem lækka
eldsneytisnotkun um 13% á sæti frá því sem nú er.  Eldsneytissparnaður
samanborið við Boeing 757 vélarnar sem eru notaðar í flota Icelandair nemur
meira en 20% á sæti. 

Icelandair mun áfram nota Boeing 757 flugvélar í áætlunarflugi sínu með nýju
flugvélunum enda henta þær einstaklega vel fyrir leiðakerfi félagsins sem nær
til Evrópu og Norður-Ameríku. Nýju flugvélarnar munu bætast við og stækka
flotann og auka sveigjanleika félagsins og möguleika á frekari vexti. Þær hafa
flugdrægni til áfangastaða í Norður-Ameríku og Evrópu og gefa Icelandair nýja
möguleika til aukinnar tíðni og fjölgunar áfangastaða og þá sérstaklega yfir
vetrartímann sem minnkar árstíðasveiflu í rekstri félagsins. 

„Icelandair Group hefur að undanförnu kannað rækilega alla þá fjölmörgu kosti
sem flugvélaframleiðendur bjóða til þess að styrkja og þróa áætlunarflug
Icelandair til framtíðar. Sú niðurstaða sem hér er kynnt er afrakstur þeirrar
vinnu og er okkur mikið ánægjuefni. Félagið hefur átt farsælt samstarf við
Boeing um áratugaskeið og ljóst að framhald verður á því“, segir Björgólfur
Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. 

Icelandair Group mun halda kynningarfund fyrir fréttamenn og markaðsaðila kl.
12.00 í dag, fimmtudaginn 6. desember, á Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Þar
munu Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group, Birkir Hólm Guðnason
framkvæmdastjóri Icelandair og Bogi Nils Bogason framkvæmdastjóri fjármála
Icelandair Group svara fyrirspurnum. 



Frekari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri, sími: 896-1455.
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála, sími: 665-8801.