2015-02-04 18:28:12 CET

2015-02-04 18:29:15 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Ársreikningur

Marel kynnir afkomu ársins 2014- Markviss markaðssókn samhliða einföldun rekstrar


(Allar upphæðir í evrum)

4F 2014 -  Söluhæsti  fjórðungur frá upphafi og sterkt sjóðstreymi

  --  Tekjur á fjórða ársfjórðungi 2014 námu 200,0 milljónum evra [4F 2013:
     168,2m].
  --  Leiðrétt EBITDA*  á fjórða ársfjórðungi var 28,1 milljónir evra sem er
     14,1% af tekjum. EBITDA var 21,0 milljónir evra sem er 10,5% af tekjum [4F
     2013: 14,1m].
  --  Leiðréttur rekstrarhagnaður* (adj. EBIT) á fjórða ársfjórðungi var 16,1
     milljónir evra, sem er 8,0% af tekjum. EBIT var 8,5 milljón evra sem er
     4,2% af tekjum [4F 2013: 7,4m].
  --  Hagnaður fjórða ársfjórðungs 2014 nam 3,0 milljónum evra [4F 2013: 3,7m].
     Hagnaður á hlut var 0,41 evru sent [4F 2013: 0,50 evru sent á hlut].
  --   Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 32,7 milljónum
     evra á fjórða ársfjórðungi 2014 [4F 2013: 34,7 milljónir evra]. Nettó
     vaxtaberandi skuldir í lok fjórðungsins námu  174,3 milljónum evra [4F
     2013: 217,1 milljónir evra].

2014 - Markviss markaðssókn samhliða einföldun rekstrar

  --  Tekjur ársins 2014 námu 712,6 milljónum evra og hækkuðu um 7,7% frá fyrra
     ári. [2013: 661,5m].
  --  Leiðrétt  EBITDA* var 83,7 milljónir evra sem er 11,7% af tekjum. EBITDA
     var 66,7 milljónir evra sem er 9,4% of tekjum [2013: 69,4m].
  --  Leiðréttur rekstrarhagnaður * (e. adj.EBIT)  árið 2014 var 48,8 milljónir
     evra sem er 6,8% af tekjum. EBIT var 29,2 milljónir evra sem er 4,1% af
     tekjum [2013: 42,9m].
  --  Hagnaður ársins 2014 nam 11,7 milljónum evra  [2013: 20,6m]. Hagnaður er
     litaður af einskiptiskostnaði í tengslum við hagræðingu í  rekstri á árinu
     2014. Hagnaður á hlut nam 1,60 evru sent  [2013: 2,81 evru sent].
  --  Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 102,2 milljónum
     evra  [2013: 80,3m]. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok ársins námu  174,3
     milljónum evra  [2013: 217,1m].

Marel náði 7,7% tekjuvexti á árinu og leiðréttur rekstrarhagnaður nam 48,8
milljónum evra sem er í takti við áætlun félagsins fyrir tímabilið.
Pantanabókin stendur í 175 milljónum við upphaf ársins samanborið við 132
milljónir evra í upphafi ársins 2014. Marel gerir ráð fyrir áframhaldandi innri
vexti 2015 og góðri aukningu í  rekstrarhagnaði og afkomu eftir skatt.
Megináherslan er sem fyrr, á aukna skilvirkni í markaðssókn og rekstri með það
að markmiði að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði yfir 100 milljónum evra. 

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:"Fjórði ársfjórðungur var góður fyrir Marel  með metveltu og sölu.  Í
fjórðungnum jókst sala um 19% og nýjar pantanir um 27% frá sama tímabili fyrra
árs. 

Árið 2014 var ár framfara og breytinga hjá Marel.  Árið fór rólega af stað en
með vorinu varð sjáanlegur viðsnúningur með markvissri markaðssókn samhliða
aukinni skilvirkni í rekstri. Gott jafnvægi er á milli uppbyggingaverkefna
fyrir viðskiptavini, (e. Greenfield) endurnýjunarverkefna og viðhaldsverkefna
og þá er landfræðileg dreifing verkefna góð. Það er meðbyr á mörkuðum,
sérstaklega í Norður-Ameríku sem nær að vega á móti umróti í Austur- Evrópu og
öðrum löndum sem reiða sig á hrávöru. 

Áætlun okkar um einfaldara og skilvirkara Marel, nær til tveggja ára og nú
hefst síðari hluti þeirrar vegferðar.  Hagræðing rekstrar er á áætlun og 
samhliða erum við einnig að fjárfesta í vexti til framtíðar í gegnum nýsköpun
og fjárfestingu í innviðum sem munu styðja við félagið til framtíðar.  Við erum
á réttri leið eins og bætt rekstarafkoma á síðari hluta ársins 2014 sýnir og
við erum bjartsýn í upphafi árs 2015. Staða pantana er góð, markviss skref til
lækkunar á kostnaðargrunni hafa verið tekin og við stefnum á góðan innri vöxt
og aukinn hagnað á árinu 2015 samanborið við fyrra ár.“ 

Einfaldara og skilvirkara Marel

Áætlun um einfaldara og skilvirkara Marel er tveggja ára hagræðingarverkefni
sem hófst í ársbyrjun 2014. Verkefnið gengur samkvæmt áætlun og stefnt er að
því að þjónusta viðskiptavini betur og auka arðsemi félagsins með það að
markmiði að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði yfir 100 milljónum evra. 

Markmiðið er að mæta þörfum viðskiptavina með skilvirkari hætti og lækka
árlegan kostnaðargrunn félagsins um 25 milljónir evra. Áætlaður
heildarkostnaður til greiðslu vegna hagræðingaraðgerða er 25 milljónir evra á
tímabilinu 2014-2015 en kostnaður í rekstrarreikningi  getur ekki verið að
fullu metin á þessum tímapunkti. Á árinu 2014 var ráðist  í aðgerðir sem gert
er ráð fyrir að muni lækka árlegan kostnaðargrunn félagsins um 14 milljónir
evra.  Einskiptiskostnaður til greiðslu nemur 14 milljónum evra.
Heildareinskiptiskostnaður í rekstrarreikningi  á sama tímabili nemur 19,6
milljónum evra og er mismunurinn m.a. tilkomin vegna endurmats eigna.
Einskiptiskostnaður vegna aðgerða í fjórða ársfjórðungi nam 7,6 milljónum evra
þar af eru 6,5 milljónir evra til greiðslu. 

Marel er að hagræða í rekstri félagsins og hámarka framleiðslukerfi sitt
samhliða því sem verið er að fjárfesta í framtíðarvexti í gegnum nýsköpun og
fjárfestingu í innviðum. Samhliða því að auka skilvirkni í rekstri hefur Marel
tekist að skerpa á markaðssókn sem hefur skilað aukinni sölu með sterku
sjóðstreymi sem hefur skilað sér í að vaxtaberandi skuldir/EBITDA  stóðu í 2,08
í árslok 2014 borið saman við 3,13 í árslok 2013. 

Til viðbótar við einskiptiskostnað í tengslum við hagræðingarverkefnið
einfaldara og skilvirkara Marel er einskiptiskostnaður í tengslum við sölu-,
stjórnunar- og nýsköpunarkostnað. 

Aðgerðir til hagræðingar í rekstri 2014:

• Breytingar á skipulagi kjötiðnaðar þar sem þrjár einingar voru sameinaðar sem
skilar betri nýtingu í  nýsköpunar- og sölustarfsemi félagsins. 
• Flutningur á starfsemi í laxaiðnaði frá Norresundsby til Stovring í Danmörku.
Flutningnum var að fullu lokið í öðrum ársfjórðungi 2014 og frá og með þriðja
ársfjórðungi hefur starfsemi Marel í laxaiðnaði verið rekinn með auknum
afköstum og skilvirkni. 
• Endurskipulagning á starfsemi Marel í Hollandi og flutningur á starfsemi frá
Oss til Boxmeer. Aðgerðinni var að fullu lokið fyrir árslok 2014 og mun auka
skilvirkni í nýsköpun og sölu til framtíðar. 
• Lokun á framleiðslueiningu Marel  í Singapore. Einingunni verður að fullu
lokað fyrir mitt ár 2015. Marel mun í samstarfi við leiðandi framleiðendur
bjóða áfram frysta í vörulínum sínum. 
• Hagræðing á starfsemi Marel í fullvinnslu.

Hagræðingaraðgerðum verður haldið áfram á árinu. Í janúar tilkynnti Marel að 
framleiðslustarfsemi félagsins í Des Moines, Iowa verður sameinuð starfseiningu
félagsins í Gainesville, Georgíu. Markmiðið með þessum fyrirhuguðu breytingum
er samþætting í rekstri starfseininganna sem mun styrkja samkeppnisstöðu
félagsins. Aðgerðin er til samræmis við þá stefnu félagsins að hámarka
framleiðslukerfið og auka áherslu á stærri einingar þar sem mismunandi iðnaðir
koma saman undir einu þaki. Flutningar á framleiðslustarfsemi frá Des Moines
til Gainesville hófust  í janúar 2015 og verður þeim að fullu lokið fyrir
árslok 2015. 


Fastráðnir starfsmenn eru  3.800 í árslok 2014 samanborið við 4.000 í
ársbyrjun. Til þess að vega á móti sveiflum í eftirspurn eru tímabundnir
starfsmenn ráðnir og var fjöldi þeirra 250 við árslok samanborið við 130 í
ársbyrjun. Þetta endurspeglar aukna sölu og góða stöðu pantanabókar. Lokun á
framleiðslueiningu í Singapore og samþætting rekstrar í Bandaríkjunum munu hafa
í för með sér frekari fækkun starfsmanna eins og áður hefur verið tilkynnt. 


Tillaga um arðgreiðslu
Á aðalfundi ársins 2015, sem haldinn verður 4. mars næstkomandi, mun stjórn
Marel leggja til að hluthafar fái greidd 0,48 evru sent í arð á hlut fyrir
rekstrarárið 2014. Miðað við fjölda útistandandi hluta nú nemur fyrirhuguð
heildararðgreiðsla um 3,5 milljónum evra, sem samsvarar um 30% af nettó hagnaði
ársins. Arðgreiðslutillaga þessi er í samræmi við markmið um fjármagnsskipan og
arðgreiðslustefnu félagsins. 

Verði tillagan samþykkt af hluthöfum félagsins, munu hlutabréf sem skipta um
hendur frá og með 5. mars 2015 (e. ex-date = arðleysisdagur) verða án
arðsréttinda og réttur hluthafa til arðgreiðslu verður miðaður við hlutaskrá
félagsins í lok viðskipta hinn 6. mars 2015 sem yrði arðsréttindadagur (e.
record date). Stjórn Marel leggur til að arður verði greiddur út hinn 27. mars
2015 (e. payment date). 

Horfur
Byggt á góðri stöðu pantana við upphaf ársins 2015 og meðbyr á mörkuðum gerir
Marel gerir ráð fyrir áframhaldandi innri vexti 2015 og góðri aukningu í 
rekstrarhagnaði og afkomu eftir skatt. Megináherslan er sem fyrr, á aukna
skilvirkni í markaðssókn og rekstri með það að markmiði að rekstrarhagnaður
ársins 2017 verði yfir 100 milljónum evra. 

Til meðal og lengri tíma litið, telur Marel að nýsköpun og sterk markaðsstaða
um allan heim í öllum iðnuðum félagsins muni skila góðum vexti og aukinni
arðsemi.  Framtíðarhorfur eru góðar og gert er ráð fyrir því að markaðsvöxtur
nemi 4-6%  á næstu árum. Markmið Marel er að halda áfram að vaxa hraðar en
markaðurinn. 

Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga
vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningar stærri
verkefna. 

Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi tekur aðeins til helstu þátta
uppgjörsins en uppgjörstilkynning í fullri lengd á ensku er aðgengileg á
heimasíðu Marel: www.marel.com/2014Q4 
Þar er m.a. að finna lykiltölur og yfirlit yfir markaði félagsins.

Kynningarfundur 5. febrúar 2015

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 5. febrúar kl.
8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabæ. Fundinum verður einnig
netvarpað: www.marel.com/webcast.