2014-03-13 13:38:53 CET

2014-03-13 13:39:54 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Skipti hf. - Ársreikningur

Afkoma Skipta hf. á árinu 2013



-  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 8,3 milljörðum króna
samanborið við 7,4 milljarða árið áður. 

-  Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 45,0% og eigið fé er 26,4 milljarðar króna.
Eigið fé var 7,9 milljarðar í lok árs 2012 og eiginfjárhlutfall 10,2%. 






  -- Sala nam 29,9 milljörðum króna samanborið við 28,9 milljarða árið áður og
     er aukningin 3,6%. Kostnaðarverð sölu var 15,7 milljarðar og stendur í stað
     milli ára. Rekstrarkostnaður lækkar um 79 milljónir króna milli ára, var
     9.467 m.kr. samanborið við 9.546 m.kr árið 2012.



  -- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 8,3
     milljörðum króna samanborið við 7,4 milljarða árið áður. EBITDA hlutfall
     var 27,8% en 25,5% árið 2012.



  -- Bókfært tap á árinu 2013 nam tæpum 17 milljörðum króna samanborið við 3,4
     milljarða tap árið áður. Tapið skýrist af alls 19,6 milljarða gjaldfærslu
     eftirtalinna liða: Rúmlega 14 milljarða virðisrýrnun viðskiptavildar,
     ríflega 3 milljarða niðurfærslu á kröfu á hendur Glitni hf. og 2,6
     milljarða gjaldfærslu í varúðarskyni vegna endurákvörðunar skatta. Þessir
     liðir hafa ekki áhrif á fjárstreymi.



  -- Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 7 milljörðum króna,
     samanborið við 6,3 milljarða árið áður. Eftir vexti og skatta nam handbært
     fé frá rekstri 5,1 milljörðum samanborið við 4,2 milljarða árið áður.



  -- Fjármagnsgjöld voru 5,9 milljarðar króna. Vaxtagjöld voru 3,8 milljarðar,
     niðurfærsla krafna á Glitni var 3 milljarðar, vaxtatekjur voru 0,5
     milljarðar og gengishagnaður 0,4 milljarðar.



  -- Á árinu var lokið fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta hf. Vaxtaberandi
     skuldir hafa lækkað verulega og eigið fé styrkst. Skuldir námu 26,7
     milljörðum króna um áramót en voru 62 milljarðar árið áður.



Orri Hauksson, forstjóri Símans hf.:



„Þetta uppgjör einkennist af mikilli virðisrýrnun óefnislegra eigna sem veldur
verulegu  tapi hjá samstæðunni. Slíkt tap hefur ekki áhrif á fjárhagslegan
styrk félagsins né getu þess til að standa við allar sínar skuldbindingar.
Efnahagsreikningurinn endurspeglar nú betur markaðsvirði félagsins við
fjárhagslega endurskipulagningu á seinasta ári. Við teljum rétt að beita
ítrustu varúð við mat á óefnislegum eignum og á einskiptiskostnaði. Alls eru
gjaldfærðir 19,6 milljarðar króna vegna þessara liða í uppgjöri ársins og munar
um minna. 

EBITDA félagsins hækkar milli ára og starfsfólk og stjórnendur hafa unnið gott
starf á undanförnum árum. Það er ljóst að góður grunnur hefur verið lagður
fyrir framtíðina og fyrirtækið stendur mjög sterkt eftir fjárhagslega
endurskipulagningu seinasta árs.“ 



Helstu niðurstöður í rekstri á árinu 2013



Reikningsskilaaðferðir

Samstæðuársreikningur Skipta hf. er gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir hafa verið staðfestir af
Evrópusambandinu.  Samstæðuársreikningurinn hefur að geyma ársreikning Skipta
hf. og dótturfélaga þess. Stjórn og forstjóri Skipta hf. hafa staðfest
ársreikning samstæðu félagsins fyrir árið 2013. 



Rekstur

Salan á árinu 2013 nam 29.922 milljónum króna samanborið við 28.889 m.kr. árið
áður, sem er 3,6 % hækkun. Kostnaðarverð sölu var 15.711 m.kr. samanborið við
15.710 m.kr. árið 2012. Rekstrarkostnaður lækkar um 79 milljónir króna milli
ára, var 9.467 milljónir króna samanborið við 9.546 milljónir árið 2012. 

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 8.310 milljónir
króna. miðað við 7.380 m.kr. árið áður. Hækkun EBITDA skýrist í meginatriðum af
hagræðingaraðgerðum í rekstri. EBITDA án einskiptisliða var 8.538 m.kr.
samanborið við 8.070 m.kr. árið áður. 

EBITDA hlutfallið var 27,8 % en var 28,5% sé ekki tekið tillit til
einskiptiskostnaðar.  EBITDA hlutfallið var 25,5% árið 2012. 

Afskriftir og virðisrýrnun félagsins námu 17.621 milljón króna á árinu
samanborið við 5.432 m.kr. árið áður. Munurinn skýrist einkum af meiri
virðisrýrnun óefnislegra eigna. 

Tap samstæðunnar eftir skatta nam 16.987 milljónum króna samanborið við 3.403
m.kr. tap á árinu 2012. Tapið nú skýrist einkum af virðisrýrnun viðskiptavildar
og niðurfærslu kröfu vegna gjaldmiðlaskiptasamninga. Virðisrýrnun óefnislegra
eigna var 14.055 m.kr. samanborið við 1.685 m.kr. árið 2012.  Þá voru
fjármagnsliðir tengdir skuldsetningu félagsins háir á fyrri hluta ársins.
Vaxtakostnaður var 3.794 (án niðurfærslu skiptasamninga) á árinu, samanborið
við 5.619 m.kr. á árinu 2012. 

Niðurfærsla kröfu tekur mið af úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. nóvember
2013 í ágreiningsmáli milli Símans hf. og Glitnis hf. um uppgjör
gjaldmiðlaskiptasamninga. Niðurstaða héraðsdóms hefur verið kærð til
Hæstaréttar Íslands. Fallist Hæstiréttur á kröfu Símans hf. mun það hafa
veruleg áhrif til hækkunar á þeirri kröfu sem Síminn hf. mun eiga á Glitni hf.
vegna gjaldmiðlaskiptasamninga. 

Ríkisskattstjóri hyggst endurákvarða tekjuskattsstofna  félagsins vegna
vaxtagjalda sem rekja má til sölu íslenska ríkisins á Símanum árið 2005.  Í
kjölfar sölunnar sameinuðust Skipti ehf. og Síminn hf. með svokölluðum öfugum
samruna. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu í dómi 555/2012 að
vaxtagjöld í kjölfar slíks samruna séu ófrádráttarbær gjöld. Með vísan í dóm
Hæstaréttar hefur félagið gjaldfært 2,6 milljarða króna í rekstrarreikningi
félagsins árið 2013 í varúðarskyni.  Ef til kemur að ríkisskattstjóri
endurákvarðar tekjuskattstofna félagsins, áformar stjórn Skipta að vísa þeirri
ákvörðun til dómstóla. 

Á árinu var lokið fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta hf. og var
skuldabréfaflokkur félagsins skráður á Nasdaq OMX Iceland í desember. 



Hinn 12. febrúar síðastliðinn var tilkynnt að stjórnir Skipta og Símans hefðu
ákveðið að sameina rekstur félaganna. Sameiningin er gerð með fyrirvara um
samþykki Samkeppniseftirlitsins sem ekki hefur lokið málsmeðferð. 



Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 6.989 milljónir króna á árinu en
var 6.288 m.kr. á fyrra ári. 

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 3.867
m.kr. á árinu en voru 2.927 m.kr. árið 2012. 



Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar námu 58.698 milljónum króna 31. des 2013 og minnkuðu
eignir um 18.597 ma.kr. sem að mestu skýrist af virðisrýrnun óefnislegra eigna.
Vaxtaberandi skuldir voru 26.711 m.kr.um áramót en voru 62.058 m.kr. árið áður. 

Eigið fé félagsins nam 26.433 m.kr. í lok árs 2013 og eiginfjárhlutfall var
45,0 %. Eigið fé félagsins nam 7.893 m.kr. í lok árs 2012 og var
eiginfjárhlutfall þá 10,2%. 





Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri, sími 550-6003.

Pétur Þ. Óskarsson, yfirmaður samskipta Símans, sími 863-6075.



Um Skipti hf.

Skipti hefur undanfarin ár rekið fyrirtæki sem starfa einkum á sviði fjarskipta
og upplýsingatækni, á Íslandi og erlendis. Hinn 12. febrúar 2014 var tilkynnt
að stjórnir Skipta og Símans hefðu ákveðið að sameina rekstur félaganna með
fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi sameiningin eftir munu Míla
ehf. og Skjárinn ehf. sem áður voru í eigu Skipta verða að fullu í eigu Símans
hf. Við sameininguna yrði til öflugt rekstrarfélag með starfsemi í fjarskiptum,
upplýsingatækni og afþreyingu. 

Á Íslandi starfar Síminn og dótturfélög bæði á einstaklings- og
fyrirtækjamarkaði. Síminn er leiðandi  fjarskiptafyrirtæki á Íslandi og önnur
fyrirtæki eru meðal annars Míla, sem á og rekur fjarskiptakerfi og Skjárinn,
sem rekur sjónvarpsþjónustu. Utan Íslands eru Skipti með rekstur í Danmörku þar
sem fyrirtækið á Síminn DK. Þá starfar fyrirtækið On Waves alfarið utan
Íslands.

Skipti 31 12 2013.pdf