2016-12-01 10:23:58 CET

2016-12-01 10:23:58 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Skeljungur hf. - Fyrirtækjafréttir

Skeljungur hf.: Niðurstöður útboðs á hlutabréfum í Skeljungi


Umframeftirspurn í útboði á hlutabréfum í Skeljungi

31,5% hlutur í Skeljungi seldur á genginu 6,9 kr./hlut

  * Söluandvirði nemur 4,6 milljörðum króna
  * Um 2.500 fjárfestar tóku þátt í útboðinu
  * Heildareftirspurn yfir 12 milljarðar
  * Markaðsvirði Skeljungs um 14,5 milljarðar króna miðað við útboðsgengi
Vel  heppnuðu  almennu  útboði  á  hlutabréfum  í  Skeljungi  hf.  lauk  í  gær,
miðvikudaginn  30. nóvember  klukkan  16.00. Um  2.500 fjárfestar  óskuðu  eftir
kaupum  á  hlutabréfum  í  Skeljungi  fyrir  samtals  yfir  12 milljarða  króna.
Niðurstaða  seljenda  er  að  úthluta  um  2.000 fjárfestum samtals 31,5% hlut á
genginu  6,9 krónur á hlut.  Söluandvirði útboðsins nemur  því um 4,6 milljörðum
króna  og reiknast  markaðsvirði alls  hlutafjár í  Skeljungi um 14,5 milljarðar
króna miðað við niðurstöðu útboðsins.

Í ljósi mikillar eftirspurnar ákváðu Arion banki hf. og SÍA II slhf. að fullnýta
heimild  sína til að stækka  útboðið. SF IV slhf.  selur í útboðinu 23,5% hlut í
Skeljungi hf., Arion banki 4% og SÍA II 4%.

Fyrir  liggur að 11,75% hlutur  verður seldur til  fjárfesta í tilboðsbók A (þar
sem mögulegt verðbil var 6,1-6,9 kr./hlut) og 19,75% hlutur seldur til fjárfesta
í  tilboðsbók B  (þar sem  lágmarksgengi var  6,1). Fjárfestar í tilboðsbók A fá
úthlutað  ríflega helming  þess sem  þeir óskuðu  eftir að kaupa, nema áskriftir
verða  ekki skertar undir  500 þúsund krónur. Áskriftir  sem bárust á verði yfir
6,9 krónur  á hlut í tilboðsbók  B verða óskertar en  úthlutun til fjárfesta með
áskriftir á útboðsgenginu nemur um fjórðungi af áskrift.

Fjárfestum  verða sendar upplýsingar um  úthlutun ásamt greiðslufyrirmælum eftir
að  Nasdaq Iceland  hefur staðfest  að hlutir  í Skeljungi  hf. verði teknir til
viðskipta   á   Aðalmarkaði  Kauphallarinnar.  Gert  er  ráð  fyrir  að  eindagi
greiðsluseðla  vegna  útboðsins  verði  miðvikudaginn  7. desember  næstkomandi.
Fjárfestingarbankasvið    Arion    banka    hefur   umsjón   með   útboðinu   og
fyrirtækjaráðgjöf  Íslandsbanka  hf.  hefur  umsjón  með  fyrirhugaðri skráningu
félagsins  í Kauphöllina. Áætlað er  að föstudaginn 9. desember næstkomandi geti
viðskipti hafist með hluti í Skeljungi á Aðalmarkaði.

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs:

"Það  er afar ánægjulegt  að sjá þessa  góðu niðurstöðu í  útboðinu. Hún tryggir
leið  Skeljungs aftur  inn á  hlutabréfamarkað eftir  að hafa starfað sem óskráð
félag  í  ríflega  áratug.  Þessi  áfangi  er  mikilvægt skref fyrir fyrirtækið,
starfsfólk, hluthafa og viðskiptavini. Við hjá Skeljungi hlökkum til að takast á
við  framtíðina í skráðu  félagi og bjóðum  nýja hluthafa hjartanlega velkomna í
hópinn."

Nánari upplýsingar veita:
Haraldur   Guðni  Eiðsson,  forstöðumaður  samskiptasviðs  Arion  banka  -  sími
444 7108 - haraldur.eidsson@arionbanki.is
Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs - sími 444 3022 - vmb@skeljungur.is

[]