2016-05-26 20:33:30 CEST

2016-05-26 20:33:30 CEST


BIRTINGARSKYLDAR UPPLÝSNINGAR

Íslenska Enska
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

EIMSKIP: EBITDA jókst um 66,5% á fyrsta ársfjórðungi 2016


Afkomuspá fyrir 2016 hækkuð í 49 til 53 milljónir evra


  -- Rekstrartekjur námu 113,3 milljónum evra, jukust um 0,6 milljónir evra frá
     Q1 2015
  -- EBITDA nam 9,6 milljónum evra samanborið við 5,8 milljónir evra og jókst um
     66,5%
  -- Hagnaður nam 1,8 milljónum evra samanborið við 1,5 milljónir evra og jókst
     um 21,1%
  -- Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 8,1% frá Q1
     2015
  -- Flutningsmagn í flutningsmiðlun jókst um 5,9% frá Q1 2015
  -- Eiginfjárhlutfall var 59,9% og nettóskuldir námu 33,4 milljónum evra í lok
     mars
  -- Afkomuspá ársins 2016 hefur verið hækkuð í 49 til 53 milljónir evra

GYLFI SIGFÚSSON FORSTJÓRI

„Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, nam 9,6 milljónum evra á fyrsta
ársfjórðungi 2016 og jókst um 66,5% samanborið við sama tímabil í fyrra.
Rekstrartekjur fjórðungsins voru 113,3 milljónir evra og jukust um 0,5%, en
lækkandi verð í alþjóðlegri flutningsmiðlun drógu úr tekjuvexti. Félagið hefur
ráðist í aðgerðir á undanförnum mánuðum og hefur breytt siglingakerfinu til að
mæta betur erfiðum aðstæðum yfir vetrarmánuðina. Vegna hagræðingarverkefna og
aukins kostnaðaraðhalds dróst rekstrarkostnaður að frátöldum launakostnaði
saman á fjórðungnum. Rekstrargjöld að meðtöldum launakostnaði lækkuðu um 3,0%,
sem er góður árangur í ljósi mikilla kostnaðarhækkana vegna kjarasamninga á
Íslandi. Hagnaður tímabilsins nam 1,8 milljónum evra og jókst um 21,1%
samanborið við fyrsta ársfjórðung 2015, þrátt fyrir 3,7 milljóna evra neikvæðan
viðsnúning á gengismun. Handbært fé frá rekstri nam 12,7 milljónum evra á
fjórðungnum samanborið við 3,1 milljón evra á sama tímabili í fyrra og nam
handbært fé 47,3 milljónum evra í lok mars. Þetta er besti fyrsti ársfjórðungur
í rekstri félagsins frá árinu 2009, en fyrsti ársfjórðungur er sá fjórðungur
sem að jafnaði skilar lægstri rekstrarafkomu hjá félaginu. 

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 8,1%
frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Góður vöxtur var í flutningum tengdum
Íslandi, Færeyjum og Noregi og sérstaklega góður í Noregi í samanburði við
erfiðan fyrsta fjórðung í fyrra. Við munum hér eftir kynna í okkar uppgjörum
breytingar á heildarflutningsmagni í flutningsmiðlun, bæði hvað varðar
frystiflutningsmiðlun og almenna flutningsmiðlun, sem jókst um 5,9% frá sama
tímabili í fyrra. 

Eimskip og grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line hafa undirritað
viljayfirlýsingu um að tengja Grænland við alþjóðlegt siglingakerfi Eimskips.
Félögin ráðgera að fjárfesta í og reka þrjú um það bil 2.000 gámaeininga skip
sem verða hönnuð og smíðuð fyrir sérstakar aðstæður á Norður-Atlantshafi og
munu þau tengja flutningakerfi Grænlands og Íslands við Skandinavíu, Evrópu og
Norður-Ameríku. Nýju skipin verða hagkvæmari og umhverfisvænni í rekstri. Þetta
verður þýðingarmikið samstarf sem skapa mun kostnaðarhagræði, auka afkastagetu
og er skref í átt til framtíðar í endurnýjunaráætlun skipa Eimskips. Áætlað er
að það taki tvö til þrjú ár að hanna og smíða skipin. 

Eimskip heldur áfram að meta möguleg fjárfestingartækifæri til vaxtar. Félagið
nýtir sér sterka fjárhagsstöðu sína nú þegar samþætting í greininni heldur
áfram. Við erum komin langt í  fyrirtækjakaupum erlendis og gerum ráð fyrir að
þeim verði lokið á þriðja ársfjórðungi. 

Annar ársfjórðungur lofar góðu samanborið við síðasta ár. Afkomuspá fyrir árið
2016 hefur verið hækkuð og er nú á bilinu 49 til 53 milljónir evra í stað þess
að vera á bilinu 46 til 50 milljónir evra eins og kynnt var í febrúar
síðastliðnum. Áætluð afkoma tengd nýjum fjárfestingum í fyrirtækjum og innviðum
og kostnaður því tengdur eru ekki talin með í afkomuspá ársins.“ 

FREKARI UPPLÝSINGAR

  -- Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs,
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is