2016-04-28 18:34:57 CEST

2016-04-28 18:34:57 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Síminn hf. - Ársreikningur

Síminn hf. - Harðnandi samkeppni og hagræðing hjá Símanum


Helstu niðurstöður í rekstri fyrsta ársfjórðungs 2016

  -- Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2016 námu 6.882 milljónum króna samanborið við
     7.133 milljónir króna á sama tímabili 2015.
  -- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 1.605
     milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2016 samanborið við 1.961 milljónir
     króna á sama tímabili 2015. EBITDA hlutfallið er 23,3% fyrir fyrsta
     ársfjórðung 2016 en var 27,5% á sama tímabili 2015.
  -- Hagnaður á fyrsta ársfjórðungi 2016 nam 310 milljónum króna samanborið við
     792 milljónir króna á sama tímabili 2015.
  -- Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 1.333 milljónum króna á
     fyrsta ársfjórðungi 2016 en var 2.452 milljónir króna á sama tímabili 2015.
     Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 896 milljónum króna á
     fyrsta ársfjórðungi 2016 en 1.841 milljónum króna á sama tímabili 2015.
  -- Vaxtaberandi skuldir námu 24,0 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs
     2016 en voru 24,2 milljarðar í árslok 2015. Hreinar vaxtaberandi skuldir
     voru 20,2 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2016.
  -- Hrein fjármagnsgjöld námu 296 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2016 en
     voru 123 milljónir króna á sama tímabili 2015. Fjármagnsgjöld námu 435
     milljónum króna, fjármunatekjur voru 124 milljónir króna og gengishagnaður
     15 milljónir króna.
  -- Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 53,1% í lok fyrsta ársfjórðungs 2016 og
     eigið fé 33,1 milljarðar króna.

Orri Hauksson, forstjóri:

„Að baki eru viðburðaríkir mánuðir. Teknar voru mikilvægar ákvarðanir sem renna
styrkari stoðum undir Símann til framtíðar á líflegum íslenskum
fjarskiptamarkaði. Fyrsti ársfjórðungur var krefjandi og styrkir okkur í trúnni
um að viðskiptavinurinn sækist í auknum mæli eftir nýjungum, þjónustu og virði. 

Tekjur Símans af gagnaflutningi og upplýsingatækni jukust áfram. Sala
auglýsinga á SkjáEinum í opinni dagskrá reyndist torsótt á fyrsta ársfjórðungi,
en heldur horfir nú til betri vegar þar. Við umbreyttum vöruúrvali okkar
síðastliðið haust sem lækkaði áskriftartekjur í sjónvarpi um hríð, en við erum
ánægð að sjá að áskrifendur að gagnvirkri áskriftarþjónustu hjá Símanum eru nú
orðnir fleiri en voru áður að hinni línulegu áskriftarsjónvarpsstöð SkjáEinum.
Sjónvarpsvörur okkar fá aukinn kraft á næstu vikum þegar þjóðin fer á EM í
Frakklandi með Símanum. 

Verðsamkeppni harðnaði, sérstaklega á farsímamarkaðinum, auk þess sem
ófyrirséðar launahækkanir vegna svokallaðs SALEK-samkomulags juku kostnað
samstæðunnar umtalsvert í einu vetfangi. Við réðumst því í að stilla
liðsheildinni upp að nýju með hagræðingu í huga um leið og sett var skarpari
áhersla á vöruþróun og framtíðartekjur. 

Á þessum fyrsta ársfjórðungi hefur stöðugildum innan samstæðunnar fækkað um nær
80 og telur sala á dótturfélögunum Staka og Talenta rúman þriðjung þar af.
Hækkun milli ára á öðrum rekstrarkostnaði skýrist helst af þeim veigamiklu
breytingum á starfsmannahaldi sem hafa verið gerðar sem lækka kostnað fram á
við. 

Afkomuspá okkar fyrir árið 2016 er óbreytt frá því sem tilkynnt var um í
upphafi árs. Horfur næst stærsta dótturfélags Símans, Sensa, eru góðar út árið.
Auk þess mun það stærsta, Míla, nýta innviði sína til þess að fjölga enn
hraðari tengingum á næstu mánuðum. Verkefni samstæðunnar næstu mánuði eru afar
spennandi.“ 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550-6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans s. 550-6003 (oskarh@siminn.is)