2015-05-28 20:58:08 CEST

2015-05-28 20:59:10 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reitir fasteignafélag hf. - Ársreikningur

Rekstrarhagnaður Reita 1.514 milljónir fyrstu þrjá mánuði ársins 2015


Stjórn Reita fasteignafélags hf. og forstjóri hafa samþykkt árshlutareikning
félagsins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2015. 

  -- Leigutekjur félagsins námu 2.112 millj. kr. (2014: 2.068 millj. kr.)
  -- Vöxtur tekna frá fyrra ári var 2,1%
  -- Rekstrarhagnaður (NOI) tímabilsins var 1.514 millj. kr. (2014: 1.526 millj.
     kr.)1
  -- Matsbreyting fjárfestingareigna nam 274 millj. kr. (2014: 161 millj. kr.)
  -- Hagnaður tímabilsins var 834 millj. kr. (2014: 563 millj. kr.)
  -- Virði fjárfestingareigna jókst um 447 millj. kr. á tímabilinu og var
     101.457 millj. kr. samanborið við 101.010 millj. kr. í lok árs 2014.
  -- Eigið fé í lok tímabilsins var 40.973 millj. kr. (2014: 39.948  millj. kr.)
  -- Eiginfjárhlutfall var 39,7%. (2014: 39,1%)
  -- Vaxtaberandi skuldir í árslok námu 54.803 millj. kr. (2014: 55.204 millj.
     kr.)

Guðjón Auðunsson, forstjóri:
„Árshlutareikningur félagsins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins lýsir áfram þeim
mikla stöðugleika sem félagið býr við. Þetta er í fyrsta sinn sem Reitir birta
opinberlega árshlutareikning og er það mat stjórnenda að afkoma fjórðungsins
hafi verið í takti við væntingar þeirra og í samræmi við þær áætlanir sem
gerðar höfðu verið. 

Starfsemi félagsins á fjórðungnum einkenndist fyrst og fremst af
undirbúningsvinnu fyrir skráningu félagsins í kauphöll. Litlar breytingar voru
á eignasafninu á fjórðungnum, verðbólga er lág og fjármögnun félagsins hafði
áður verið komið í gott horf. Hagnaður eftir skatta fyrstu þrjá mánuði ársins
2015 nam 834 millj. kr. samanborið við 563 millj. kr. á sama tímabili árið
2014. Arðsemi eigin fjár af starfsemi félagsins á fyrsta ársfjórðungi nemur
8,9% á ársgrundvelli. 

Helstu tíðindi af félaginu undanfarna mánuði hafa verið úr ytra umhverfi þess
þar sem sala tveggja viðskiptabanka á stórum eignarhlutum í félaginu og
skráning félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland þann 9. apríl bera hæst. Í
upphafi annars ársfjórðungs keypti félagið fasteignina Ármúla 9, sem hýsir
Hótel Ísland, fyrir tæpa 3,7 milljarða króna. 

Ný stjórn tók til starfa eftir aðalfund félagsins þann 30. apríl síðastliðinn
og hefur þegar ýtt úr vör nýjum verkefnum varðandi endurkaup á eigin bréfum og
undirbúning fyrir sölu á skuldabréfum á markaði sem félagið kynnir nú samhliða
árshlutareikningnum.“ 

Rekstrarafkoma fjórðungsins

Leigutekjur fjórðungsins námu 2.112 millj.kr. samanborið við 2.068 millj. kr. á
sama tímabili árið áður. Góð fylgni leigutekna við verðlag heldur áfram en að
auki skýra eignir sem keyptar voru á síðasta ári stærstan hluta af breytingu á
milli ára. 

Rekstarkostnaður fjárfestingareigna nam 492 millj. kr. samanborið við 440
millj. kr. á sama tímabili árið 2014. Tímasetning viðhalds og endurbóta milli
ára og breytingar í fasteignagjöldum skýra nær alla breytingu á milli ára.
Stjórnunarkostnaður félagsins jókst lítillega milli ára og nam 106 millj. kr.
samanborið við 102 millj. kr. árið áður. Á fjórðungnum er gjaldfærður 87 millj.
kr. kostnaður sem tengist skráningu hlutabréfa félagsins og skuldabréfaflokks
þess í kauphöll sem kláraðist í byrjun aprílmánaðar. 

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, fjármagnsliði og kostnað við skráningu
var 1.514 millj. kr. samanborið við 1.526. millj. kr. árið áður. Fjárfestingareignir og fjármögnun

Líkt og í ársreikningi félagsins eru fjárfestingareignir þess metnar á
gangvirði samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Við mat á
fjárfestingareignum er notuð sama aðferðarfræði og í ársreikningi félagsins.
Matið tekur mið af nýlegum breytingum á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa
sem lækkar veginn meðalkostnað fjármagns (WACC) lítillega. Hækkun á mati
fjárfestingareigna nam 274 millj. kr. samanborið við 161 millj. kr. á sama
tímabili árið áður. Á fjórðungnum fjárfesti félagið í fjárfestingareignum fyrir
192 millj. kr. en stærstur hluti þess fjármagns fór í fjárfestingu í núverandi
eignasafni félagsins. 

Breytt fjármagnsskipan félagsins hefur gjörbreytt fjármagnsgjöldum þess en
fjármagnsgjöld fjórðungsins námu 691 millj. kr. samanborið við 1.297 millj. kr.
fyrir sama tímabil árið áður. Meðalkjör af verðtryggðri fjármögnun félagsins
eru um 4%. Litlar breytingar voru á samsetningu skulda félagsins á fjórðungnum
og námu vaxtaberandi skuldir 54.803 millj. kr. í lok fjórðungsins samanborið
við 55.204 í lok árs 2014. 

Endurkaupaáætlun

Stefna félagsins er að greiða hluthöfum stöðugan og vaxandi árlegan arð. Stefnt
er að því að skila a.m.k. 1/3 af rekstrarhagnaði hvers árs til hluthafa, annað
hvort í formi arðgreiðslna eða með kaupum á eigin bréfum. 

Stjórn Reita hefur á grundvelli samþykktar aðalfundar félagsins tekið ákvörðun
um framkvæmd endurkaupaáætlunar um kaup á eigin bréfum og er markmið
áætlunarinnar að lækka útgefið hlutafé félagsins. Áætlað er að kaupa allt að 34
milljónum hluta sem jafngildir 4,51% af útgefnu hlutafé, þó þannig að fjárhæð
endurkaupanna verði aldrei meiri en 2.300 millj. kr. Áætlunin verður í gildi
til 29. febrúar 2016. 

Endurkaupaáætlunin verður framkvæmd af Arctica Finance hf. sem tekur allar
viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð
félaginu. Viðskipti með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina verða
tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara
fram. 

Áætlun um útgáfu skuldabréfa

Stjórn félagsins hefur samþykkt að stefna að útgáfu og sölu skuldabréfa til
fjárfesta fyrir allt að 10.000 millj. kr. næstu 10 mánuði. Andvirði sölu
skuldabréfa er hugsað til þess að endurfjármagna núverandi skuldir félagsins og
/ eða til fjárfestinga. Fyrirhugað er að selja skuldabréf í REITIR151244 en
einnig að skoða hagkvæmni í því að gefa út verðtryggðan skuldabréfaflokk með
styttri líftíma. Á næstu vikum mun félagið ráða sér ráðgjafa til þess að sjá um
sölu og skráningu þessara skuldabréfa og ákveða nánari tímasetningar í samráði
við þá ráðgjafa. 

Horfur fyrir árið 2015

Stjórnendur hafa uppfært áætlanir sínar fyrir árið 2015 miðað við þær
breytingar sem orðið hafa á eignasafninu síðustu mánuði. Enn um sinn er
verðbólga í takti við þær áætlanir sem félagið hefur gert en möguleg áhrif
kjarasamninga á verðlagsþróun til lengri tíma vekja ugg. 

Ný útleiga á fyrri árshelmingi hefur verið í takti við áætlanir félagsins en
óvissa á vinnumarkaði hefur dregið kraft úr spurn eftir atvinnuhúsnæði og gerir
uppfærð áætlun ráð fyrir að nýtingarhlutfall ársins 2015 verði í takti við
nýtingu ársins 2014. 

Áætlað er að rekstrartekjur verði á bilinu 8.850 til 8.950 millj. kr. og að
rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og fjármagnsliði verði á bilinu 6.250 til
6.350 millj. kr. Hækkun frá fyrri áætlun má að stærstum hluta rekja til áhrifa
af kaupum félagsins á Hótel Íslandi. 

Kynningarfundur

Reitir bjóða fjárfestum og markaðsaðilum á opinn fund þar sem Guðjón Auðunsson,
forstjóri, og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, munu kynna uppgjör
fjórðungsins. Fundurinn verður haldinn föstudaginn 29. maí kl. 8:30 á Iðu, í
Zimsenhúsinu að Vesturgötu 2a, 101 Reykjavík. Kynningarefni fundarins er
aðgengilegt á fjárfestasíðu Reita, www.reitir.is/fjarfestar. 

Frekari upplýsingar

Nánari upplýsingar veita Guðjón Auðunsson, forstjóri, í síma 575 9000 eða 660
3320 og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, í síma 575 9000 eða 669 4416. 

Um Reiti

Reitir sérhæfa sig í þjónustu og rekstri atvinnuhúsnæðis með áherslu á
verslunarhúsnæði, skrifstofuhúsnæði og hótelbyggingar á höfuðborgarsvæðinu.
Heildareignir Reita í lok fyrsta ársfjórðungs 2015 námu 103 milljörðum króna.
Fasteignir í eigu félagsins eru um 130 talsins og um 420 þúsund fermetrar að
stærð. Meðal þeirra má nefna stærstan hluta Kringlunnar, Hilton Reykjavík
Nordica, Icelandair hótel Reykjavík Natura, Kauphallarhúsið og nokkrar af
perlum íslenskrar byggingarsögu í miðbæ Reykjavíkur. Stærstu leigutakar Reita
eru Hagar, Flugleiðahótel, ríki og sveitarfélög samtals með tæpan helming tekna
félagsins.