2010-06-25 18:21:28 CEST

2010-06-25 18:22:29 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Kópavogsbær - Fyrirtækjafréttir

Kópavogsbær fær einkunnina B með jákvæðum horfum


Íslenska lánshæfismatsfyrirtækið Reitun ehf. birti í dag lánshæfismat
Kópavogsbæjar.  Kópavogsbær fær einkunnina B með jákvæðum horfum.  Í matinu
segir að Kópavogur sé eitt öflugasta sveitarfélag landsins. Staða sveitarfélaga
hafi hins vegar almennt versnað í efnahagskreppunni og Kópavogur sé þar ekki
undanskilinn. 

Einkunnagjöf Reitunar er lítillega frábrugðin þeirri aðferðafræði sem almennt
þekkist. Ríkissjóður myndar grunn að einkunn til viðmiðunar við útgefendur.
Einkunnaflokkar eru A,B,C og D. Undirflokkar eru +,0,-.  Samtals eru 12
flokkar. Til viðbótar er tilgreint hvort horfur séu jákvæðar, stöðugar eða
neikvæðar. 

Í mati Reitunar um Kópavogsbæ segir: „Niðurstaða mats er einkunnin B með
jákvæðum horfum. Mikil aukning í skuldastöðu í kjölfar efnahagshrunsins er
megin ástæða þessarar einkunnar. Góðar horfur eru á hratt batnandi skuldastöðu
í kjölfar bata í innlendum efnahagsmálum. Ef það gerist, og ef áætlanir
sveitarfélagsins ganga eftir, batnar matseinkunn.“ 

Kópavogsbær gerði samning við Reitun í vor um greiningu og mat á lánshæfi
sveitarfélagsins gagnvart fjárfestum á skuldabréfamarkaði. Er Kópavogur fyrsta
og eina sveitarfélagið sem hefur gert slíkan samning. Markmiðið er að gera
fjárfestum kleift að fá álit óháðra aðila á fjármálum bæjarins. Reitun er
dótturfélag IFS Greiningar og var stofnað fyrr á þessu ári. 

Kópavogur er næststærsta sveitarfélag landsins. Mikil uppbygging hefur átt sér
þar stað á undanförnum árum og íbúum hefur fjölgað ört.  Frá áramótum hefur
þeim fjölgað um  tæplega hundrað og eru þeir um 30.400. Guðrún Pálsdóttir tók
við sem bæjarstjóri í júní en hún hefur starfað hjá bænum frá árinu 1986.
Lengst af sem fjármála- og hagsýslustjóri. 

Nánari upplýsingar veitir: Arna Schram, forstöðumaður almannatengsla
Kópavogsbæjar, í síma: 696 0663.