2010-11-19 16:46:01 CET

2010-11-19 16:46:59 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Orkuveita Reykjavíkur - Ársreikningur

Afkoma Orkuveitu Reykjavíkur batnar


Hækkun á gengi íslensku krónunnar og lækkandi fjármagnskostnaður tryggði að
rekstur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) skilaði 16,8 milljarða króna hagnaði fyrstu
níu mánuði ársins. Heildarskuldir eru talsverðar, eða 229 milljarðar króna, en
hafa lækkað um 12,3 milljarða frá áramótum. Heildareignir eru 286 milljarðar
króna og eiginfjárhlutfall fyrirtækisins því 20,1%. Árshlutareikningur samstæðu
OR var samþykktur á stjórnarfundi í dag. 

Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst um 11,5% það sem af er ári. Greiddir
vextir fyrstu níu mánuði ársins námu 1,5 milljörðum króna. Samsvarandi fjárhæð
2009 var 4,1 milljarður króna. Vaxtakostnaður lækkar því á milli ára um tvo
þriðju, eða 2,6 milljarða. Ástæðan er að á árinu 2009 þurfti OR að leita á
íslenskan lánamarkað, þar sem vextir eru meira en tífaldir meðalvextir erlendra
lána OR, sem eru nú 1,01%. 
Rekstrarhagnaður OR fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, fyrstu
níu mánuði ársins 2010 var 9,9 milljarðar króna. Hagnaður fyrir skatta nam 22,4
milljörðum. Reiknaðir skattar eru 5,6 milljarðar og afkoma tímabilsins því
jákvæð sem nemur 16,8 milljörðum króna. 

Árshlutareikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Helgi Þór Ingason, forstjóri OR:

„Þessi afkomubati er mjög jákvæður og við vinnum að því að framhald verði á.
Ennþá byggist hinn bókhaldslegi hagnaður að mestu leyti á hagstæðum ytri
skilyrðum eins og hækkuðu gengi krónunnar og hærra álverði. Þær margháttuðu
aðgerðir, sem ákveðnar voru síðsumars og ráðist í á haustmánuðum - hagræðing í
rekstri og tekjur auknar - eiga enn eftir að skila sér í uppgjörum
fyrirtækisins. Ég leyfi mér að vona að reksturinn sé með þeim að öðlast þá
tiltrú sem þarf til að hagkvæm fjármögnun fáist. Afkomubatinn er enn
bókhaldslegur að mestu leyti og við vinnum þétt með eigendum fyrirtækisins og
íslenskum og erlendum fjármálafyrirtækjum til að tryggja greiðslugetu OR á
næsta ári. Það er enn brýnasta viðfangsefni í rekstri OR.“ 


Helstu niðurstöður tímabilsins 1.1. til 30.9. 2010

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur var með 16.794 milljóna króna hagnaði fyrstu níu
mánuði ársins 2010 samanborið við 11.288 milljóna króna tap á sama tímabili
2009. 
Rekstrartekjur tímabilsins námu 19.444 milljónum króna en voru 17.960 milljónir
króna sama tímabil árið áður. 
Hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, var
9.886 milljónir króna samanborið við 8.526 milljónir króna sama tímabil árið
áður. 
Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 18.395 milljónir króna á tímabilinu, en voru
neikvæðir um 15.173 milljónir á sama tímabili árið 2009. 
Heildareignir þann 30. september 2010 voru 286.030 milljónir króna en voru
281.526 milljónir króna 31. desember 2009. 
Eigið fé þann 30. september 2010 var 57.446 milljónir króna en var 40.657
milljónir króna 31. desember 2009. 
Heildarskuldir fyrirtækisins þann 30. September 2010 voru 228.583 milljónir
króna en voru 240.868 milljónir króna í árslok 2009. 
Eiginfjárhlutfall var 20,1% þann 30. september 2010 en var 14,4% í árslok 2009.

Ýmis mál og horfur
Stjórn OR hefur treyst tekjustraum fyrirtækisins með hækkun gjaldskráa og
mörkun gjaldskrárstefnu ásamt markmiðssetningu um hagræðingu í rekstri.
Ávinnings þessa gætir að nokkru í uppgjörinu en mun sjá verulega stað á síðasta
ársfjórðungi 2010 og styrkja sjóðsflæði fyrirtækisins og greiðslugetu. 

Áfram er unnið að stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Áformað er að taka 4. áfanga
hennar, framleiðslu á heitu vatni, í notkun undir lok yfirstandandi árs og 5.
áfanga virkjunarinnar, framleiðslu á 90 MW rafafls, síðla árs 2011. Samið hefur
verið við Evrópska fjárfestingabankann um fjármögnun helmings 5. áfanga
Hellisheiðarvirkjunar. Viðræður um frekari fjármögnun fyrirtækisins standa
yfir. 

Nánari upplýsingar veitir Helgi Þór Ingason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í
síma 516-6000.