2013-11-01 10:04:12 CET

2013-11-01 10:05:22 CET


SÄÄNNELTY TIETO

Islanti
Garðabær - Fyrirtækjafréttir

Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2014 - 2017


Áfram sterk fjárhagsstaða

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2014 sýnir að sameining sveitarfélaganna
Garðabæjar og Álftaness hefur gengið vel. Fjárhagsstaða Garðabæjar er áfram
sterk, skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum um fjármál
sveitarfélaga. Fjárhagsáætlunin var lögð fram til fyrri umræðu á fundi
bæjarstjórnar í dag. 

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins 2014 verði jákvæð
um 258 milljónir króna. Álögum á íbúa verður stillt í hóf og álagningarhlutfall
útsvars verður áfram 13,66% sem er það lægsta á höfuðborgarsvæðinu og hjá öðrum
stærri sveitarfélögum. 

Skuldahlutfall sveitarfélagsins hefur hækkað vegna sameiningar við Álftanes en
verður, í lok áætlunartímabilsins, komið niður í sama hlutfall og var í Garðabæ
fyrir sameiningu.  Framlögð fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að skuldahlutfallið
verði 103,7% árið 2014 og 87,5% árið 2017. Viðmiðunarmörkin sem skilgreind eru
í sveitarstjórnarlögum segja að skuldahlutfallið megi ekki vera hærra en 150%. 

Miklar breytingar hafa orðið á rekstri Garðabæjar síðustu misserin.  Um síðustu
áramót sameinuðust sveitarfélögin Garðabær og Álftanes.  Í maí á þessu ári tók
til starfa, í glæsilegu húsnæði á Sjálandi, hjúkrunarheimilið Ísafold sem rekið
er sem bæjarstofnun en var áður rekið sem sjálfseignarstofnunin Holtsbúð.  Það
er krefjandi verkefni sem er stórt í sniðum og  rekstrarumhverfið ólík því sem
gerist í öðrum stofnunum sem Garðabær starfrækir. 

Fræðslu- og uppeldismál eru stærsti málaflokkurinn hjá sveitarfélaginu en til
hans fara ríflega 54% af útgjöldunum. Umsvif félagsþjónustu  hafa aukist
verulega á undanförnum árum og munar þar mest um málefni fatlaðs fólks sem
sveitarfélögin tóku við í byrjun árs 2012. 

Stærstu framkvæmdir ársins verða viðbygging við Hofsstaðaskóla sem 200
milljónir eru áætlaðar til og framkvæmdir vegna gatnagerðar, hljóðvistar og
umferðarmála. Til þeirra er áætlað að verja um 300 m.kr., þar af 120 m.kr. 
vegna lagningar Álftanesvegar.  Áfram verður unnið við framkvæmdir í miðbæ og
eru áætlaðar 350 m.kr. til að ljúka við byggingu bílakjallara og frágang
bílastæða. 

Alls er gert ráð fyrir framkvæmdum að fjárhæð  1.235 millj.kr.