2013-03-26 15:52:53 CET

2013-03-26 15:53:55 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Skipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Sátt við Samkeppniseftirlit


Skipti hf. og Samkeppniseftirlitið hafa gert með sér sátt um að ljúka í einu
lagi  málum sem verið hafa til athugunar Samkeppniseftirlitsins og varða
Símann. Sáttin hefur það að markmiði að tryggja jafnan aðgang að grunnkerfum
fjarskipta á Íslandi. Elstu málin eiga rætur að rekja til ákvarðana sem teknar
voru þegar Síminn var enn ríkisfyrirtæki. Skipti hf. eiga meðal annars Símann
og Mílu. 

Viðræður hófust að frumkvæði Símans og kom Skipti fljótlega að viðræðunum. Þeim
lyktaði með sátt um breytta verkaskiptingu, breyttar verklagsreglur og aðgerðir
af ýmsu tagi sem gripið verður til innan Skiptasamstæðunnar sem ætlað er að
auka samkeppni, jafnræði, gegnsæi og trúverðugleika á fjarskiptamarkaði. 

Liður í sáttinni er að Skipti fallast á að greiða 300 milljóna króna
stjórnvaldssekt. Félögin láta jafnframt niður falla ágreiningsmál sem þau höfðu
áður ákveðið að áfrýja til dómstóla. 

Skipti og dótturfélögin líta á sáttina sem kaflaskil og með henni er lýst yfir
eindregnum vilja til að starfsemin sé í fullri sátt við umhverfið. Félögin munu
starfa náið með Samkeppniseftirlitinu við að hrinda í framkvæmd þeim breytingum
og aðgerðum sem sáttin kveður á um. 

Skipti munu tryggja fullan aðskilnað fjarskiptaneta samstæðunnar frá annarri
starfsemi hennar auk þess sem mikilvægar heildsöluafurðir, sem áður voru í boði
hjá Símanum, færast til Mílu. Slíkt fyrirkomulag er líkt því sem gerist í
grannlöndum, til dæmis í Svíþjóð og Bretlandi. Samkeppnisréttaráætlun hefur
þegar verið innleidd hjá Skiptum og dótturfélögum sem starfa á
fjarskiptamarkaði. Einnig hefur verið innleitt viðamikið aðgangsstýringarkerfi
sem tryggir að upplýsingar berist ekki milli heildsölu og smásölu. 

Stjórnsýsla og rekstur Mílu verða aðskilin móður- og systurfélögum og
viðskiptastefna félagsins mótuð með sjálfstæðum hætti. 

Breytingar hjá Símanum eru þær helstar að enn frekar verður skerpt á skilum og
verkferlum heildsölu annars vegar og smásölu hins vegar. 

Tryggt skal að heildsala Símans veiti keppinautum hliðstæða þjónustu og smásölu
Símans og að allir þessir viðskiptavinir fái sömu upplýsingar á sama tíma um
nýjar og fyrirhugaðar vörur og þjónustu. 



Nánari upplýsingar:

Pétur Þorsteinn Óskarsson,

s. 8636075.



Eftirlitsnefnd verður skipuð um jafnan aðgang fjarskiptafyrirtækja að kerfum,
tæknilausnum og þjónustu heildsölu Mílu  og heildsölu Símans.